Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. maí 2006 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Norræn björgunarráðstefna.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, setti að morgni 3. maí Norræna björgunarráðstefnu, sem haldin er á hótel Loftleiðum og lýkur á föstudag.

Hér birtist ræða ráðherrans.

Ég býð ykkur velkomin til fyrstu norrænu björgunarráðstefnunnar, sem haldin er á Íslandi. Nú eru fimm ár liðin frá því, að Ísland gerðist aðili að hinum norræna samningi um samstarf í björgunarmálum. Var það tímabært skref til að treysta á formlegan hátt samstarf okkar um þessi mikilvægu mál.

Vona ég, að hér í Reykjavík eigið þið góðar og gagnlegar umræður um  það, sem er á vel skipulagðri dagskrá ráðstefnunnar. Ber hún vitni um góðan undirbúning eins og er vel við hæfi, þegar menn með ykkar reynslu koma saman, en eins og þið vitið best getur góð dagskrá og áætlanir skipt sköpum, þegar mikið er í húfi.

 

Frá því að þið hittust síðast á fundi sem þessum, hefur heimsbyggðin öll orðið vitni að því, hve mikils virði er að búa í haginn fyrir nána og virka samvinnu þjóða á sviði björgunarmála.

 

Ég nefni flóðbylgjuna miklu á Indlandshafi, jarðskjálftana í Pakistan og ofviðrið við New Orleans. Í öllum þessum tilvikum hefur reynt á alþjóðlega samvinnu og hún hefur mikið gildi, hvort sem eitt ríki eða fleiri eiga hlut að máli og hvort sem þau eru rík eða fátæk, háþróuð eða lítt þróuð.

 

Við Íslendingar minnumst þess, hve mikils virði var að finna samhug og stuðning frá fjölmörgum þjóðum, þegar eldgos varð í Vestmannaeyjum við suðurströnd landsins í janúar 1973 og á einni dimmri vetrarnóttu þurfti að flytja 5300 íbúa á brott undan ösku, hrauni og eldglæringum.

 

Hitt var síðan langvinnt verkefni með stuðningi annarra þjóða að búa fólkinu hæfilegan samanstað fjarri heimilum sínum, stöðva hraunrennslið og síðan hreinsa öskuna í Eyjum. Af 1345 íbúðarhúsum grófust nær 400 hús undir ösku og hraun en önnur 400 skemmdust að meira eða minna leyti. Nú er blómleg byggð í Vestmannaeyjum og kannski 5000 ár í næsta gos.

 

Þegar eldgosið varð í Vestmannaeyjum, voru um tíu ár liðin frá því að Íslendingar settu lög um almannavarnir, en við gerð áætlana á grundvelli þeirra, var í senn hugað að vá vegna kjarnorkuvopna og náttúruhamfara. Rétt er að nefna, að Íslendingar hafa jafnan litið svo á, að náttúrukraftarnir séu þeim hættulegri en vá af mannavöldum.

 

Við ráðum ekki yfir eigin herafla og höfum raunar frá árinu 1951 treyst á varnasamning við Bandaríkjamenn og aðild okkar að NATO, þegar til þess er litið að verja land okkar gegn hernaðarlegri árás. Hinn 15. mars síðastliðinn tilkynnti Bandaríkjastjórn, að frá og með september næstkomandi myndi hún kalla héðan orrustuþotur og þyrlubjörgunarsveit sína. Má segja, að með brotthvarfi þess liðsafla verði þau þáttaskil í framkvæmd varnarsamningsins, að síðustu leifar þess viðbúnaðar, sem talinn var nauðsynlegur á tímum kalda stríðsins, sé að hverfa.

 

Viðræður hafa farið fram milli íslenskra og bandarískra embættismanna um varnarmál og framkvæmd varnarsamningsins við nýjar aðstæður. Af hálfu okkar Íslendinga hefur verið lögð áhersla á, að fyrir hendi séu haldgóðar áætlanir og viðbúnaður til varna landinu og án sýnilegs inntaks sé varnarsamningurinn lítils virði.

 

Þyrlubjörgunarsveit varnarliðsins hefur verið ómetanleg til leitar og björgunar á Norður-Atlantshafi og á Íslandi undanfarna áratugi. Þótt meginverkefni sveitarinnar hafi verið að tryggja öryggi flugmanna á orrustuvélum Bandaríkjahers hafa þyrlur hennar ávallt verið til taks til leitar og björgunar. Mikil langdrægni þeirra hefur verið tryggð með eldneytisflugvél.

 

Áður en tilkynnt var, að flugsveitirnar yrðu fluttar héðan í september, hafði ríkisstjórn Íslands lýst yfir því í viðræðum við Bandaríkjastjórn, að Landhelgisgæsla Íslands gæti tekið að sér verkefni þyrlubjörgunarsveitarinnar. Hefur verið ákveðið, að landhelgisgæslan haldi úti að minnsta kosti þremur þyrlum, sem taki um 20 manns hver, eða eins og Super Puma þyrlan, sem landhelgisgæslan starfrækir núna. Hefur verið hafinn undirbúningur að því að útvega slíkar þyrlur og búa varðskip gæslunnar þannig úr garði, að þyrlurnar geti tekið eldsneyti úr þeim, auk þess sem auglýst hefur verið eftir fleira starfsfólki hjá landhelgisgæslunni.

 

Unnið er að undirbúning á smíði nýs varðskips og er tekið mið af  Harstad-skipi norsku landhelgisgæslunnar. Einnig eru kaup á nýrri eftirlitsflugvél gæslunnar á dagskrá. Endurnýjun skipa og flugvéla landhelgisgæslunnar er dýrasta verkefnið á sviði björgunarmála, sem íslenska ríkið vinnur að um þessar mundir.

 

Verkefnin eru þó mun fleiri og víða hefur náðst mjög góður árangur á undanförnum árum í þeirri viðleitni að efla viðbúnað í þágu björgunarmála. Í því efni njótum við Íslendingar þess, að í landinu starfa öflug samtök almennings, Slysavarnafélagið Landsbjörg, sem starfa á markvissan hátt að því að tryggja öryggi borgaranna á landi og sjó með 18.000 félagsmönnum, björgunarsveitum um land allt, og góðum tækjakosti til björgunar til lands og sjávar.

 

Vöxtur samhæfðar björgunarmiðstöðvar undir handarjaðri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra hefur verið mikill og árangursríkur síðustu ár . Innan vébanda miðstöðvarinnar koma saman á einum stað fulltrúar allra, sem þurfa að leggja skerf af mörkum á hættustundu.

 

Fyrir nokkrum vikum voru æfð viðbrögð við hugsanlegu eldgosi og vatnsflóði á suðurströnd landsins og var þá björgunarmiðstöðin virkjuð og einnig í æfingu vegna viðbragða við hugsanlegum fuglaflensufaraldri. Eftir því sem fleiri fá tækifæri til að kynnast þeim kostum, sem felast í þessari nánu og samhæfðu samvinnu viðbragðsaðila, því fleiri átta sig á einstæðu gildi stöðvarinnar.

 

Ég veit, að björgunarmiðstöðin verður kynnt ykkur hér á ráðstefnunni og ætla því ekki að hafa fleiri orð um ágæti  hennar.

 

Eins og ég hef áður vikið að eru lög um almannavarnir á Íslandi meira en 40 ára gömul og undanfarna mánuði hefur verið unnið að því á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að semja frumvarp að nýjum lögum um þetta efni, þar sem tekið er mið af stöðunni eins og hún er um þessar mundir.

 

Okkur hefur tekist vel undafarin ár að stilla saman strengi allra, sem verða að koma að björgunarmálum og almannavörnum. Hin nýju lög munu taka mið af þessari staðreynd og leggja grunn að enn nánara samstarfi lögreglu, slökkviliðs, landhelgisgæslu, björgunarsveita, flugmálastjórnar og heilbrigðisstofnana auk þess sem Neyðarlínan 112 verður lykilaðili innan þessa samhæfða kerfis.

 

Löggjöfin mun einnig taka mið af þeirri breytingu, sem orðið hefur um heim allan, að lögð er meiri áhersla en á áður á gerð viðbragðsáætlana auk rannsókna á áfallaþoli þjóðfélaga. Viðbúnaður og samhæfing munu taka mið af þessu.

 

Neyðarþjónusta hefur gjörbreyst á síðustu tíu árum. Ný lög um almannavarnarnir verða að endurspegla þá breytingu um leið og þau skapa nauðsynlegan sveigjanleika til að bregðast skynsamlega við framtíðarverkefnum.

 

Tækniframfarir síðustu 10 ára eru meiri en nokkur gat spáð, bæði í tölvum og fjarskiptum. Fyrir 10 árum voru GSM símar fáir en nú eru þeir í hvers manns höndum. Þá var netnotkun að ryðja sér rúms en nú nýta tæplega 90% Íslendinga sér netið á einn eða annan hátt. 

 

Lögregla tók nýtt fjarskiptakerfi á svonefndum TETRA-staðli í notkun árið 2000. Með þessu kerfi hefur tekist að stytta viðbragðstíma bæði lögreglu og sjúkraflutningamanna, eftir að boð berast frá Neyðarlínunni 112. Ferilvöktun á ferðum lögreglu- og sjúkrabifreiða í gegnum TETRA auðveldar skjót viðbrögð.

 

Á undanförnum árum hefur sannast hér og annars staðar, að TETRA-kerfið er öðrum kerfum betra við stjórn neyðar- og björgunaraðgerða og vöktun viðbragðsaðila. Nú er nauðsynlegt að endurnýja miðbúnað kerfisins í takt við tæknibreytingar, fjölga sendum og skiptistöðvum í kerfinu. Með þessu eykst skilvirkni TETRA-kerfisins, en það nær nú um 200 km radíus frá Reykjavík,  auk þess sem kerfið er notað á takmörkuðu svæði á Norðurlandi umhverfis Akureyri og á Vestfjörðum í kringum Ísafjörð.

 

Góðir áheyrendur!

 

Í þessum orðum mínum hef ég stiklað á stóru til að lýsa því, hvað er að gerast hér á landi á sviði björgunarmála.

 

Ég lýk máli mínu með því að vísa til þess, sem ég sagði í upphafi um gildi alþjóðlegs samstarfs í björgunarmálum. Okkur Íslendingum er ljóst, að við höfum ekki til þess burði einir að veita þá þjónustu, sem krafist er á þessu sviði á hinu mikla hafsvæði, sem lýtur lögsögu okkar.

 

Við brotthvarf bandarísku þyrlubjörgunarsveitarinnar héðan verða þáttaskil fyrir fleiri en okkur Íslendinga, þegar litið er til björgunarmála á Norður-Atlantshafi. Við munum auka viðbúnað okkar en munum jafnframt í ríkara mæli en áður treysta á samstarf við norræna nágranna okkar, einkum Dani og Norðmenn.

 

Ég nefni sérstaklega samstarfið við danska flotann, sem heldur að jafnaði úti öflugum skipum og þyrlum á hafsvæðinu frá Færeyjum til Grænlands. Finnst mér ánægjulegt, hve gott samstarf er á milli Landhelgisgæslu Íslands og danska flotans á öllum sviðum og ekki síst um björgunarmál og ég sé það aðeins eflast og dafna, þegar fram líða stundir.

 

Ásamt með Norðmönnum þurfum við einnig að huga að nýjum aðstæðum á hafsvæðum hér á norðurslóðum, þegar  flutningur á olíu og gasi frá Barentshafi til Norður-Ameríku með risaskipum kemur til sögunnnar af fullum þunga.

 

Verkefnin eru mörg og spennandi og þau verða ekki leyst af því öryggi, sem þarf að vera fyrir hendi, nema þjóðir taki höndum saman. Þess vegna vona ég, að ráðstefna ykkar hér eigi eftir að skila góðum árangri.

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta