Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. október 2007 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Fullnaðarvald þjóðkirkju

 

Fullnaðarvald þjóðkirkju

Kirkjuþing,

20. október, 2007.

Ég vil þakka gott og ánægjulegt samstarf við biskup Íslands og vígslubiskupa og aðra þjóna kirkjunnar á liðnu ári.

Þegar við komum hér saman á síðasta ári, kynnti ég niðurstöðu samningaviðræðna ríkis og kirkju um prestssetur og boðaði, að ég myndi flytja frumvarp til laga um staðfestingu á því, enda veitti kirkjuþing málinu brautargengi. Allt gekk þetta eftir og alþingi samþykkti frumvarpið 17. mars 2007.

Ég ætla ekki að árétta mikilvægi þessarar niðurstöðu hér. Hún hefur enn orðið til þess að auka sjálfstæði kirkjunnar og ræður hún nú öllum innri málum sínum, eins og að hefur verið stefnt allt frá því Ísland fékk heimastjórn og fyrstu lögin um samskipti ríkis og kirkju voru sett fyrir réttum 100 árum, það er árið 1907.

Í aðdraganda þeirrar lagasetningar var samið frumvarp til laga um kirkjuþing fyrir hina íslensku þjóðkirkju og varð það til innan nefndar, sem skipuð var í mars 1904 til að koma fram með tillögur um „hagkvæma skipun kirkjumálanna, er veiti þjóðkirkjunni slíkt sjálfstæði og sjálfstjórn í sínum eigin málum, sem hún eftir eðli sínu og 45. gr. stjórnarskrárinnar [nú 62. gr.] á heimtingu á og þarfnast til þess að geta fullnægt ákvörðun sinni,“ eins og það er orðað í erindisbréfi nefndarinnar.

 

Í áliti meirihluta þessarar nefndar segir meðal annars: „Vér verðum að líta svo á, að það hafi aldrei verið tilætlun löggjafans, að kirkjan skyldi vera studd og vernduð af ríkinu svo sem dauð stofnun og ómyndug, er ekki hefði neinar óskir fram að bera og ekkert skyn bæri á eigin þarfir sínar, heldur hafi það verið tilætlunin, að hið opinbera styddi og verndaði þjóðkirkjuna sem lifandi stofnun, með því að láta hana sjálfa ráða sem mestu um eigin mál.“

 

Nefndarmenn veltu fyrir sér stöðu kirkjunnar gagnvart konungi og sem þjóðkirkja yrði hún að sjálfsögðu að vera háð „æðsta höfðingja ríkisins“, svo að hann hefði í höndum fullnaðarvald í stjórn kirkjumálanna ekki aðeins hinna ytri og sameiginlegu mála, heldur einnig hinna innri eða kirkjulegu sérmála. Með því að svipta konunginn þessu valdi, riði hin lúterska kirkja í bága við sína sögulegu hefð.

 

Kirkjan sem þjóðkirkja gæti á hinn bóginn ekki unað því, að innri málum hennar, sérmálum, sem snertu guðsdýrkun einstaklinga í safnaðarfélaginu og hið andlega líf yfirleitt, væri ráðið til lykta að henni fornspurðri ef til vill af manni, sem engin trygging væri fyrir, að bæri nægilegt skyn á þarfir hennar eða væri það nokkurt áhugamál, að hagur kirkjunnar stæði með blóma.

 

Hún gæti ekki unað því fyrirkomulagi, að hægt væri að neyða upp á hana ráðstöfunum snertandi innri mál hennar, sem gætu orðið henni til tjóns og til hnekkis hinu andlega lífi hennar. Þess vegna væri það ósk kirkjunnar, að hin kirkjulegu sérmál yrðu lögð undir atkvæði kirkjuþings – að kirkjunni yrði veitt samþykktarvald í sínum innri málum og þeim hvorki ráðið til lykta að kirkjunni fornspurðri, né beint á móti vilja og óskum kirkjunnar.

 

Nefndarmenn sögðust ekki vilja draga nein völd úr hendi alþingis, það yrði að hafa öll ytri mál þjóðkirkjunnar til meðferðar meðan hún sem þjóðkirkja stæði í sambandi við ríkið og nyti verndar og stuðnings hins opinbera. Og hvað snerti það fé, sem alþingi kynni að leggja til þjóðkirkjunnar, yrði það að álítast harðla eðlileg og réttmæt krafa, að kirkjunni sjálfri, sem þekkti best alla sína hagi, yrði þar veitt ráðstöfunarvald í líkingu við það, sem ýmsum öðrum og minni félögum væri veitt, án þess að nokkur liti svo á, sem það bryti í minnsta máta í bága við rétt fjárveitingavaldsins.

 

Hugmyndirnar, sem þarna er lýst, eru enn í fullu gildi, þótt þær hafi ekki dugað til þess fyrir hundrað árum, að tillagan um kirkjuþing yrði að landslögum. Það gerðist ekki fyrr en 50 árum síðar eða 21. maí 1957, að alþingi samþykkti frumvarp til laga um kirkjuþing og kom það fyrst saman á árinu 1958, eins og kunnugt er.

 

Í janúar 1997 var efnt til aukakirkjuþings til að ræða frumvarp til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar en það hafði verið nokkur ár í smíðum og byggðist meðal annars á samkomulagi um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar, sem kirkjueignanefndir ríkis og kirkju náðu á fundi 10. janúar 1997.

 

Þetta lagafrumvarp samþykkti alþingi 26. maí 1997 en höfuðforsendur þess voru að koma til móts við verulega aukningu í innra starfi kirkjunnar og styrkja stjórnsýslu á kirkjulegum vettvangi, auka sveigjanleika í starfi kirkjunnar og að bregðast við umræðum á pólitískum vettvangi um að endurskoða þurfi samband ríkis og kirkju.

 

Í þessu skyni var sjálfstæði þjóðkirkjunnar á starfs- og stjórnunarsviði hennar aukið. Í greinargerð með frumvarpinu er lögð rík áhersla á, að þjóðkirkjan sé sjálfstæð stofnun, sjálfstæður réttaraðili, sem getur borið, og ber, réttindi og skyldur að lögum.

 

Nefndin, sem samdi frumvarpið frá 1997, sagði í áliti sínu:

 

„Það er ætlan og vissa nefndarinnar að aukin sjálfsstjórn íslensku þjóðkirkjunnar og ábyrgð, sem þar af leiðir, muni auðvelda kirkjunni störf hennar og efla kirkjunnar menn til samræmdra átaka í starfi. Hafi kirkjan og sýnt, með nærfellt eitt þúsund ára starfi sínu í landinu, að henni sé treystandi til sjálfsstjórnar. Þá skal eigi undan dregið að aukinni sjálfsstjórn kunni að fylgja ný vandamál innan kirkjunnar (a. m. k. í augum sumra) þar sem í „návígi“ verður tekist á um mál er embættismenn ríkisins önnuðust áður, þar með talið ýmsa ráðstöfun fjármuna. Þessi vandamál á þó kirkjan að geta leyst innan sinna vébanda.“

 

Góðir áheyrendur!

 

Tillaga liggur fyrir því kirkjuþingi, sem nú er að hefjast, um að skipuð verði nefnd til að endurskoða löggjöf um þjóðkirkjuna. Er talið mikilvægt að leggja mat á reynslu síðustu 10 ára og í ljósi þess að huga að nýjum lagaramma þjóðkirkjunnar. Ég fagna þessari tillögu og tel til dæmis eðlilegt að hugað verði að því að fella úr gildi lögin frá 1931 um að kirkjumálaráðherra skuli setja gjaldskrá til 10 ára í senn um aukaverk presta. Er eðlilegt, að kirkjan setji sjálf slíka gjaldskrá.

 

Í einhverju skjali, sem ég las, þegar ég tók saman þessi orð, segir, að kirkjumálaráðherra hafi í reynd mikil völd varðandi ytri mál kirkjunnar, en hefð sé fyrir því, að hann beiti þeim af hófsemi. Þessi setning lýsir fortíð en ekki nútíð og því síður framtíð, því að þessi völd ráðherrans eru í raun úr sögunni fyrir utan setningu þessarar gjaldskrár.

 

Á vettvangi ríkisstjórnar og við biskup hefur verið rætt, hvort við hinar nýju aðstæður í samskiptum ríkis og kirkju, sé ástæða til að huga að stöðu þjóðkirkjunnar innan stjórnarráðsins – leggja niður verkefnalausan kirkjumálaráðherra og færa þjóðkirkjuna til forsætisráðherra, þar sem hún skipaði sess með alþingi og embætti forseta Íslands.

 

Niðurstaða í þessu máli liggur ekki fyrir. Innan kirkjumálaráðuneytisins er sinnt stjórnsýslulegum verkefnum, sem ekki snerta þjóðkirkjuna en þarf að sinna engu að síður og huga þarf að vistun þeirra, má þar nefna skráningu trúfélaga og málefni kirkjugarða.

 

Tíminn leiðir í ljós, hvernig þessum málum verður skipað. Á hinn bóginn má segja, að það sé rökrétt þróun samskipta ríkis og kirkju síðustu hundrað ár, að nú sé skerpt á sjálfstæði kirkjunnar með breytingu á vettvangi stjórnarráðsins eftir allar hinar miklu breytingar, sem orðið hafa á ytri umgjörð þjóðkirkjunnar.

 

Ég óska kirkjuþingi velfarnaðar í mikilvægum störfum þess. Megi þjóðkirkjan dafna til heilla fyrir land og þjóð.

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta