Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. febrúar 2008 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Öryggi til sjós og lands

Björn Bjarnason:

Öryggi til
sjós og lands

 

Rotarýklúbbur Reykjavíkur,

6. febrúar, 2008.

 

Síðastliðið haust flutti ég erindi á ráðstefnum og fundum um öryggismál í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Bandaríkjunum og auk þess á NATO-þinginu, sem haldið var hér í Reykjavík.

Þessi fundalota minnti mig á níunda áratug síðustu aldar, þegar ég tók einnig oft þátt í umræðum um öryggismál á Norður-Atlantshafi víða um lönd. Þá voru aðrir tímar en nú, enda kalda stríðið háð af fullum þunga.

Fyrir rúmum tuttugu árum var einkum rætt um flotastefnu Bandaríkjamanna undir forystu Ronalds Reagans, stefnu, sem miðaði að því að senda kafbáta og flotadeildir norður fyrir Ísland og Noreg til að hefta útrás sovéska flotans sem næst heimahöfn hans í Murmansk. Þá var því haldið fram í fúlustu alvöru, að Keflavíkurstöðin væri þungamiðja í kjarnorkuáformum Reagans um árás á Sovétríkin.

Nú eru Bandaríkjamenn ekki lengur með herafla á Íslandi og túlka má ákvörðun þeirra um brotthvarf héðan sem skýra vísbendingu um, að þeir telji sig ekki lengur hafa neinna beinna hernaðarlegra hagsmuna að gæta á Norður-Atlantshafi. Raunar var ég spurður að því í Stokkhólmi, hvort líta ætti á brottför bandaríska varnarliðsins héðan sem upphaf þess, að Atlantshafstengslin væru byrjuð að rýrna og þar með grundvöllur NATO.

Ég tók ekki undir þetta sjónarmið. Hitt er víst, að frá því að Bandaríkjastjórn ákvað að kalla herafla sinn héðan árið 2006, hefur hernaðarleg staða á Norður-Atlantshafi breyst. Breskur þingmaður komst raunar þannig að orði á NATO-þinginu í október, að augljóst væri, að Bandaríkjastjórn hefði gerst sek um „monumental mistake“ eða „meiriháttar mistök“ með því að kalla allt lið sitt á brott frá Íslandi.

Þegar ég hafði minnst á ferðir rússneskra sprengiflugvéla í nágrenni Íslands og flug þeirra umhverfis Ísland í Stokkhólmi í nóvember, kom norskur sérfræðingur til mín og sagði, að enginn norskur ráðherra talaði opinberlega um þessar ferðir. Stjórnmálamenn vildu gera sem minnst úr þeim á pólitískum vettvangi. Þetta er breytt núna. Anne-Grete Ström-Erichsen, varnarmálaráðherra Noregs, gagnrýndi ferðir vélanna í ræðu í byrjun janúar. Hún sagði, að á árinu 2007 hefðu Norðmenn séð 88 rússneskar hervélar undan strönd lands síns en 14 árið 2006.

Ráðherrann vék að NATO og sagði nauðsynlegt að huga vel að hlutverki þess og móta þyrfti bandalaginu ný strategísk markmið. Nefndi hún í því sambandi, að endurskilgreina þyrfti áherslur NATO og efla styrk þess og aðgerðir í aðildarríkjunum og nágrenni þeirra. Hætta væri á því, að NATO væri að fjarlægjast aðildarríkin vegna aðgerða í fjarlægum löndum eins og Afganistan.

Nefndi ráðherrann dæmi um, hvað mætti gera og sagði: „Við erum nú að þróa víðtækt samstarf nokkurra NATO-landa um eftirlit og öryggisgæslu á Íslandi og umhverfis landið. Hér erum við í raun að tala um risastórt svæði á Noregshafi og Norður-Atlantshafi. Við viljum, að NATO láti meira að sér kveða við þetta verkefni. Það mundi ekki aðeins stuðla að viðbúnaði og stöðugleika á þessu stóra svæði. Það mundi einnig gera bandalagið sýnilegra í okkar heimshluta.“

Ég tek undir þetta sjónarmið norska varnarmálaráðherrans. Breytingunni vegna brotthvarfs Bandaríkjamanna héðan frá Íslandi fylgja ný verkefni í öryggismálum. Nýta ber hinar breyttu hernaðarlegu aðstæður hér og á Norður-Atlantshafi til þess að virkja sameiginlega NATO-krafta betur. Atlantshafsbandalagið stendur ekki undir nafni, ef það helgar sig ekki öryggisgæslu á Atlantshafi, hafinu, sem tengir Evrópu og Norður-Ameríku. Án öflugra Atlantshafstengsla verður Atlantshafsbandalagið að engu.

Vænlegasta leiðin til að tryggja spennulaust ástand á Norður-Atlantshafi er góð samvinna á milli Bandaríkjanna og Evrópu.  Nú eins og fyrir 20 árum ber að móta stefnu Vesturlanda um öryggi á Norður-Atlantshafi í ljósi staðreynda og þess, sem við blasir.

Fyrir skömmu kynnti utanríkisráðherra frumvarp til varnarmálalaga, hið fyrsta um það efni, sem flutt er á alþingi. Meginkjarni þess er, að verkefni á sviði varnarmála eru flutt úr utanríkisráðuneytinu til sérstakrar stofnunar á þess vegum, varnarmálastofnunar. Hún skal hafa umsjón með öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli, sjá um rekstur loftvarnakerfis í þágu NATO og hafa samskipti við NATO-ríki um úrlausn hernaðarlegra málefna.

Í frumvarpinu er byggt á þeirri meginreglu, að varnarmálastofnun og starfsmenn hennar annist öll samskipti við NATO og sjái um að taka á móti og miðla upplýsingum inn í eftirlitskerfi bandalagsins um hernaðarlega tengd málefni. Þessir starfsmenn annast einnig rekstur og viðhald tækja og búnaðar ratsjár- eða loftvarnakerfisins. Þeir eru hins vegar ekki hermenn og geta því ekki farið í spor þeirra verði kerfið virkjað til átaka. Verði það gert, þarf að kalla til erlenda, herþjálfaða menn.

Í fyrstu grein frumvarpsins er tekið af skarið um gildissvið varnarmálalaga. Þau snúast um stjórnsýslu varnarmála á íslensku yfirráðasvæði og samskipti íslenskra stjórnvalda við erlend ríki, hermálayfirvöld og alþjóðastofnanir á sviði öryggis- og varnarmála. Sérstaklega er tekið fram, að lögin taki ekki til verkefna stjórnvalda, sem eru borgaraleg í eðli sínu, svo sem löggæslu og almannavarna.

Frumvarpinu er með öðrum orðum ekki ætlað að breyta neinu að því er varðar störf lögreglu eða landhelgisgæslu eða bein samskipti þessara mikilvægu öryggisstofnana við erlenda samstarfsaðila. Ég tel, að í frumvarpinu felist ný tækifæri fyrir þessar stofnanir til að tengjast betur samstarfsneti NATO-ríkjanna á því sviði, sem snertir borgaralega þætti öryggismálanna.

Með lögfestingu varnarmálafrumvarpsins hefur hernaðarlegum samskiptum íslenskra stjórnvalda við NATO og bandalagsríkin verið skipað með nýjum hætti. Starfsemi á vegum utanríkisráðuneytisins eru sett þau mörk, að aðeins stofnanir dómsmálaráðuneytis, það er löggæslustofnanir, hafa heimildir til valdbeitinga.

Ætla ég hér að víkja að störfum lögreglu og Landhelgisgæslu Íslands, en starfsmenn þeirra fara með þetta vald. Hefur verið unnið að því markvisst að skapa þessum stofnunum öruggan starfsgrundvöll með breytingum á lögum og nýjum fjárfestingum.

 

Lögreglan

Hinn 1. janúar 2007 varð mikilvæg skipulagsbreyting á lögreglunni í landinu. Megintilgangur breytinganna er að efla löggæslu og gera hana betur í stakk búna til að sinna nýjum kröfum.

Lögregluumdæmi stækkuðu um land allt og til  sögunnar kom nýtt embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í stað þriggja embætta áður.

Utanríkisráðuneytið lét af yfirstjórn lögreglumála á Keflavíkurflugvelli og til varð embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem sinnir allri löggæslu á Reykjanesi, innan og utan flugvallar, auk þess að bera ábyrgð á landamæra- og öryggisgæslu í flugstöð Leifs Eiríkssonar og tolleftirliti á flugvellinum og utan hans.

Hlúa verður að vexti og viðgangi lögreglunnar og tryggja, að hún sé ávallt í stakk búin til að takast á við erfið og flókin verkefni. Árið 2007 var í fyrsta sinn gefin út löggæsluáætlun og gildir hún til ársins 2011. Þar er mælt fyrir um verkefni lögreglu út á við og einnig litið til innra starfs lögreglu og starfsumhverfis lögreglumanna, sem verður því miður sífellt hættulegra.

Á árinu 2007 hóf greiningardeild ríkislögreglustjóra einnig störf en henni ber að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og stjórnvöldum og vinna áhættumat vegna hryðjuverka, af skipulagðri glæpastarfsemi eða öðru sem getur ógnað öryggi ríkisins.

Greiningarstarfi af þessum toga hef ég líkt við kortagerð fyrir óvissuferð. Ferðalagið verður auðveldara, ef bent hefur verið á hættur og kennileiti og sagt með eins glöggum hætti og unnt er, hvaða leið sé best að markinu, þótt það sé óþekkt.

Lögregla fær vísbendingar en veit ekki endilega hvert þær leiða hana eða við hverju hún má búast. Því betur, sem áhættan er greind, af þeim mun meira öryggi getur lögregla unnið starf sitt og því betri vitneskju hafa stjórnvöld um í hvers konar þjálfun, búnaði og tækjum ber að festa opinbert fé.

Eitt brýnasta verkefni réttarvörslu og lögreglu, sérstaklega um þessar mundir, er að stemma stigu við skipulagðri glæpastarfsemi, einkum varðandi innflutning og sölu fíkniefna.

Ég ætla að nefna fimm þætti, sem við blasa, þegar þetta verkefni er skoðað nánar.

Í fyrsta lagi er ljóst, að hlutdeild erlendra borgara í fíkniefnabrotum og annarri brotastarfsemi fer vaxandi og löggæslan stendur frammi fyrir nýjum aðferðum við innflutning fíkniefna og framkvæmd annarra brota.

Í öðru lagi hefur harka og ofbeldi aukist í undirheimum og má þar nefna notkun vopna bæði gegn almenningi og lögreglu. Harðsvíraðir erlendir glæpamenn hafa komið hingað til að stunda ólögmæta iðju sína.

Í þriðja lagi starfa hér tvö félög vélhjólamanna, sem eru í tengslum við erlend samtök Hell’s Angels og Hog Riders, sem halda uppi alþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

Í fjórða lagi þarf að bregðast við aukinni hættu á auðgunarbrotum, og má þar nefna innbrot, meðferð þýfis, fjársvik og peningaþvætti.

Í fimmta lagi leitast erlendir menn við að flytja vændiskonur til landsins og eiga þeir í einhverjum tilvikum samstarf við íslenska aðila.

Þá er það einnig mat mitt, að aukin alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi og greiðari för fólks milli landa leiði til aukinnar hættu á, að hér verði framin hryðjuverk eða hryðjuverkaárásir í öðrum löndum verði undirbúnar hér. Hættustig vegna hryðjuverkaógnar er metið lágt á Íslandi um þessar mundir. Á hinn bóginn er þess krafist af yfirvöldum hér, að þau leggi sitt af mörkum í alþjóðlegu samstarfi um varnir gegn hryðjuverkum. Íslenska lögreglan hefur takmarkaðar lagaheimildir til rannsókna á þessu sviði, þar sem hún má aðeins rannsaka mál, hafi hún rökstuddan grun um, að afbrot hafi verið framið.

Íslenskum yfirvöldum er ekki ofviða að takast á við þau verkefni, sem hér er lýst. Til þess þarf hins vegar nauðsynlegar lagaheimildir, öflugan og fjölhæfan liðsstyrk og alþjóðlegt samstarf.

Árið 2007 fóru 2.182.000 farþegar um flugstöð Leifs Eiríkssonar og spáð er, að þeir verði 3,2 milljónir árið 2015.

Vegna hættunnar af alþjóðastarfsemi glæpamanna er óhjákvæmilegt að tryggja öflugt og nútímalegt landamæraeftirlit. Þetta verður best gert með greiningu á þeim, sem hingað koma, aðgerðum til að hefta för þeirra inn í landið og brottvísun, ef þeir fremja brot.

Aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu tryggir frjálsa för okkar milli aðildarríkjanna. Aðild okkar að Schengen-samstarfinu losar okkur undan vegabréfaeftirliti við svonefnd innri landamæri á svæðinu en í stað hefðbundins vegabréfaeftirlits hefur verið þróað öflugt öryggissamstarf.

Þannig tryggir Schengen-samstarfið íslenskri lögreglu aðgang að öflugum gagnagrunnum við allt greiningarstarf auk þess sem samstarfið er lykill að þátttöku okkar í evrópsku lögreglunni, Europol. Á síðasta ári var íslenskur tengifulltrúi sendur til höfuðstöðva hennar í Haag og hefur sú nýskipan gefið góða raun. Við eigum einnig aðild að landamærastofnun Evrópu, Frontex, og getum á vettvangi hennar fylgst vel með allri framvindu daglegrar landamæravörslu í Evrópu.

Vegna skorts á lagaheimildum á Ísland ekki aðild að samstarfi evrópskra öryggis- og eftirgrennslanastofnana, en þær duga ríkjum best í baráttu við hryðjuverkaógnina auk þess að skipta máli gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi almennt. Hvort og hvenær pólitísk samstaða næst um að stíga nauðsynlegt skref í átt til þess að tryggja fullnægjandi lagaheimildir til þessa alþjóðasamstarfs ætla ég ekki að fullyrða. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að gera það og hef á stjórnmálavettvangi kynnt tillögur í þá veru.

 

Landhelgisgæsla Íslands

Þess var minnst í síðustu viku, að 80 ár voru liðin frá stofnun Slysavarnafélags Íslands en Guðmundur Björnsson landlæknir var einn helsti hvatamaður félagsins með þeim orðum, að sjóslys væru sárasta banamein Íslendinga.

Gífurlega mikið hefur áunnist í öryggismálum sjómanna á þeim árum, sem síðan eru liðin og þegar ég ræði um öryggi til sjós geng ég að því sem vísu, að áfram verði leitað bestu leiða til að tryggja þetta öryggi en þar skiptir samstarf Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Landhelgisgæslu Íslands, sem nú er að verða 82 ára, miklu.

Landhelgisgæslan stendur nú frammi fyrir nýjum og krefjandi verkefnum, sem munu gjörbreyta öllu umfangi hennar og starfsháttum á komandi árum. Ríkisstjórn og alþingi hafa tekið ákvarðanir um miklar fjárfestingar í þágu landhelgisgæslu á næstu árum.

Árið 2009 kemur nýtt 4000 tonna varðskip til sögunnar. Skipið er í smíðum í Chile.

Árið 2009 tekur landhelgisgæslan einnig nýja eftirlitsflugvél í notkun. Flugvélin kemur frá Kanada.

Á árunum 2011 til 2014 er síðan von á þremur nýjum, stórum björgunarþyrlum  en unnið er að því í samvinnu við norsk stjórnvöld að undirbúa útboð vegna þeirra.

Fyrir þessum miklu fjárfestingum í nýjum búnaði eru skýr og góð rök. Breytingar á skipaumferð við Ísland gera meiri kröfur til Landhelgisgæslu Íslands en áður hafa þekkst.

Helsta ástæðan fyrir þessum nýju aðstæðum er loftslagsbreyting, minni ís á siglingaleiðum og aukin auðlindanýting á heimskautasvæðinu. Þá fjölgar einnig skemmtiferðaskipum hér við land og í Norðurhöfum.

Árið 2007 voru 2,2 milljónir tonna af olíu flutt frá Múrmansk með 212 olíuskipum og fóru 47 þessara skipa vestur um haf, í nágrenni Íslands. Áætlað er, að árið 2015 verði 80 til 100 milljónir tonna af olíu flutt frá Múrmansk og er talið, að 17 til 22 milljónir tonna fari um íslenska lögsögu með 370 til 480 skipum.

Hinn 20. október 2007 hélt gasflutningaskipið Arctic Princess með fyrsta farm sinn, 145 þúsund rúmmetra af gasi, sem hafði verið kælt niður í 163 gráður á Celsíus, frá Melköya við Hammerfest í Noregi. Skipið er 288 metra langt og sérbúið sem gasflutningaskip. Farmur þess dugar sem orka fyrir 45.000 manna byggð í eitt ár. Ætlunin er að 73 gasskip sigli fullfermd frá Melköya ár hvert, annaðhvort til Spánar eða Bandaríkjanna.

Í Boston og nágrenni byggist orkunotkun á gasi, sem skip koma með á fimm daga fresti frá Trinidad og Tobago. Verði rof á reglubundum siglingum þessara skipa, er vá fyrir dyrum í borginni. Skipin frá Melköya eiga einmitt að leggja úr höfn fimmta hvern dag og er reiknað með að um 50 þeirra sigli vestur um haf um lögsögu Íslands.

Á Mjallhvítarsvæði Norðmanna í Barentshafi fannst gas fyrir 24 árum en nýting þess  hófst fyrst í fyrra. Talið er, að þar sé unnt að vinna 5,7 milljarða rúmmetra af gasi á ári í þrjá áratugi. Austan norsku lögsögunnar er rússneska Stokhman-gassvæðið og er áætlað, að það sé 15 sinnum gjöfulla en Mjallhvít. Norðmenn og Frakkar munu aðstoða Rússa við nýtingu á Stokhman, en reiknað er með að hún geti hafist árið 2014.

Bæði Rússar og Norðmenn eru að búa hafnir sínar undir aukna gámaþjónustu vegna væntanlegra heimskautssiglinga. Múrmansk á að geta afgreitt 3 milljónir gámaeininga á ári í 500 skipum. Norðmenn leggja áherslu á Narvik sem norðlæga gámahöfn og þaðan fari 300 skip árlega til N-Ameríku.

Þessar tölur bera allar með sér, að ferðir sífellt stærri olíu-, gas- og gámaflutningaskipa verði um íslenska lögsögu og á gæslusvæði íslenskra yfirvalda á komandi árum. Þeim sjónarmiðum hefur verið hreyft að æskilegt sé að beina þessari umferð austan við landið í stað þess að skipin fari milli Íslands og Grænlands, þar sem siglingaleiðin sé hættuleg vegna íss og annarra náttúrulegra aðstæðna.

Skemmtiferðaskip með þúsundir farþega innanborðs leggja á hinn bóginn æ oftar leið sína inn á hinar hættulegu slóðir við Grænland.

Hinn 31. janúar síðastliðinn sagði í frétt í Morgunblaðinu, að 55 þúsund farþegar skemmtiferðaskipa hefðu komið til  Reykjavíkur á árinu 2007 og líkur væru á því að fleiri kæmu á þessu ári. Er því jafnvel spáð, að fjöldinn muni tvöfaldast fram til ársins 2015. Skemmtiferðaskip verða sífellt stærri og um borð í hinu stærsta, sem nú er í smíðum, er talið að verði allt að 8000 manns, farþegar og áhöfn.

Þegar hugað er að siglingaleiðum skemmtiferðaskipa til og frá Íslandi árið 2007 sést, að fjögur skip komu til Akureyrar frá Svalbarða og Jan Mayen, en sextán skip héldu til Jan Mayen og Svalbarða frá Akureyri. Þrjú skip komu frá Grænlandi til Reykjavíkur en níu skip héldu héðan til Grænlands.

Gæslumenn öryggis á hafinu bæði á Íslandi og Grænlandi fylgjast grannt með þessari fjölgun skemmtiferðaskipa á hættulegum siglingaleiðum og er unnið að nánu samstarfi um viðbrögð íslenskra og danskra yfirvalda, ef slys verður.

Við allar ákvarðanir um fjölgun flugferða og skipaferða til og frá landinu er nauðsynlegt að taka ríkt tillit til aukins álags á þá, sem sinna öryggisgæslu, og til kostnaðar við þá gæslu. Eitt stórslys setti slíkt strik í reikninginn, að það yrði aldrei bætt.

 

Góðir áheyrendur!

Af hálfu stjórnvalda hafa verið teknar ákvarðanir með hliðsjón af þessum breytingum. Hið sama á við hér og í nágrannaríkjunum, að samvinna við aðrar þjóðir um alla þætti öryggisgæslu verður sífellt mikilvægari.

Fyrir okkur Íslendinga er ekki nýtt að eiga hervarnir undir öðrum. Land- og loftvarnir Íslands eru áfram í höndum bandamanna okkar.

Hitt er nýmæli, að alþjóðaþátturinn setji svo ríkan svip á störf lögreglu og landhelgisgæslu.

Löggæsla og landamæravarsla skilar aðeins viðunandi árangri í nánu samstarfi við lögreglu í öðrum löndum og fjölþjóðleg lögreglulið.

Verði stórslys á sjó við Ísland á Landhelgisgæsla Íslands að vera þannig búin, að hún geti veitt nauðsynlega fyrstu hjálp, á meðan fjölþjóðlegur liðsauki berst.

Þessi nýju viðhorf krefjast þess, að stjórnvöld og stofnanir þeirra lagi starfshætti sína að þeim, til að áfram verði unnt að tryggja þjóðinni öryggi til sjós og lands.

Ég vona, að þetta stutta yfirlit mitt sýni, að unnið er að þessum mikilvægu verkefnum með skynsamleg markmið í huga.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta