Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. október 2010 DómsmálaráðuneytiðÖgmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2010, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2010

Ávarp Ögmundar Jónassonar á ársfundi Jöfnunarsjóðs 2010

Góðir ársfundarfulltrúar.

Hér er að hefjast þriðji ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Enn á ný komum við saman til að fjalla um fjármál sveitarfélaga sem hafa verið mikið á dagskrá okkar í ráðuneytinu undanfarnar vikur og þar af leiðandi dagskrá minni sem ráðherra.

Ég fjallaði um fjármálin á nokkrum aðalfundum landshlutasamtaka sveitarfélaga, á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga um síðustu mánaðamót og í gær á fjármálaráðstefnunni. Í dag koma þau enn til umræðu og nú á vettvangi Jöfnunarsjóðs.

Ég hef á þessum fundum öllum skynjað miklar vangaveltur sveitarstjórnarmanna og áhyggjur af fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Eðlilega spáið þið og spekúlerið hvað er framundan og hvaða ráðstafanir er hægt að gera til að styrkja fjárhag sveitarfélaga. Þetta er sama viðfangsefni og við glímum við í ríkisstjórninni, heimilin glíma við sömu vandamál og atvinnufyrirtækin einnig.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur um árabil verið öflugur bakhjarl sveitarfélaganna. Tilgangur hans hefur þannig verið að jafna aðstöðumun hinna ólíku sveitarfélaga landsins sem eru misjafnlega í stakk búin til að standa undir lögboðnum verkefnum. Eins og við vitum eiga öll sveitarfélög, fjölmenn sem fámenn, að geta veitt þegnum sínum sams konar þjónustu í grundvallaratriðum hvort sem það er á sviði félagsþjónustu eða umhverfismála.

Þannig er og hefur Jöfnunarsjóður verið afar mikilvægur sveitarfélögunum og blátt áfram lífsnauðsynlegur tekjustofn fyrir sum þeirra.

Í byrjun síðasta árs skipaði forveri minn í embætti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra starfshóp til að endurskoða regluverk Jöfnunarsjóðs. Verkefnið var í höndum þeirra Flosa Eiríkssonar, Bjargar Ágústsdóttur og Guðmundar Bjarnasonar. Sérfræðingar Jöfnunarsjóðs og ráðuneytisins hafa unnið með starfshópnum.

Slík endurskoðun var löngu tímabær. Margt hefur breyst og þróast í rekstrarumhverfi sveitarfélaganna og búsetuþróun landsins. Sveitarfélögum hefur fækkað örlítið síðustu árin, auknar kröfur eru gerðar til þeirra um þjónustu og stífari reglur hafa ný verkefni og kostnað í för með sér til dæmis á sviði sorp- og umhverfismála. Þá hefur íbúafjöldi sveitarfélaga tekið breytingum áfram, sums staðar fækkar íbúum ár frá ári en annars staðar fjölgar þeim. Allt er þetta eðlileg þróun í þjóðfélagi okkar.

Þessi eðlilega þróun hefur líka haft áhrif á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Á liðnum árum hafa honum verið falin ýmis ný verkefni eins og þið þekkið og ég nefni aðeins flutning grunnskóla til sveitarfélaga, greiðslu húsaleigubóta, tímabundin framlög vegna sameiningarátaka sveitarfélaga og nú síðast endurgreiðslu vegna kostnaðarhækkunar sveitarfélaga með hækkuðu tryggingagjaldi.

Með endurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðs er verið að þróa og aðlaga hann að breyttum aðstæðum. Við megum þó ekki breyta honum breytinganna vegna. Við þurfum að vega og meta hvernig hann þjónar best hlutverki sínu í breyttu þjóðfélagi, endurmeta núverandi verkefni og íhuga hvort og hvaða ný verkefni hann gæti þurft að taka á sig. Við þurfum nýja heildarsýn og heildarstefnu fyrir Jöfnunarsjóðinn.

Ég tel að þetta hafi starfshópurinn gert og sett fram í skýrslu sinni sem þið hafið eflaust kynnt ykkur. Markmið endurskoðunarinnar voru þau að stuðla að auknum gæðum jöfnunaraðgerða og tekið mið af heildaraðstæðum sveitarfélaga bæði tekjumegin og gjaldamegin. Það var einnig markmiðið að einfalda kerfið og síðan að útfæra tillögur með hliðsjón af breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga.

Fulltrúar starfshópsins og sérfræðingar sambandsins og ráðuneytisins fóru á síðasta ári víða um land til að ræða við ykkur sveitarstjórnarmenn um ýmsar hugmyndir í þessum efnum.

Starfshópurinn leggur til að breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs verði gerðar í nokkrum skrefum. Fyrsta skrefið  yrði smávægilegar lagfæringar á reglunum sem ráðgjafarnefndinni yrði falið að vinna og næsta skref yrði að tekjujöfnunarkerfið verði lagt niður í núverandi mynd og tekið upp útgjaldamælingarkerfi. Hugmyndin er síðan að öll framlög sjóðsins sem hafa jöfnunartilgang verði sameinuð í eitt samræmt jöfnunarframlag sveitarfélaga og þannig þróað nákvæmt útgjaldamælingarkerfi sem gefi nauðsynlegan grunn til að skilgreina og meta útgjaldaþörf þeirra. Nú verður skipaður vinnuhópur sem tekur að sér að meta útgjaldaþörfina og hef ég þegar óskað eftir tilnefningum í þann hóp.

Þið hafið væntanlega þegar kynnt ykkur nokkuð þessar tillögur og það verður fróðlegt að heyra sjónarmið ykkar varðandi þær. Við þurfum að vinna þetta í sameiningu og samræma sjónarmiðin og ég legg mikla áherslu á að við náum fram breytingum á næstunni sem bæta regluverkið.

Ég hef heyrt af áhyggjum sveitarstjórnarmanna um aukaframlag Jöfnunarsjóðs á næsta ári og framlag sjóðsins vegna hækkunar tryggingagjalds og áhyggjur af miklum vexti í útgreiðslu húsaleigubóta. Ég skil vel þessar áhyggjur sveitarstjórnarmanna en við þurfum að sama skapi að hafa skilning á stöðu ríkissjóðs. Fyrir honum liggur áframhaldandi niðurskurður sem verður væntanlega um 33 milljarðar á næsta ári. Ég vonast til þess að við berum gæfu til að eiga góð og uppbyggileg samtöl um þessi atriði og komast á endanum að sameiginlegri niðurstöðu.

Ég vil í lokin þakka ráðgjafarnefndinni fyrir mikil og vel unnin störf og sérstaklega formanni hennar, Guðmundi Bjarnasyni. Áhugi hans á málefnum sveitarfélaga hefur skilað sér vel í starfi nefndarinnar. Ráðgjafarnefndin er dæmi um vettvang sem nýtist ráðherra vel, vettvang þar sem sérfræðingar fjalla um mál sem þeir gjörþekkja og eru ráðherra til ráðuneytis um framgang mála. Slík fagleg ráðgjöf nýtist vel og ég vil þakka fyrir það.

Ég vil einnig nota tækifærið og þakka Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir gott samstarf og fagleg vinnubrögð í þeim ýmsu nefndum sem við höfum átt samstarf í.

Ég vil einnig þakka starfsmönnum Jöfnunarsjóðs fyrir framlag sitt og vel unnin störf. Þar er á engan hallað þó að ég nefni Elínu Pálsdóttur sérstaklega – hún er vakin og sofin yfir velferð Jöfnunarsjóðs. Við skulum undirstrika þakklæti okkar til starfsmanna Jöfnunarsjóðs með lófataki okkar.

Ég hef nú dvalið við nokkur atriði í starfi Jöfnunarsjóðs og vil aðeins endurtaka að hann er okkur nauðsynlegt verkfæri og farvegur fyrir jöfnunaraðgerðir stjórnvalda í þágu íbúa hinna ólíku sveitarfélaga landsins. Sveitarfélög verða áfram ólík og þau verða áfram misjafnlega í stakk búin til að gegna hlutverki sínu. Þess vegna þurfum við áfram Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta