Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. mars 2008 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Fjarskipti í þágu öryggis

Mér er ánægja að bjóða ykkur velkomin til fyrstu öryggis- og neyðarfjarskiptaráðstefnunnar. Er fagnaðarefni, að svo margir hafi sýnt því áhuga að koma hér saman í dag og ræða fjarskipti á landi, sjó og í lofti. Á þessu sviði eins og svo mörgum, sem snerta öryggi landsmanna og þá, sem eru á ferð hér við land, á því eða yfir, hafa orðið og eru að verða miklar breytingar.

Tilgangur ráðstefnunnar er að lýsa stöðunni eins og hún er um þessar mundir og líta til framtíðar. Er mikils virði, að tekist hefur að kalla saman öflugan hóp fyrirlesara um einstaka þætti málsins. Þakka ég þeim öllum fyrir að leggja sitt af mörkum til að ráðstefnan skili sem mestum og bestum árangri. Einnig færi ég þeim þakkir, sem styrkja ráðstefnuhaldið.

Góð fjarskipti og miðlun upplýsinga eru grundvallarþættir í öllum aðgerðum, sem miða að því að tryggja öryggi. Hefur skipulag ráðstefnunnar miðað við að hér verði dregin upp sem skýrust heildarmynd frá sjónarhóli þeirra, sem bera ábyrgð á mikilvægum þáttum öryggismálanna.

Síðustu ár kalda stríðsins skipti Ísland miklu fyrir varnir NATO-ríkjanna, því að landið var skurðpunktur í upplýsinganeti, sem náði frá Grænlandi um Ísland og Færeyjar til Skotlands. Milli þessara landa var dregin framvarnarlína NATO, og nefndist hún GIUK-hliðið. Við hrun Sovétríkjanna gjörbreyttist staðan í hernaðarlegum öryggismálum á Norður-Atlantshafi og menn hættu að ræða um GIUK-hliðið eða mikilvægi þess.

Við þessi sögulegu umskipti var talið, að Ísland yrði jaðarríki í ljósi heimspólitískrar þróunar og hér gætu menn helgað sig eftirliti á sjó, sem snerti aðeins beina íslenska hagsmuni og fáa aðra.

Þetta hefur breyst á skömmum tíma. Ísland er að nýju að komast í lykilstöðu, þegar litið er til siglinga frá heimskautahöfunum til Norður-Ameríku. Var minnt á það með áþreifanlegum hætti á dögunum, þegar þyrla landhelgisgæslunnar sótti norskan hafnsögumann um borð í gasflutningaskipið Arctic Discoverer um 30 mílur undan strönd Íslands, en hann hafði ekki komist í land í Noregi vegna veðurs. Skipið var hins vegar í jómfrúarferð með gas frá Mælköya fyrir norðan Hammerfest í Noregi til Cove Point í Maryland í Bandaríkjunum, þar sem því var tekið með kostum og kynjum.

Skip af þessari gerð geta flutt í einni ferð gas, sem dugar 45.000 manna byggðarlagi sem orkugjafi í eitt ár. Er því skiljanlegt að nú á tímum, þegar orkuöryggi er sett í fyrirrúm, skipti miklu, að flutningur orkunnar á sjó sé öruggur í öllu tilliti.

Við búum að langri og góðri reynslu af því að sinna flugumferðarstjórn á Norður-Atlantshafi og höfum haldið einstaklega vel og skipulega á þeim málum. Margt bendir til, að stjórn siglinga muni taka á sig sama svip og flugumferðarstjórn, þegar fram líða stundir. Þar skipta fjarskipti og staðsetningartæki sköpum til að tryggja ávallt hámarksöryggi.

Þessa stóru mynd er nauðsynlegt að hafa í huga, þegar rætt er um stöðu Íslands og þróun þjónustu á sviði öryggis og fjarskipta.

Þegar litið er á þróunina innanlands, ber fyrst að geta þess, að ríkisstjórnin ákvað hinn 26. september 2006, að innleitt yrði tetra-kerfi  til að þjóna sem neyðar- og öryggisfjarskiptakerfi alls staðar á landinu. Ákvörðunin var kynnt í tengslum við brottför bandaríska varnarliðsins. Hún féll vel að nýjum kröfum til aukins innlends öryggisviðbúnaðar og hefur verið framkvæmd á markvissan hátt.

Fyrir hönd dómsmálaráðuneytisins hefur Neyðarlínan haft forystu um að hrinda þessari  ákvörðun í framkvæmd. Neyðarlínan samdi við fyrirtækið Motorola um uppfærslu á miðbúnaði tetra-kerfisins, sem hafði verið starfrækt í nokkur ár, auk þess voru 150 nýir sendar keyptir og komu þeir að nokkru í stað eldri búnaðar.

Á síðasta ári voru 133 sendar virkir í tetra-kerfinu. Á þessu ári koma  25-27 nýir sendar til sögunnar. Við svo búið má segja, að ekkert annað fjarskiptakerfi sé hér með sambærilegan þjónustustyrk. Heildarkostnaður við uppbyggingu kerfisins verður nálægt 900 milljónum kr. eða eins og áætlað hafði verið.

Tetra-talstöðvar eru nú á fjórða þúsund. Er það talsvert hærri tala en ráð var fyrir gert, þegar ýtt var úr vör. Þegar allir notendur hafa að fullu komið sér upp búnaði er reiknað með, að hátt í 7000 talstöðvar verði í notkun. Þessi mikli áhugi á því að eignast talstöðvarnar er í raun bestu meðmæli með tetra-kerfinu.

Í stuttu máli má segja, að á skömmum tíma hafi orðið bylting á sviði neyðarfjarskipta á landi.

Miklar breytingar hafa einnig orðið á neyðar- og öryggisfjarskiptum sjófarenda. Þau hafa öll verið sameinuð á einum stað í Vaktstöð siglinga. 

Þar er einnig unnið að endurnýjun fjarskiptabúnaðar og hefur verið samið við austurríska fyrirtækið Frequentis um nýjan sendabúnað strandastöðva og stjórnstöðvarbúnað. Nýr mjög fullkominn miðbúnaður fylgir kerfinu og má nýta hann til að miðla öllum fjarskiptum í einum fjarskiptastjóra. Þá verður sett eftirlitsratsjá á fjallið Þorbjörn við Grindavík til  að fylgjast með allri skipaumferð fyrir Reykjanesskaga en þar taka  nýjar reglur um fjarlægð skipa frá landi gildi hinn 1. apríl næstkomandi. 

Reynslan af þessari ratsjá verður vafalaust höfð til hliðsjónar við töku ákvörðunar um, hvort slík tæki verði víðar við strönd landsins.

Öryggisfjarskipti sjófarenda byggjast á tveimur meginþáttum, annars vegar á fjarskiptum í gegnum strandastöðvakerfið, sem samtengt er í Vaktstöð siglinga, og hins vegar á sjálfvirkri tilkynningaskyldu (STK) sem einnig tengist vaktstöðinni.  Fyrirsjáanlegt er, að endurnýja þarf kerfi sjálfvirku tilkynningarskyldunnar á komandi árum.  Þar eru nokkrar leiðir til athugunar, m.a. að nýta svokallað AIS kerfi sem hefur svipað drægi og núverandi tilkynningakerfi.

Landhelgisgæsla Íslands hefur skipulega unnið að því undanfarin misseri að styrkja fjarskipta- og upplýsingasamband sitt við samstarfsstofnanir austan hafs og vestan. Ég hef tekið þátt í umræðum um þessi mál við sérfróða aðila í Noregi, Danmörku, Bretlandi og Bandaríkjunum. Hvarvetna er mikill áhugi á nánu samstarfi við landhelgisgæsluna á þessu sviði og hefur miðlun upplýsinga aukist að hraða og magni.  

Er verið að þróa nýja tækni á þessu sviði með vaxandi nýtingu gervihnatta og er einsýnt, að við þurfum að fylgjast náið með því, sem þar er að gerast. Þá er einnig til umræðu á vettvangi Evrópusambandsins að efla strandgæslu undir handarjaðri þess til að tryggja betri landamæravörslu. Þar höfum við hagsmuna að gæta sem aðilar að Schengen-samstarfinu.

Eins og ég vék að í upphafi hafa Íslendingar stjórnað flugi með miklum ágætum á Norður-Atlantshafi í marga áratugi. Þar hefur ávallt verið leitast við að vera tæknilega í fremstu röð.  

Til að styrkja öryggi innanlands hafa Flugstoðir ákveðið að setja tetra-kerfi á alla flugvelli. Mikil framþróun er í fjarskiptum fyrir flug og breytingar á döfinni og verður vafalaust vikið að því í kynningu hér á ráðstefnunni. 

 

Góðir áheyrendur! 

Áður en ég lýk máli mínu vil ég nefna þrjú frumvörp, sem nú eru til meðferðar í nefndum alþingis.

Tvö þeirra, sem ég flutti, um almannavarnir og um samræmda neyðarsvörun eru hjá allsherjarnefnd en frumvarp utanríkisráðherra til varnarmálalaga er hjá utanríkismálanefnd. 

Öll skipta þessi frumvörp máli, þegar hugað er að viðfangsefni ráðstefnunnar. Tel ég víst, að þau verði að lögum á þessu þingi.

Í almannavarnafrumvarpinu er sköpuð lögbundin umgjörð um samhæfingar- og stjórnstöðina við Skógarhlíð. Í því felst viðurkenning á hinu mikilvæga starfi, sem unnið hefur verið við Skógarhlíð og tengir viðbragðsaðila eftir því sem þörf er hverju sinni. Hefur gildi stöðvarinnar sannað sig hvað eftir annað við leit og björgun auk annarra aðgerða í þágu almannavarna. Þar er miðstöð almannavarna og neyðar- og öryggisþjónustu landsins og verður það því starfi öllu mjög til styrktar, þegar alþingi samþykkir frumvarpið að almannavarnalögum. 

Frumvarpið um samræmda neyðarsvörun  tryggir viðunandi starfsramma fyrir Neyðarlínuna og aðra, sem að neyðarsvörun koma. Neyðarsvörun er ætlað að uppfylla skyldur stjórnvalda til að veita viðtöku tilkynningum um bruna, slys, óhöpp, yfirvofandi eignatjón og önnur neyðartilvik í því skyni að koma umsvifalaust tilkynningu um neyðartilvik til rétts viðbragðsaðila.  

Með varnarmálalögunum flytjast verkefni á sviði varnarmála úr utanríkisráðuneytinu til sérstakrar stofnunar á vegum ráðuneytisins, varnarmálastofnunar.

Þar er mælt fyrir um samstarf varnarmálastofnunar við önnur stjórnvöld, stofnanir eða opinber hlutafélög sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði varnarmálastofnunar samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðherra. Gert er ráð fyrir að stofnað verði til samstarfs milli stofnana sem starfa á grundvelli ákvæða laganna og borgaralegra stofnana íslenska ríkisins sem vinna að gæslu almannaöryggis. Yrði þar um gagnsæja samninga milli stofnana að ræða.  

Þarna er í raun lýst sama fyrirkomulagi og býr að baki vaktstöð siglinga en starfsemi hennar byggist á samningi milli samgönguráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis um samhæfingu krafta í því skyni að styrkja almennt öryggi landsmanna og þeirra, sem eru á siglingu í nágrenni landsins. Hið sama á að gera með samningum til að styrkja öryggi þeirra sem ferðast í lofti yfir landinu og í nágrenni þess. Liggur í augum uppi að samhæfa eigi mannafla og tækjabúnað í landinu í því skyni enda spillir það á engan hátt fyrir því að nauðsynlegum upplýsingum sé miðlað inn í loftvarnakerfi NATO samkvæmt þeirri skipan, sem verður eftir að varnarmálastofnun kemur til sögunnar.  

Ég tel, að með varnarmálastofnun verði til innlendur samstarfsaðili við þær stofnanir ríkisins, sem sinna öryggisgæslu á borgaralegum grunni.  Er mikilvægt að þessar stofnanir hafi aðgang að öllum upplýsingum, sem miðlað er til varnarmálastofnunar, enda sé farið með þær í samræmi við öryggisstaðla. Með þessum nýja þætti í upplýsinganeti ríkisins til gæslu öryggis og til neyðarþjónustu verður til ný vídd og hana á að nýta til fulls.

Á tímum kalda stríðsins var talið, að bregðast þyrfti við með hervaldi, ef eitthvað færi úrskeiðis í GIUK-hliðinu. Nú á tímum þarf að bregðast við með afli borgaralegra stofnana, ef hætta steðjar að skipum og því samhentari, sem menn eru, því öflugra verður viðbragðið. 

Hvað sem tækni og þróun hennar líður, kemur ekkert í stað þess, að menn samhæfi krafta og vinni vel saman. Er það að sjálfsögðu mikilvægur þáttur ráðstefnu sem þessari að efla samheldni þeirra, sem að þessum mikilvægu þáttum koma.

Ég segi ráðstefnuna setta og óska ykkur alls góðs í störfum hennar og megi hún verða til að treysta samstarf ykkar allra, því að það eitt getur ráðið úrslitum á örlagastundu. Þótt tæknin skipti miklu og nauðsynlegt sé að nýta hana, kemur hún aldrei í stað góðra, mannlegra samskipta.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta