Ávarp á 50 ára afmælisráðstefnu embættis ríkissaksóknara
Ávarp Ögmundar Jónassonar á 50 ára afmælisráðstefnu embættis ríkissaksóknara
Góðir fundargestir.
Ég óska embætti ríkissaksóknara og starfsmönnum þess og reyndar okkur öllum til hamingju með hálfrar aldar afmælið. Þetta er ekki löng saga en ég hygg að við getum öll verið sammála um að hún er vörðuð ýmsum merkum áföngum og enn eru breytingar í farvatninu enda höfum við ærin tilefni til endurmats á skipulagsformum réttarkerfisins í samræmi við krefjandi kröfur samtímans.
Þjóðfélagið er allt á hreyfingu. Atvinnustarfsemi, rannsóknarstarf, nýsköpun, menntun, heilbrigðisþjónusta og fjármálastarfsemi – allar þessar greinar verða sífellt flóknari og krefjast stöðugs endurmats, sífelldrar endurmenntunar og aukinnar sérfræðiþekkingar. Þetta á ekki síst við um réttarkerfið.
Ísland er öfgafullt dæmi um örar og ágengar breytingar. Bankahrunið á Íslandi á að hluta rót að rekja til alþjóðavæðingar fjármagns og markaða og er auk þess hluti af einkavæðingar- og nýfrjálshyggjufári sem gengið hefur yfir heiminn allan frá upphafi níunda áratugar síðustu aldar og fram á þennan dag með sýnilegum afleiðingum aukinnar misskiptingar og óstöðugleika. Ekki er séð fyrir endann á afleiðingum þessarar þróunar sem birtast okkur í átökum um grundvallargildi; baráttu á milli fjármagns og séreignarréttar annars vegar og mannréttinda hins vegar. Hvernig forgangsraðar þjóðfélag í kreppu, stendur það vörð um þá sem „eiga“ eða hina sem „ekkert eiga“? Hvor er rétthærri öryrkinn og hinn atvinnulausi eða fjármagnseigandinn? Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn svarar á sinn hátt, ég á minn.
Annars er alhæfingartal af þessu tagi varasamt. Þannig á alþjóðavæðing sínar góðu hliðar – gerir viðskipti og samskipti öll auðveldari og markvissari. Þótt óbeisluð markaðshyggja hafi reynst varasöm þá er markaðurinn góðra gjalda verður til síns brúks og ekki fordæmi ég, nema síður sé, einkaframtak í samfélaginu eða heiðarlega atvinnurekendur og kaupsýslumenn. Það sem hins vegar gerðist í ölduróti undangeginna ára er að samhliða því að losað var um markaðsböndin átti sér stað ákveðin afsiðun, allt varð nú leyfilegt, „græðgi er góð“, sagði Margrét Thatcher, „ég á það, ég má það“ sagði íslenskur kaupsýslumaður. Og það sem hann taldi sig mega gera er nú viðfangsefni sérstaks saksóknara efnahagsbrota.
Allt í einu stöndum við frammi fyrir erfiðum spurningum eins og mörkum lögbrota og siðleysis. Er siðleysi ólöglegt? Ef menn lána af ábyrgðarleysi, er það löglegt? Hvenær er farið yfir þau mörk að það verði ólöglegt? Fræg að þessu leyti eru mál er varða rétt lántakenda – lenders liability – í Enron gjaldþrotinu þar sem virðulegir bankar á borð við Royal Bank of Scotland, Royal Bank of Canada, Canadian Imperial Bank of Commerce, The Toronto-Dominion Bank, JPMorgan Chase, Credit Suisse, Merrill Lynch, Fleet Bank, Barclays og Deutsche Bank samþykktu að lokum að greiða skaðabætur vegna viðskipta sinna við félagið. Allir máttu þeir játa á sig aðild að svikum, trúnaðarbrotum og Citibank var stefnt fyrir að hafa, þrátt fyrir vitneskju um refsiverða háttsemi stjórnenda Enron, aðstoðað félagið við að setja upp sérstök eignarhaldsfélög í því skyni að ofmeta tekjur og eignir, en vanmeta skuldir. Þetta segir ekki aðeins sína sögu um framferði stórbankanna heldur minnir þetta okkur einnig á landamæri laga og siðferðis. Hér veit ég að margir lögspekingar myndu hvetja til varfærni í skilgreiningum. En ég spyr samt: Er þátttaka Goldman Sachs í hruni Grikklands ólöglegt atæfi eða í fullu samræmi við lög? Thomas More sagði í Utópíu sem hann gaf út 1516 að fljótlegasta leiðin til að fækka lögbrotum væri að fækka lögunum. Allt er þetta leikur að orðum í bland. Með góðum og vel hugsuðum lögum stefnum við ekki að því að að banna heldur að því að tryggja siðað samfélag. Og ef lögin megna ekki að tryggja siðað samfélag þá erum við í vanda.
Lýðræðislegt vald býr við stöðugan þrýsting af hálfu hagsmuna stórfyrirtækja og sterkra hagsmunahópa og ófyrirsjáanlegar afleiðingar fordæmisgefandi dóma hafa haft æ róttækari áhrif á sjálfa samfélagsgerðina. Lög sem sprottin eru af hinu lýðræðislega valdi eru túlkuð af dómstólum og samspil áhrifa stjórnarskrár, alþjóðasamninga og laganna sjálfra leiða æ oftar til niðurstöðu sem enginn vildi og enginn sá fyrir.
Ég minnist þess að þegar þjónustutilskipun Evrópusambandsins (Social service directive) var samþykkt fyrir fáeinum árum eftir áralangt tog á milli félagshyggjufólks og frjálshyggjumanna þá fögnuðu báðar fylkingar sigri því báðar höfðu þær fundið syllu til að standa á í málaferlum framtíðarinnar um túlkun tilskipunarinnar. Á þennan heim erum við Íslendingar minntir þessa dagana þegar fulltrúar Efta-dómstólsins segja okkur nú í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum að til standi að dómstóllinn kanni hvort það standist lög og regluverk hins Evrópska efnahagssvæðis að almeninngur sem á orkufyrirtækin á Íslandi hefði haft rétt á því að veita fjármagni úr opinberum sjóðum inn í fyrirtæki sín. Áhöld séu um að þetta standist markaðslögmál Evrópusambandsins! Lýðræðið – vilji almennigs – er þannig dreginn í efa. Ég spyr: Hvert erum við eiginlega að halda?
Hvað afmælisbarnið varðar – embætti Ríkissaksóknara þá – hefur það ekki farið varhluta af hræringum undangenginna ára og missera. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að við erum í hringiðu breytinga sem við getum öll haft áhrif á. Við höfum þurft að endurskoða og endurskipuleggja ýmsa þætti og nú síðast vegna mögulegra fjármálamisferla sem komið hafa til rannsóknar í kjölfar hruns fjármálkerfisins og grunsemda um misferli í tengslum við það.
Embætti sérstaks saksóknara tók til starfa í ársbyrjun 2009 og hefur til rannsóknar fjölmörg mál. Með breytingum á lögum um sérstakan saksóknara sem samþykktar voru á Alþingi í júní síðastliðinn var ákveðið að verkefni efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra skyldu færð til embættis sérstaks saksóknara. Við sjáum hins vegar fyrir okkur mun umfangsmeiri skipulagsbreytingar á komandi árum sprottnar af þessari sömu rót.
Rannsókn efnahagsbrota krefst sérhæfðrar og sérstakrar þekkingar og hef ég í samræmi við það lagt til að skipuð verði nefnd sérfróðra manna að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti til að endurskoða skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum og gera tillögur að heildarskipulagi slíkra rannsókna innan einnar stofnunar. Tilgangurinn er sá að gera þau verkefni markvissari og skilvirkari og að tryggja sem besta nýtingu fjármuna sem fara til þessa málaflokks. Skal nefndin hafa til hliðsjónar skipan efnahagsbrotarannsókna annars staðar á Norðurlöndum.
Af þessu má sjá að þróun og breytingar standa enn fyrir dyrum á skipan saksóknar og rannsóknar á efnahagsbrotamálum hér á landi.
Öll skipulagsform má bæta og þurfa stöðugt að sæta endurmati í ljósi breyttra tíma. Dóms- og réttarkerfi er þó þess eðlis að fara ber með fullri gát og stíga yfirvegað til jarðar. Á þessu sviði eiga heljarstökkin ekki við. En við megum aldrei sofna á verðinum og verðum sífellt að halda uppi umræðu og rökræðu um hvernig við skipum málum. Við höfum oftlega horft til nágrannalanda þegar við þurfum að endurskoða og endurmeta hlutina. Við erum í norrænu, evrópsku og alþjóðlegu samstarfi til að læra af öðrum og miðla og það á ekki síst við um lögreglu- og dómsmál.
Þess vegna notum við þetta hátíðlega tækifæri hér og nú til að efna til faglegrar umræðu um hvað við getum lært og hvað við getum kennt.
Ég vil að lokum endurtaka hamingjuóskir með afmælið og veit að hér á eftir að fjalla um fjölmargar hliðar á ákæruvaldinu og hlutverki þess og framtíð.