Dóms- og kirkjumálaráðherra flutti erindi í Harvard-háskóla
Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra flutti í gær erindi um loftslagsbreytingar og hlut Íslands í öryggismálum á Norður-Atlantshafi í Belfer Center í Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Að loknu erindinu tók ráðherrann þátt í málstofu um viðfangsefnið.
Í máli sínu ræddi dóms- og kirkjumálaráðherra um vaxandi hlutverk borgaralegra stofnana, lögreglu og landhelgisgæslu, við öryggisgæslu á sjó og landi. Ekki væri skynsamlegt að beita herflota við að gæta öryggis á siglingaleiðum eða til að leysa úr deilum um yfirráð á Norðurpólnum.
Ráðherrann ræddi brottför bandaríska varnarliðsins frá Íslandi og taldi hana bera vott um skammsýni með hliðsjón af miklum hagsmunum Bandaríkjamanna af því að fyllsta öryggis sé gætt á siglingaleiðum olíu- og gasflutningaskipa. Hann hvatti til þess að samstarf yrði aukið milli landhelgis- og strandgæslna á N-Atlantshafi.
Í dag mun dóms- og kirkjumálaráðherra heimsækja stöð bandarísku strandgæslunnar í Boston en hún starfar í nánum tengslum við Landhelgisgæslu Íslands.