Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra við stækkun Kvíabryggju
Fangelsið á Kvíabryggju hefur verið stækkað og fjölgar föngum þar úr 14 í 22. Í tilefni af þessu efndi Fangelsismálastofnun til málþings um opin fangelsi á Kvíabryggju í dag, 3. október, og flutti Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra meðfylgjandi ávarp við það tilefni. Þar ræðir hann framkvæmd áætlunar um uppbyggingu fangelsa, samstarf við einkaaðila um rekstur á þessu sviði og um innra starf fangelsa.
Ávarp Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra:
Kvíabryggja stækkar
3. október 2007
Með þessari athöfn hér á Kvíabryggju í dag lýkur fyrsta áfanga áætlunar dómsmálaráðuneytisins og fangelsismálastofnunar um endurnýjun og nýbyggingar fangelsa í landinu.
Áætlunin er fjórþætt og til hennar er vitnað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þar sem segir: „Fylgja þarf eftir áætlunum um uppbyggingu fangelsa.“
Í fyrsta lagi felst í áætluninni að fjölga rýmum hér á Kvíabryggju úr 14 í 22 og auka hlutdeild fanga í rekstri fangelsisins.
Í öðru lagi að endurnýja og bæta fangelsið á Akureyri en framkvæmdum þar lýkur um áramótin.
Í þriðja lagi að reisa aðkomu- og heimsóknarhús á Litla Hrauni og byggja deild með sex klefum fyrir konur og sérdeild fyrir fanga, sem búa við opnari aðstæður en nú er unnt á staðnum.
Í fjórða lagi verði reist nýtt fangelsi með 64 klefum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem verði gæsluvarðhald, afplánun í skamman tíma, meðferðar- og sjúkradeild.
Áætlunin var samþykkt árið 2005 af þáverandi ríkisstjórn. Í tilefni þessa atburðar hér í dag ræddi ég framkvæmd hennar á fundi ríkisstjórnarinnar í gær og í lok þeirra umræðna staðfesti ríkisstjórnin, að áfram yrði unnið að uppbyggingu fangelsanna í landinu í samræmi við áætlunina.
Hraði framkvæmda ræðst að sjálfsögðu af fjárveitingum.
Nýtt fangelsi í Reykjavík eða nágrenni borgarinnar hefur verið á döfinni í fjóra áratugi og verður ekki lengur við það unað, að menn láti sér nægja að ræða málið og býsnast yfir því, hve aðstaðan í gamla hegningarhúsinu við Skólavörðustíg rými illa við nútímakröfur um rekstur fangelsa.
Ég tel eðlilegt, að skoðað sé til hlítar, hvort ríkið eigi sjálft að standa að byggingu og rekstri hins nýja fangelsis. Á sama tíma og sú stefna hefur verið mótuð, sem verið er að hrinda í framkvæmd hér á Kvíabryggju, að föngum sé treyst meira en áður með sérstökum samningi fyrir rekstri og starfsemi fangelsisins, er ekki óeðlilegt, að þeirri spurningu sé velt fyrir sér, hvort stofna eigi með samningi til samstarfs við einkaaðila um byggingu og jafnvel rekstur fangelsa.
Löng og góð reynsla er af samvinnu við Vernd, sem rekur eins og kunnugt er áfangaheimili í Reykjavík og hefur verið unnið að því að lengja vistunartíma fanga þar. Þá hefur fangelsismálastofnun einnig átt samstarf við aðra einkaaðila, sem hafa aðstöðu til að auðvelda föngum aðlögun að samfélaginu. Á árinu 2006 voru til dæmis 49 fangar sendir í meðferð á stofnanir en þeir voru 15 árið 2003.
Miðað við hinn mikla áhuga margra í þjóðfélaginu á málefnum og velferð fanga, kæmi ekki á óvart, að unnt yrði að virkja einkaframtak til enn meira samstarfs um verkefni á vegum fangelsismálastofnunar.
Um síðustu helgi var fimm dálka forsíðufrétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: Það er til annað líf en fangelsi. Hófst hún á þessum orðum:
„Mikil vakning hefur orðið í meðferðarstarfi á Litla-Hrauni. Um 20 fangar mæta á fundi hjá AA-samtökunum fjórum sinnum í viku, sem er um fjórðungur allra fanga í fangelsinu. „Það er heimsmet,“ fullyrti einn af þeim sem skipuleggja fundina.“
Þessi lýsing sýnir góðan hug og vilja fanga til að nýta sér leiðir til betrunar. Og lýsingin er í andstöðu við þá mynd, sem alltof oft er brugðið upp af lífi fanga.
Hið sama blasir við í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg samkvæmt skýrslu þaðan frá 15. september, þar sem segir að í næstum tvo mánuði hafi andrúmsloftið þar verið með eindæmum gott. Góður andi ríki, menn séu jákvæðir og allflestir að vinna eitthvað í sínum málum. Fangarnir hafi stofnað með sér AA samtök vistmanna Skólavörðustíg 9. Útivistir séu nýttar til hins ýtrasta og fótbolti leikinn tvisvar á dag.
Einnig má vitna til ársskýrslu umboðsmanns alþingis fyrir 2006. Þar kemur fram að kvörtunum vegna fangelsismála hafi fækkað verulega á árinu 2005 og að framhald hafi orðið á þeirri þróun árið 2006. Síðan segir umboðsmaður: „...Meðal annars með hliðsjón af þeim samtölum sem ég hef átt við fanga tel ég ljóst að þessa breytingu megi að stórum hluta skýra með breyttu verklagi sem tekin var upp af hálfu fangelsismálastofnunar...“
Ég tel þessar tilvitnanir til marks um mikið og gott starf á vegum fangelsismálastofnunar og er mér sérstök ánægja að þakka öllum starfsmönnum stofnunarinnar fyrir framlag þeim til að skapa þennan góða brag í fangelsunum í samvinnu við fanga.
Raunar fer einstaklega vel á því færa slíkar þakkir hér á Kvíabryggju, þar sem hjónin Vilhjálmur Pétursson og Sigurrós Geirmundsdóttir leiddu í meira en þrjá áratugi starfið sem forstöðumaður og matráðskona. Þau hafa mótað staðarandann með því að sýna föngum mannúð og umhyggju. Sérstök eftirlitsnefnd á vegum Evrópuráðsins hefur farið lofsamlegum orðum um árangurinn hér undir forystu þeirra hjóna.
Ég veit, að Geirmundur Vilhjálmsson, hinn nýi forstöðumaður, leiðir starfið hér með sama markmið að leiðarljósi og foreldrar hans. Óska ég honum og samstarfsmönnum hans og öllum, sem hér dvelja, góðs árangurs á þessum merku tímamótum.
Þá vil ég þakka Grundfirðingum sambúðina við Kvíabryggju í meira en hálfa öld. Hún hefur verið einstaklega góð og engum hefði dottið í hug, að ráðast í þá stækkun, sem við fögnum í dag, nema vegna þess, að hér nýtur fangelsið velvildar.
Góðir áheyrendur!
Markmið okkar, sem berum ábyrgð á uppbyggingu og rekstri fangelsa, er ekki, að byggja meira til að geta tekið á móti fleiri föngum – markmið okkar er, að finna leiðir til að fækka þeim, sem er refsað á þennan hátt.
Við skulum ekki gleyma því markmiði, þegar við fögnum stækkun Kvíabryggju og umsvifin hér aukast.