UT-stefna dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
Hádegisverðarfundur dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og Skýrslutæknifélagsins
um framfarir í opinberri þjónustu með upplýsingatækni.
16. mars, 2006.
Nú eru liðnir 17 mánuðir síðan AUFT-verkefnið (Átak í upplýsinga- og fjarskiptatækni) fór af stað á vegum ráðuneytisins. Þorsteinn Helgi Steinarsson var ráðinn af ráðherra sem sérstakur ráðgjafa og stjórnandi þessa verkefnis. Síðan hefur verið unnið að því að móta stefnu og hrinda henni í framkvæmd. Að mínu mati hefur árangurinn orðið góður en miklu skiptir að nýta þessa tækni sem best í störfum um 40 stofnana og um 1300 starfsmanna á vegum ráðuneytisins í um 60 starfstöðvum um land allt.
Undir forystu dómsmálaráðherra hefur verið lögð áherla á, að ávallt sé leitað lausna með það í huga, að nýta sem mest og best krafta markaðarins. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur unnið að átakinu í upplýsinga og fjarskiptatækni með það að leiðarljósi, að fá til liðs við sig öflug fyrirtæki. Ráðuneytið hefur hvorki rekið eigin forritun né framleiðslu. Kerfi hafa verið hönnuð utan ráðuneytisins eða tölvumiðstöðvar þess.
Hlutverk Tölvumiðstöðvar dómsmálaráðuneytisins (TMD), sem skilin var frá umferðarstofu og hefur nú aðsetur í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð, er að hýsa rekstur viðkvæmra tölvukerfa. Miðstöðin lýtur eigin stjórn og stofnar til samningssambands við þær stofnanir ráðuneytisins, sem hún selur þjónustu sína.
Rekstur gagnakerfa TMD er háður ýtrustu öryggiskröfum varðandi gagnaleynd ekki síst gagnvart Schengen-samstarfinu, þátttöku í Interpol og öðru alþjóðlegu lögreglusamstarfi.
Öryggis þarf ekki síður að gæta við meðferð innlendra trúnaðarupplýsinga bæði af tilliti við hagsmuni einstaklinga og rannsóknarhagsmuni lögreglu, lögreglustjóra, saksóknara og dómstóla. Þetta hefur leitt af sér, að TMD rekur eigið lokað víðnet.
Miðað við núverandi aðstæður hefur ráðuneytið ekki talið skynsamlegt að úthýsa grunnsatrfsemi TMD. Ég hef hins vegar hvatt til þess, að menn missi ekki sjónar af því markmiði að hýsa að minnsta kosti hluta starfseminnar utan miðstöðvarinnar, þótt síðar verði.
Segja má, að undanfarna mánuði hafi mikil grunnvinna verið unninn og hún sé að skila sér á margvíslegan hátt í innra starfi ráðuneytisins og stofnana þess með það að leiðarljósi að auðvelda síðan alla þjónustu við almenning, án þess að slegið sé af nauðsynlegum öryggiskröfum.
Þetta starf hefur til dæmis leitt til þess, að ráðuneytið getur af meira öyggi en áður stefnt að því að flytja ýmis verkefni frá sér til annarra stofnana, eins og sýslumannsembætta utan höfuðborgarsvæðisins. Ég nefni tvö: Í fyrsta lagi innheimtu sekta og sakarkostnaðar til nýrrar miðstöðvar á Blönduósi og útgáfu hins rafræna Lögbirtingablaðs til Víkur.
Við gerum okkur ljóst, að ekki verður unnt að skapa sama rafræna starfsumhverfið alls staðar, án þess að nýta í senn gagnagrunna og hina nýju tækni og ég endurtek enn með strangar öryggiskröfur að leiðarljósi.
Á þessum kynningarfundi okkar hér í dag verður leitast við að skýra fá því, sem nú ber hæst í þessu átaki okkar.
Þorsteinn Helgi Steinarsson mun lýsa því, hvernig ráðuneytið hefur nálgast úrlausn upplýsingatækniverkefna í því skyni að bæta þjónustu sína.
Ráðuneytið gerði nýlega samning við um nýja rafræna samskiptaleið við almenning og hér á fundinum mun Bjarni Birgisson, framkvæmdastjóri Kögunar hf., kynna þetta nýja rafræna þjónustulag. Þá hefur ráðuneytið samið við dótturfyrirtæki Kögunar um útvíkkun á upplýsingakerfi útlendingastofnunar og leyfisveitingakerfi lögregu.
Ólafur Daðason, forstjóri Hugvits hf., mun ræða um nýtt mála- og þekkingarstjórnunarkerfi fyrir stofnanir ráðuneytisins. Markmiðið með því er skapa sambærilegt vinnuumhverfi fyrir alla starfsmenn á vegum ráðuneytisins og auðvelda þeim aðgang að öllum nauðsynlegum gögnum vegna starfa þeirra.
Eins og jafnan á langri leið, gerist eitthvað, sem ekki var ætlað í upphafi. Ég ákvað til dæmis að fella gerð nýrra vegabréfa inn í ramma átaksins og til að allir kraftar nýttust sem best var síðan hafin vinna við að flytja Þjóðskrá frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins – en frumvörp um það efni liggja nú fyrir alþingi.
Haukur Guðmundsson, skrifstofustjóri í ráðuneytinu, ræðir um rafræn auðkenni, en athygli er beint að þeim vegna lykilhlutverks Þjóðskrár og þeirrar tækni, sem ráðuneytið hefur nú aflað sér vegna útgáfu hinna nýju vegabréfa.
Góðir áheyrendur!
Ég fagna því, hve margir hafa sótt þennan kynningarfund og þakka Ský fyrir að standa að undirbúningi hans. Samstarf við félagið er mikils virði fyrir alla, sem sinna þróun og nýsköpun á starfsviði þess.