Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. september 2010 DómsmálaráðuneytiðÖgmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2010, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2010

Ræða Ögmundar Jónassonar á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 2010

Ágæta sveitarstjórnarfólk.

Ég vil byrja á því að óska ykkur til hamingju með það lýðræðislega umboð sem þið hafið fengið til að vinna að framförum fyrir umbjóðendur ykkar og fyrir landið allt. Við stjórnmálamenn þurfum ávallt að hafa hugfast að við erum umboðsmenn fólksins, við höfum ekki valdið óskilyrt heldur er valdið íbúanna – þeirra sem kusu okkur til starfa.

Ef fólkið vill fá valdið til sín og ákveða milliliðalaust hver stefnan eigi að vera í tilteknum málum eða hvernig eigi að útfæra þau ber okkur undanbragðalaust að verða við slíkum óskum. Spurningin snýst um það eitt hve hátt hlutfall kjósenda þurfi að setja slíka kröfu fram til að hún nái fram að ganga.

Þetta þurfum við alltaf að hafa í huga, þið sem sveitarstjórnarmenn og við sem sitjum á Alþingi, burtséð frá því hvaða stjórnmálaflokki við fylgjum að málum. Lykilatriði í þessu er að hefja sig upp yfir landamæri flokka og fylkinga því að þannig gengur okkur best að vega og meta hverju sinni hvaða gagn við getum gert fyrir þá sem við störfum fyrir.

Hið lýðræðislega umboð hefur margar víddir og hin lýðræðislega hugsun á að gagnsýra vinnubrögð okkar og afstöðu. Krafa dagsins, lærdómurinn af efnahagshruninu, er opin og vönduð stjórnsýsla og lýðræðisleg vinnubrögð. Nýafstaðin er atkvæðagreiðsla á Alþingi sem mörgum var og er erfið. Hún er erfiðust þeim sem sjá málin í persónulegu ljósi. Sagt er: Drengur góður skal nú ákærður frammi fyrir Landsdómi. En sem slíkur er hann ekki ákærður heldur sem ráðherra. Ákæruefnið er brot á lögum um ráðherraábyrgð. Ég tel sennilegt að slík lög hafi margoft verið brotin á undanförnum árum, jafnvel áratugum, og áleitin er sú spurning hvort sambærilegir hluti hafi gerst á sveitarstjórnarstiginu. Hvert og eitt sveitarfélag þarf að litast um í eigin ranni því að á slíkum málum þarf að taka og draga af þeim lærdóma. Það þarf að verða bylting hugarfarsins í íslenskri pólitík ef okkur á að auðnast að breyta starfsháttum til hins betra. Við þurfum að muna að á sama hátt og einstaklingur er kærður fyrir að brjóta umferðarlög keyri hann á 150 km hraða – þá er verið að dæma hegðun hans – brot á umferðarlögum, ekkert annað. Á sama hátt verður að líta á brot á stjórnsýslulögum, ráðherraábyrgð eða sambærilegum reglum í sveitarfélögum. Skoða þarf ávirðingar í ljósi þeirra laga sem við eiga í hverju tilviki. Þessi hugsun er grundvallarhugsun réttarríkisins. Ég veit að hér eru skoðanir skiptar og sumum finnst komið inn á sprengjusvæði en ég vil segja að við eigum að vanda okkur í tali, fara gætilega og skilgreina hugsun okkar, áður  en við höfum í heitingum hvert við annað.

Rannsóknarskýrsla Alþingis og ástandið í samfélaginu gefur okkur enn frekar en áður tilefni til að gleyma ekki því umboði sem við störfum eftir. Skýrslan bendir á það á mörgum stöðum að hefði okkur tekist betur að vinna saman og horfast í augu við þá þróun sem var að gerjast hefði okkur tekist að vinna betur úr þjáningum þessa skelfilega hruns.

 Lýðræðisumbætur og lýðræðisviðhorf þurfa að ríkja í þjóðfélaginu, bæði á Alþingi og á sveitarstjórnarstiginu. Þið sveitarstjórnarmenn þurfið að taka á með okkur þingmönnum að vinna að því að virða þetta lýðræðislega umboð sem okkur er falið.

Umbætur í stjórnsýslunni

Í stjórnkerfinu öllu hefur að undanförnu verið hugað að margs konar endurskoðun, endurbótum og skipulagsbreytingum. Eitt þeirra verkefna er að sameina ráðuneyti og eins og þið vitið verða dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sameinuð í innanríkisráðuneyti um næstu áramót. Einnig verður til velferðarráðuneyti úr heilbrigðisráðuneytinu og félags- og tryggingamálaráðuneytinu.

Undirbúningur sameiningarinnar er þegar hafinn og ég sé í málaflokkum ráðuneytanna sem mér voru falin ýmis tækifæri til samþættingar og til að leggja niður hefðbundin landamæri. Þarna eru til dæmis möguleg samlegðaráhrif í löggæslu og umferðaröryggismálum, í siglingamálum og málefnum Landhelgisgæslunnar og það eru samlegðaráhrif í kringum mannréttindamál, neytendamál, kosningar og sveitarstjórnarmál. Þetta eigum við að nýta okkur og horfa á tækifæri sem í þessum skipulagsbreytingum felast.

Sveitarstjórnarmálin munu áfram verða þýðingarmikill málaflokkur í hinu nýja ráðuneyti enda hefur umfang þeirra farið vaxandi og gerir enn með ýmsum breytingum sem unnið er að. Við eigum sameiginlegt markmið og það er að efla sveitarstjórnarstigið, að því hefur verið unnið og ég styð þau markmið heilshugar.

Einn þátt vil ég nefna sem varðar hið nýja innanríkisráðuneyti. Ráðuneytið og sveitarfélögin eiga samleið í rekstri nýjustu stofnunar ráðuneytisins, Þjóðskrár Íslands, sem varð til í sumar við samruna Fasteignaskrár og Þjóðskrár. Innan stofnunarinnar reka ríki og sveitarfélög fasteignaskrá þar sem hvort stjórnsýslustig um sig skráir í skrána það sem undir það fellur. Þetta hefur reynst farsælt fyrirkomulag og getur orðið fyrirmynd á fleiri sviðum innanríkismála.

Svipað fyrirkomulag gæti til dæmis hentað varðandi Þjóðskrá. Ég hef ákveðið að skipa nefnd til að endurskoða lög um þjóðskrá og íbúaskráningu og er það í samræmi við tilmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 2008 um að fram fari úttekt á tilhögun íbúaskráningar. Mun ég óska eftir að Sambandið tilnefni fulltrúa í þessa nefnd.

Efling sveitarstjórnarstigsins hljómar í margra eyrum nánast eins og klisja en þetta er engin klisja, þetta er lýsing á sameiginlegum ásetningi okkar allra um að efla nærþjónustu við íbúa í þessu landi. Við verðum að opna hugann, losa okkur úr fjötrum vanahugsunar og einn þátt í því samhengi vil ég nefna. Sú hugmynd hefur komið fram að efla á landsbyggðinni fjölþátta þjónustukjarna. Sýslumenn sjá nú fram á endurskipulagningu á starfssviði sínu á komandi árum. Ég hef sett allar slíkar skipulagsbreytingar í rúman tímaramma. Unnið verður að breytingum á næstu fimm árum þannig að þær hafi náð endanlega fram að ganga árið 2016. Þennan tíma vil ég nota til að kanna til þrautar hvernig efla megi  þennan starfsvettvang. Ég hef orðað það við sýslumenn sem eru handhafar framkvæmdavalds í héraði að undir þá gætu heyrt fleiri verkefni en nú gera. Þetta er dæmi um nýja hugsun sem nú er nauðsyn á.

Samstarf

Ég legg mikla áherslu á gott og náið samstarf við ykkur og samtök ykkar. Ég veit að öll þau verkefni sem unnið hefur verið að á liðnum misserum sem lúta að því að efla sveitarstjórnarstigið eru afrakstur mjög náins og góðs samstarfs milli ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það eru áherslur sem ég kann að meta, forveri minn Kristján L. Möller lagði áherslu á samstarfið og það vil ég ennfremur gera. Ég hef þegar fengið góðar heimsóknir sveitarstjórnarmanna sem vilja kynna mér ýmis málefni byggðarlaga sinna og ég met slíkar heimsóknir mjög mikils.

Efling sveitarstjórnarstigsins er yfirskrift ræðu minnar hér í dag og er það viðamikið umfjöllunarefni. Við erum sammála um það hér að efling sveitarstjórnarstigsins er af hinu góða og hún er ekki síst nauðsynleg við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélagi okkar. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar og þetta er stefna Sambands íslenskra sveitarfélaga. Markmiðið er að færa ábyrgð á eigin málum heim í hérað, að ákvarðanataka um mikilvæg málefni er varða velferð borgaranna séu teknar sem næst þeim sjálfum. Hins vegar eru sjálfsagt skiptar skoðanir meðal stjórnmálamanna um það hvað í því felist að efla sveitarstjórnarstigið.

Almennt virðast bæði stjórnvöld og sveitarstjórnarmenn telja að í eflingu sveitarstjórnarstigsins felist í fyrsta lagi flutningur á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga. Í öðru lagi að tekjustofnar sveitarfélaga verði efldir og þeir styrktir og breikkaðir eftir því sem kostur er. Í þriðja lagi að skilyrði sveitarfélaga til að veita góða þjónustu sé annað hvort sameining eða aukin samvinna. Þá hefur líka verið talað um að það styrki sveitarstjórnarstigið að auka formfestu í öllum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Aðalatriðið í mínum huga er að við vitum hvað býr að baki gjörðum okkar og svo ég víki aftur að hinu lýðræðislega umboði sem ég talaði um, að þá verður meginniðurstaðan með öllum okkar gjörðum að vera umbjóðendum okkar í hag og í samræmi við þeirra vilja.

Að öllum þessum verkefnum hefur verið unnið ötullega á síðustu misserum og óhætt er að segja að í ráðuneytinu hefur með þeim verkefnum verið velt við nánast hverjum steini. Ég ætla að fara yfir nokkur þeirra.

Verkaskipting

Fyrst geri ég að umtalsefni flutning á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga sem verður um áramótin eins og ykkur er öllum kunnugt. Í sumar skrifuðu fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar og forystumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga undir yfirlýsingu sem rammaði inn forsendurnar fyrir þessum verkefnaflutningi, bæði hvað varðar umfang þjónustu og fjárveitingar sem flytjast til sveitarfélaganna frá ríkinu. Samkvæmt henni munu um 10,7 milljarðar króna flytjast til sveitarfélaganna. Þetta er því umtalsverður fjármagnsflutningur og ég er sannfærður um að þjónustunni verði vel fyrir komið hjá sveitarfélögunum.

Ég vil þó minna á að þessi breytta verkaskipting er ekki markmið í sjálfu sér. Ég lít svo á að við séum fyrst og fremst að skipta með okkur verkum í þeim tilgangi að veita fötluðum einstaklingum betri þjónustu en áður. Við þurfum alltaf að hugsa þessi verkefni út frá fólkinu sem við erum að þjóna. Þess vegna vænti ég þess að sveitarfélögin taki við þessum málaflokki til að geta þjónað íbúum sínum enn betur án milligöngu ríkisins. Gætum þess líka að við þennan málaflokk vinnur fjöldi sérfræðinga og fólk með margs konar sérmenntun og reynslu. Þessum mannauði þurfa sveitarfélögin einnig að hlúa að, hann eykur einnig styrk og getu sveitarfélaga til að sinna öðrum verkefnum enn betur.

Ég tel mikilvægt að við ræðum áfram hvort tilefni er til að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga enn frekar. Öldrunarmál hafa verið rædd sem næsta verkefni sem flytja má og ég sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra styð það heilshugar. Ég tel tækifæri felast í því að menn hætti að líta á öldrunarmál sem aðgreindan málaflokk heldur að litið sé á einstaklingsbundnar þarfir fólks á ólíkum skeiðum ævinnar sem kalla vissulega á mismunandi þjónustu. Þarna gætu sveitarfélögin unnið betur með einstaklingsbundnar þarfir íbúa sinna fremur en ríkið sem kannski hefur verið of upptekið af því að flokka þjónustuna í aðskilin hólf. Hérna kunna að vera mikil tækifæri til enn frekari samþættingar velferðarþjónustu þar sem staðbundnar þarfir og óskir ráða ferðinni.

Einnig gætu verið forsendur fyrir flutningi framhaldsskólanna að einhverju marki til sveitarfélaga og ég hvet til að menn fari vel yfir hvort ekki er grundvöllur fyrir skrefum í þá átt að hafa tilraunasveitarfélög í þessu efni eins og var gert með málefni fatlaðra. Þá hafa sveitarfélög nefnt að þau vilja taka við samgönguverkefnum frá ríkinu og jafnvel löggæslu en um það síðasta hef ég ákveðnar efasemdir.

Tekjustofnar

Hluti af eflingu sveitarfélaga er að þau hafi jafnan næga tekjustofna til að sinna verkefnum sínum.

Forveri minn skipaði nefnd fulltrúa allra þingflokka og Sambands íslenskra sveitarfélaga á síðasta sumri til að endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga. Nefndin skilaði áfangaskýrslu um áramótin og setti fram ýmsar gagnlegar ábendingar. Nefndin mun skila lokaskýrslu um miðjan október og ég vænti þess að þær liggi fyrir áður en við göngum til fjármálaráðstefnu sambandsins.

Markmiðið með starfi nefndarinnar er að finna leiðir til að breikka og styrkja tekjustofna sveitarfélaga. Það er gott markmið en það verður þó að segjast eins og er að það er ákveðnum vandkvæðum bundið að gera það um þessar mundir.

Þið þekkið þá stöðu sem ríkissjóður er í um þessar mundir, hann þarf að haga fjármálum sínum í samræmi við stranga áætlun næstu árin – og þið þekkið líka gestinn sem hjá okkur dvelur og leggur ýmsar kvaðir á herðar okkar, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ríkisvaldið hefur því bæði þurft að fara í erfiðar aðgerðir hvað varðar niðurskurð á útgjaldahlið ríkisfjármálanna og aukna skattlagningu. Þetta eru sársaukafullir tímar fyrir alla og næsta ár verður ekki létt hvað þetta varðar.

Ríkið er í gjörgæslu var sagt hér í ræðu áðan, hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Að hverju skyldi sú gjörgæsla snúa, það er fjármagnið og eigendur þess sem passað er uppá en ekki hef ég orðið var við fulltrúa AGS sem yfirsetukonur á spítalagöngum landsins eða á sambýlum fyrir fatlaða. Þar þurfum við öll að standa vaktina og hafa velferðarkerfi okkar í stöðugri gjörgæslu að hluta til gagnvart þessum gesti sem hefur þröngvað sér uppá okkur tímabundið.

En allar hugmyndir um styrkingu og breikkun tekjustofna sveitarfélaga þurfa að koma fram í dagsljósið og eru vel þegnar. Þær hljóta þó að fela í sér annað hvort auknar álögur eða betri nýtingu núverandi tekjustofna. Þá velti ég því fyrir mér hvort hægt sé að skoða innbyrðis skiptingu núverandi tekjustofna milli sveitarfélaga, t.d. hvað varðar ráðstöfun fjármuna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Allt þetta eru álitaefni sem nefndin vonandi kannar og þegar tillögur hennar koma fram um miðjan næsta mánuð mun ég setjast yfir þær með ykkar fulltrúum.

Eins og þið vitið liggur fyrir mikil úttekt á öllu regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Tillögur eru uppi um þrjár leiðir til endurskoðunar eða þrjú skref sem ganga misjafnlega langt. Ég hef ekki tekið afstöðu til þessara leiða, að nánari greiningu á áhrifum þeirra er nú unnið í ráðuneytinu og verður sú niðurstaða kynnt á ársfundi Jöfnunarsjóðsins um miðjan október. Þá þurfum við í sameiningu að ræða saman um gagnsemi þeirra og áhrif. Við verðum að vera óhrædd við að endurskoða regluverkið og leiða fram breytingar sem hafa á heildina litið jákvæð áhrif. Jöfnunaráhrifin verða að vera ljós og ég sem  jafnaðarmaður eins og ég held að við séum öll inn við beinið er eindregið þeirrar skoðunar að jöfnunarkerfi verður að standa undir nafni.

Fjármálaleg samskipti

Á þessum tíma sem ég hef starfað sem sveitarstjórnarráðherra hef ég verið upplýstur um ýmis fjármálaleg atriði í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Ég hef heyrt af áhyggjum sveitarstjórnarmanna um að blikur séu á lofti í fjárlagatillögum næsta árs hvað varðar aukaframlag Jöfnunarsjóðs og framlag sjóðsins vegna hækkunar tryggingagjalds. Þá hafa sveitarstjórnarmenn haft áhyggjur af miklum vexti í útgreiðslu húsaleigubóta og að óljóst sé hvort endurgreiðsla ríkisins gegnum Jöfnunarsjóð á næsta ári verði fyllilega í samræmi við samkomulag um auknar húsaleigubætur frá vordögum 2008.

Ég skil vel þessar áhyggjur sveitarstjórnarmanna en við þurfum að sama skapi öll að hafa skilning á stöðu ríkissjóðs.

Ég vona til þess að við berum gæfu til að eiga góð og uppbyggileg samtöl um þessi atriði þegar fjárlagafrumvarpið liggur fyrir og það verður þá Alþingis að taka afstöðu til þess hvort tilefni er til að breyta frá því sem ríkisstjórnin leggur til í þessum efnum. Ég vil þó minna enn og aftur á að ríkissjóður býr við afar þröngan kost, fyrir liggur áframhaldandi niðurskurður sem verður væntanlega um 30 milljarðar á næsta ári og því verða allir fyrir barðinu á því, því miður líka sveitarfélögin í landinu.

Hvað varðar úthlutun aukaframlags Jöfnunarsjóðs á þessu ári, sem er milljarður króna, vil ég upplýsa ykkur um að starfsmenn ráðuneytisins hafa kynnt fyrir mér hugmyndir að fyrirkomulagi framlagsins. Í meginatriðum ganga hugmyndirnar út á að beita svipuðum reglum og í fyrra, með undantekningum þó. Ég hef lagt til að þær verði sendar til sambandsins til umsagnar og frekari umræðu og ég vonast til að við getum gengið frá þeim reglum fljótlega í október og greitt framlagið strax í kjölfarið.

Efnahagssamráð og fjármálareglur

Liður í því að efla sveitarstjórnarstigið er að tryggja fjárhagslega sjálfbærni þess og stöðugleika. Við efnahagshrunið kom í ljós er að ríki og sveitarfélög gengu ekki í takt þegar kom að efnahagsmálum, hið opinbera var ekki að vinna saman sem slíkt og þegar öll rök mæltu með minnkandi opinberum umsvifum voru þau aukin. Fjárfestingar voru miklar í aðdraganda efnahagshrunsins, sérstaklega á vaxtarsvæðum og margir sáust ekki fyrir. Það eflir ekki sveitarstjórnarstigið ef því er steypt út í skuldir, mikilvægt er að jafnvægi og sjálfbærni sé til staðar.

Því var ákaflega mikilvægt skref stigið fyrir rétt um ári síðan þegar undirritaður var svokallaður Vegvísir að hagstjórnarsamningi milli ríkis og sveitarfélaga. Með honum voru sett skýr markmið um nánara samráð í efnahagsmálum og að mótaðar yrðu fjármálareglur fyrir sveitarfélög sem reistu skorður við skuldsetningu og stuðluðu að hallalausum rekstri sveitarfélaga.

Samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál var falið að vinna að tillögum á grundvelli vegvísisins og í síðustu viku skilaði nefndin skýrslu sinni til mín og sambandsins. Skýrslan er nú til umfjöllunar á landsþingi ykkar en það vekur ánægju mína að allir fulltrúar í nefndinni standa saman að tillögum sem þar eru settar fram.

Ég vænti þess að þið ræðið ítarlega um skýrslu og tillögur nefndarinnar. Ég mun svo eiga fundi í október um málið með formanni sambandsins og flytur hann mér þá niðurstöðu ykkar. Ég reikna enn fremur með að skýrslan verði umfjöllunarefni á formlegum samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga sem ég hyggst boða við fyrstu hentugleika. Við þurfum sem fyrst að svara því hvernig við ætlum að innleiða nýtt efnahagssamráð og hvaða fjármálareglur eiga að gilda um starfsemi sveitarfélaganna – t.d. hvaða ákvæði þarf að innleiða í lög.

Sveitarstjórnarlög

Unnið hefur verið að endurskoðun sveitarstjórnarlaga og liggur fyrir uppkast að frumvarpi frá nefnd sem falið var það verkefni. Mér er kunnugt um að þið hafið málið nú til skoðunar, ég hef ekki sjálfur tekið afstöðu til frumvarpsins í heild sinni eða einstakra breytingatillagna sem þar kunna að felast en legg áherslu á opið og gegnsætt samráðsferli áður en málið verður lagt fyrir Alþingi. Þetta eru mikilvægustu lög sveitarstjórnarstigsins, þetta er stjórnarskrá fyrir hið staðbundna lýðræði og ég legg áherslu á að þið sem fulltrúar þess kynnið ykkur vel þær hugmyndir sem nú liggja á borðinu og komið þeim á framfæri við ráðuneytið.

Mínar áherslur liggja í því að ég vil efla lýðræðislega ákvarðanatöku, ég vil opna stjórnsýslu sveitarfélaga og tryggja bæði rétt íbúa til upplýsinga og aðgangs að ákvörðunum um eigin málefni. Sveitarfélag er ekki til fyrir sveitarstjórn, heldur er það félag íbúanna. Þeir hafa valið sveitarstjórnarmenn til að vera umboðsmenn sínir í tiltekinn tíma, og þá er ég aftur kominn að því sem ég byrjaði á, hinu lýðræðislega umboði. Þetta eigum við að hafa í huga og þessi meginsjónarmið vil ég verja í sveitarstjórnarlögum.

Í frumvarpsdrögunum er opnað fyrir þá hugsun að enda þótt sveitarstjórnarlögin séu hugsuð sem eins konar stjórnarskrá og grunnviðmið þá er gert ráð fyrir tilraunastarfsemi og svigrúmi til að þróa áfram nýja hugsun. Sem dæmi má nefna að gert er ráð fyrir því að 20% kosningabærra manna geti óskað eftir íbúakosningu.

Ég vonast til að geta lagt fram frumvarp til nýrra sveitarstjórnarlaga í nóvember og ítreka því óskir mínar um að heyra ykkar álit á þeim drögum sem nú eru til umfjöllunar.

Sameiningarátak

Fyrir rétt rúmu ári síðan undirrituðu forveri minn, Kristján L. Möller og formaður Sambandsins, Halldór Halldórsson yfirlýsingu um vinnu við mótun tillagna um leiðir til frekari sameiningar sveitarfélaga. Eins og fram kom í yfirlýsingunni var litið á þetta sem lið í átaki til eflingar sveitarstjórnarstigins.

Á grundvelli yfirlýsingarinnar var skipuð fjögurra manna nefnd sem fékk það hlutverk að ræða og meta sameiningarkosti í hverjum landshluta. Nefndin er skipuð reynslumiklu og góðu fólki þeim Flosa Eiríkssyni, formanni, Þorleifi Gunnlaugssyni, Dagnýju Jónsdóttur og Soffíu Lárusdóttur.

Samkvæmt yfirlýsingunni átti nefndin að leggja fyrir þetta landsþing álit sitt á sameiningarkostum þar sem málið yrði tekið til umræðu. Það er skemmst frá því að segja að nefndin afhenti mér skýrslu sína í gær og verður hún til umfjöllunar í umræðuhópi hér á landsþinginu.

Þetta er umræðuskjal þar sem settar eru fram fyrstu hugmyndir um sameiningarkosti í hverjum landshluta. Þetta er gagnmerkt plagg að mínu viti og ber þess glöggt merki að mikið samráð hefur verið milli nefndarinnar og fulltrúa landshlutasamtakanna. Í umræðuskjalinu eru settar fram áhugaverðar hugmyndir og rök fyrir ákveðnum sameiningum og á sama hátt lýst hvar síst er talið líklegt að til sameininga komi. Ég hvet landsþingsfulltrúa til að kynna sér hugmyndirnar sem hér eru settar fram og álykta um þær. Samband íslenskra sveitarfélaga þarf að tjá vilja sinn í þessum efnum og hvert yrði næsta skref í þessari vinnu.

Hvað varðar sameiningar sveitarfélaga er afstaða mín skýr. Ég er fylgjandi því að sveitarfélög eflist með frekari sameiningum eða samvinnu. Ég tel að þau verkefni sem þeim hefur verið falið og eru að taka að sér séu þess eðlis að það sé betra að þau séu nægjanlega öflug til að valda þeim sem skyldi – íbúanna vegna. Sameining er af hinu góða en ég vil ekki að það gerist með einhverjum fyrirmælum að ofan. Viljinn til að sameinast og forsendur sameiningar verða að mótast hjá íbúunum sjálfum, ég get hvatt til sameiningar og bent á kosti hennar en ég ætla ekki ríkisvaldinu að grípa fram fyrir hendur á íbúum sveitarfélaga og hafa vit fyrir þeim í þessum efnum.

Móttóið er að sameining sveitarfélaga verði með frjálum vilja. Heimamenn í hverju byggðarlagi eiga að taka frumkvæðið, finna það út hvernig þeir geta eflt sveitarstjórnarstigið og breytt skipulagi eða aukið samstarf í þágu íbúanna. Þetta er það grasrótarlýðræði sem ég styð með góðu samstarfi við sveitarstjórnarmenn um land allt. Það skilar bestum árangri.

Við megum aldrei missa sjónar á megin markmiði okkar sem er að bæta þjónustuna við fólkið í landinu.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta