Valdið til fólksins - ræða á ráðstefnu innanríkisráðuneytisins um beint lýðræði og aukna þátttöku íbúa
Ræða Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á ráðstefnunni Beint lýðræði og aukin þátttaka íbúa í Ráðhúsi Reykjavíkur 14. september 2011.
Valdið til fólksins
Valdið til fólksins - power to the people – söng John Lennon í hljóðupptökuverum í Lundúnum og New York á árum áður og nú Jóhanna Þórhallsdóttir og félagar hér í Ráðhúsi Reykjavíkur. Valdið til fólksins er gamalkunnugt baráttustef lýðræðissinna í gegnum aldirnar. Lýðræði er fallegt orð um fallega hugsun, demokratiu eins og Grikkir kölluðu lýðræðið. Demos-fólkið, kratos valdið: Kerfið þar sem fólkið hefur völdin.
Aþenubúar þróuðu hugmyndagrunn lýðræðisins í árdaga og eru til um það stórmerkar heimildir. Ræður Periklesar í Pelopsskagastríðunum eru magnaður óður til frelsis og lýðræðis. Eftirfarandi sagði hann um stjórnarfarið í Aþenu:
„Stjórnarskrá okkar er kölluð lýðræði vegna þess að valdið er ekki í höndum minnihluta heldur þjóðfélagsins alls. Þegar ágreiningur rís á milli þjóðfélagsþegna þá skulu allir standa jafnir frammi fyrir dómstólunum; þegar skipað er í embætti og einn valinn umfram aðra til að takast á hendur samfélagslega ábyrgð skal einu gilda félagsleg staða, einu gilda upp úr hvaða þjóðfélagsstétt menn eru komnir, einvörðungu skal spurt um hæfileika hvers og eins. Búi einstaklingur yfir hæfileikum og getu til að þjóna samfélagi sínu, þá á fátækt aldrei að verða þess valdandi að honum sé haldið utangátta í stjórnmálum. Og í samræmi við frelsið og opinn samskiptamáta á vettvangi stjórnmálanna eru tengsl manna í millum í daglegu lífi. Þau eru af sama meiði, frjáls og opin. Við látum það ekki koma okkur úr jafnvægi þótt nágrannar okkar njóti lífsins eftir sínu höfði og á sinn máta, né gefum við þeim illt auga af þeim sökum, nokkuð sem út af fyrir sig þyrfti ekki að skaða þá en væri engu að síður særandi. Við erum frjálshuga og umburðarlynd í daglegu lífi okkar; en í opinberu lífi hlítum við lögum.“
Þetta sagði Perikles fyrir tvö þúsund og fimm hundruð árum.
Hann sagði ennfremur að almennt færu Aþenubúar að vilja þeirra sem þeir hefðu sett til að stjórna og að þeir fylgdu lögum af virðingu við lögin. En síðan bætir hann nokkru við sem mér þykir athyglisvert.
Hann segir, einkum fylgjum við þeim lögum sem sett eru til varnar hinum veikburða. Sama gildir um óskrifuð lög sem byggja á almennri réttlætiskennd og þykir hneisa að brjóta.
Það sem mér þykir merkilegt við þessa framsetningu er sú áhersla að lög verði að hvíla á siðferði til að öðlast virðingu, og ef lögin skorti sé það engin afsökun fyrir ranglátri breytni því menn eigi að láta stjórnast af siðferðisvitund sinni. Annað sé ólíðandi – annað sé hneisa.
Öll hugsun Periklesar er á þessa leið, allt á að vera opið og gagnsætt. Aþenubúar eigi engin hernaðarleyndarmál enda byggi þeir styrk sinn ekki á leynivopnum heldur séu yfirburðir þeirra fólgnir í innri styrk og löngun til að verja það sem þeim er kært. Raunverulegt hugrekki verði hvorki kennt né lært.
En hvað með hjálpsemi og gjafmildi? Hjá hinum frjálshuga manni, segir Perikles, þá kemur góðsemin innan frá og ætlast aldrei til endurgjalds. Sú afstaða geri menn frjálsa. Þarna gægist kristinn boðskapur fyrir hornið, talsvert á undan boðbera sínum, en þetta minnir á samhljóm sem víða er að finna í fornum siðaboðskap og trúarbrögðum fyrr og síðar hvað varðar grunngildin.
Á þessa leið lýsir gríski sagnfræðingurinn Þukidites hugsun heimspekingsins og hershöfðingjans Periklesar í merkilegu riti sínu um Pelopsskagastríðin á fimmtu öld fyrir Krist, þegar hernaðarhyggjuríkið Sparta og lýðræðisríkið Aþena háðu grimmilega valdabaráttu sín í milli.
Lýðræðinu í Aþenu var mikið ábótavant – nútímafólk myndi horfa til stöðu kvenna sérstaklega og ekki gilti reglan einn maður eitt atkvæði, fjarri því - en sú hugsun sem demokratía Grikkja hvíldi á var engu að síður um margt þroskuð og á dýptina. Sá skilningur var fyrir hendi að samfélög væru sterk ef þau byggðu á ríkri samfélagsábyrgð og samkennd, ást á frelsi og vilja einstaklinganna til að verja frelsið og axla ábyrgð. Enginn gæti unnið sigur á hugrekki og óttaleysi sem þannig væri sprottið.
Mig langar til að vitna í annað rit. Það er eftir frönsku frelsishetjuna úr Seinna stríði, Stephane Hessel. Ritið heitir Indignez-vous, Tími til að reiðast. Stephane Hessel var í útlagastjórninni frönsku á nasistatímanum, og einn af helstu höfundum Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna – Alheimsyfirlýsingarinnar um mannréttindi – Universal Declaration of Human Rights – ekki hinni Alþjóðlegu yfirlýsingu um mannréttindi eins og Bretar og Bandaríkjamenn munu hafa viljað kalla hana. Universal skyldi hún heita ekki International – þótt í yfirlýsingunni sé að finna ákvæði um rétt til þjóðernis einsog það er kallað. Í bæklingi sínum Indignez- vous segir Hessel þarna felast mikilvægan merkingarmun - því vísað sé til grunngilda sem rísi ofar öllu þjóðerni. Ýmsir telja að umræðan um grunngildin og herhvötiin til aðgerða – í sinnulausum heimi okkar samtíma sem þó skynji þetta kall tímans eða hlusti eftir því, þrái kannski að heyra það - skýri eftirspurnina eftir blóðheitum örbæklingi Hessels en frá því í október 2010 og fram í desember sama ár – á tæpum þremur fyrstu mánuðunum eftir að hinn 93 ára öldungur birti rit sitt - seldust 600 þúsund eintök í Frakklandi.
Já, blóðheitur. Bæklingurinn er funheitt ákall til einstaklingsins - hann er ákall til allra einstaklinga um að axla þá ábyrgð sem hjá þeim hvílir,
-hjá honum og hjá henni,
- hjá mér og þér
- hjá okkur öllum.
Hessel vitnar í landa sinn, heimspekinginn Jean Paul Sartre, sem hamraði á einstaklingsábyrgðinni; að einstaklingurinn gæti ekki fríað sig ábyrgð og látið hana eftir utanaðkomandi aðila eða afli, Guði ef því væri að skipta. Þvert á móti yrðum við, hvert og eitt okkar að standa í fæturna, í krafti einstaklingsbundinnar og sammannlegrar ábyrgðar okkar hvert á öðru.
Þessa hugsun botnaði Hessel með því að segja sinnuleysið vera verst. „Þetta fer allt saman einhvern veginn“ væri stórhættuleg afstaða – ekkert síður nú en á tímum alræðiskerfa fyrri tíðar. Hann höfðar sérstaklega til þeirra sem eru í áhrifastöðum, hvort sem þeir haldi um valdatauma í stjórnmálum, í efnahagskerfi eða hafi áhrif í andans heimi, en jafnframt beinir hann máli sínu til samfélagsins alls og segir:
Þið megið ekki gefast upp fyrir alþjóðlegu alræðiskerfi fjármagnsins, alræðiskerfi sem nú ógnar mjög raunverulega friðnum og lýðræðinu í heiminum. Það er tímabært , það er löngu tímabært að finna til tilfinninganna, það er tími til að að rísa upp, og einmitt það skuluð þið gera, rísið upp, reiðist, indignez-vous. Og þegar þið finnið til tilfinninganna, einsog ég gerði sjálfur frammi fyrir nasismanum, þá finnið þið fyrir róttækni innra með ykkur, óttaleysinu, þá finnið þið fyrir innri styrk, þá finnið þið fyrir tilgangi í lífi ykkar,
því þá,
- þá verðið þið gerendur í straumi sögunnar, í hinum mikla straumi sem heldur áfram jafnt og þétt, stríður og ólgandi fyrir tilstilli okkar allra.
Hessel segir það vekja von að þrátt fyrir allt sé saga mannkynsins í átt að meira réttlæti, meira frelsi – þótt ekki sé það frelsi minksins í hænsnabúinu. Réttindin sem sett voru á blað í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna 1948, séu og eigi að vera réttindi á alheimsvísu og að þegar við hittum einhvern sem er án þeirra – nýtur þeirra ekki, þá eigum við að reyna að verða viðkomandi að liði.
Það sem mér þykir magnaðast við ákall Stephane Hessels er hin eldheita herhvöt hans, áminningin um að við berum öll ábyrgð, að okkur beri að aðhafast og að það sé von – að það sé von um betri tíð. Vonin er grunnstef hjá Hessel. Róttækni þarf að byggja á von, segir hann. Valdbeitingarbarátta – terrorismi – sé stundum skiljanlegur, mér liggur við að segja eðlilegur segir Hessel, en terroroismi er sprottinn af örvinglan og uppgjöf. Þess vegna er hann óviðunandi, því hann leyfir okkur ekki að njóta þess árangurs sem vonin hefur skilað – og getur enn skilað!
Ég hef vísað í tvö dæmi um ákall til frelsis fyrr og nú – tímaspannið eru tvö þúsund og fimm hundruð ár. En áminningin er sígild og ódagsett og gildi hennar er óháð þeim breyskum mönnum sem settu hana fram, hvor með sínum hætti.
Hún snýr að því að varðveita grunngildi í siðferði og virða grundvallarréttindi. Bæði Perikles og Hessel minna okkur á hve sterkt það samfélag er sem sameinast í virðingu fyrir grundvallarmannréttindum og þeim grunngildum sem þau hvíla á; hve illa verður haggað við slíkum samfélögum svo lengi sem grunngildin eru inngróin í samfélagasvitundina. Ef þar verði breyting á þurfi meðvitað baráttuátak til að endurreisa þessa hugsun í samfélaginu annars sé raunveruleg hætta á ferðum.
Í mínum huga er frelsi einstaklingsins grundvallarréttur. Þú átt að vera frjáls svo lengi sem þú skaðar ekki aðra, sagði John Stuart Mill svo réttilega. Jafnvel þótt sýna megi fram á að frjálst samfélag sé sterkara og öflugra en ófrjálst; skili með öðrum orðum meiri árangri, þá er það svo í mínum huga að réttur minn og þinn til að ráða lífi okkar er ekki háður árangursmælingum af neinu tagi heldur er hann grunnréttur. Þess vegna er það nánast skoplegt þegar stjórnmálamenn, sem þegar allt kemur til alls, eru kallaðir til verka sem milligöngumenn í ákvarðanatöku af þeirri ástæðu einni hve tæknilega örðugt það er að kjósa um alla hluti öllum stundum; þegar milligöngufólkið telur sig þess umkomið að ákvarða um hvað almenningi eigi að vera heimilt að kjósa. Í mínum huga á almenningur að geta kosið um allt sem hann lystir. Ef við erum nógu mörg sem óskum eftir því þá á krafan um milliliðalaust lýðræði að ganga eftir.
Það er gleðilegt að nú skuli slíkur réttur í fyrsta sinn í þann veginn að verða leiddur í lög á Íslandi. Samkvæmt frumvarpi nýrra sveitarstjórnarlaga nægir að fimmtungur íbúa í sveitarfélagi krefjist almennrar atkvæðagreiðslu, þá skal hún fara fram. Lýðræðisfélagið Aldan hefur vakið athygli á því að ganga hefði mátt lengra í þessari lagasmíð og hef ég skilning á því sjónarmiði – en enginn neitar því þó að þarna er verið að stíga mjög mikilvægt skref í lýðræðisátt. Sambærilegt ákvæði við það sem er að finna í nýjum sveitarstjórnarlögum þarf að komast inn í landslögin og inn í Stjórnarskrá lýðveldisins.
En jafnvel þótt það sé rétturinn til ákvarðanatöku en ekki reynslan af lýðræðinu sem færir okkur þessi lög, þá er engu að síður eðlilegt að spurt sé um reynsluna af beinu lýðræði. Í ársbyrjun 2010 fór fram nokkur umræða um lýðræðið í tengslum við þá ákvörðun forseta Íslands að verða við kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þeirri umræðu var einhverju sinni vísað til þess að fræðimenn hefðu talað um að forseti lýðveldisins væri í Icesave málinu að „þvælast fyrir" ríkisstjórninni og orðrétt var haft eftir lagaprófessor og dómara að það væri „mjög óþægileg staða fyrir ríkisstjórn og þingmeirihluta hverju sinni að þurfa að eiga það yfir höfði sér að erfiðum málum, sem að þeim hefur tekist að koma í gegnum þingið, sé synjað með þessum hætti.“
Annar þátttakandi í umræðunni komst svo að orði : „Það er langt frá því að aukin þátttaka almennings í stjórnun landsins með þjóðaratkvæðagreiðslum sé samasammerki með réttlátara samfélagi. Dæmin tala sínu máli. Í Bandaríkjunum eru til ríki sem ganga afar langt í þessum efnum og almenningur fær að kjósa um flest mál. Þessi ríki eiga það sammerkt að vera skuldugusu ríki Bandaríkjanna, opinber þjónusta er engin og félagslegt óréttlæti mest. Þá virðast lög í anda rasisma eiga greiða leið í slíku fyrirkomulagi eins og nýlegt dæmi frá Sviss sýnir. Staðreyndin er nefnilega sú að lýðskrumarar með aðgang að peningum eiga mun auðveldara með að koma málum í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu heldur en faglega umræðu á þjóðþingi."
Enn einn þátttakandi í umræðunni brást við þessu að bragði: Hvers konar viðhorf eru það sem fram koma gagnvart þjóðinni, ef menn vilja taka frá henni réttinn til að bera ábyrgð á örlögum sínum? Mér finnst það til marks um síð-sovésk viðhorf ... að leyfa sér mannfyrirlitningu af þessu tagi.
Undir þetta síðasta tók ég í mínum skrifum á þessum tíma og benti á að forræðishyggjan í nútímastjórnmálum væri skyld málflutningi borgarastéttar 19. aldarinnar, sem vildi halda kosningarétti takmörkuðum gagnvart vaxandi verkalýðsstétt á sama hátt og aðall og konungssinnar höfðu áður meinað borgarastéttinni aðgang að löggjafarvaldi. Sýn borgarastéttar 19. aldarinnar á skaðsemi lýðræðisins hefði verið hagsmunatengd en sú hætta væri einmitt uppi á öllum tímum að menn létu stjórnast af þröngum hagsmunum. Ástæðuna fyrir skuldsetningu fylkja í Bandaríkjunum og félagslegu ranglæti teldi ég auk þess vera aðra en beina ákvarðanatöku almennings; hefði meira með stöðu þjóðfélagsmála almennt að gera, óháð formlegu lýðræðislegu valdi. Þar fyrir utan ætti klisjan um skuldsetningu fylkja í Bandaríkjunum þar sem beint lýðræði er ástundað, einkum Kaliforníu og meint lágt skattahlutfall af sömu ásæðu, ekki við rök að styðjast. Þannig væri Kalifornía ellefta í röð skuldsettustu fylkja í Bandaríkjunum og skattprósentan þar sú fimmta hæsta.
Athyglisvert í þessu samhengi er að gaumgæfa skoðanakannanir hér á landi þar sem spurt hefur verið um viðhorf til skatta og velferðarþjóðnustu. Í nánast öllum könnunum hefur komið fram yfirgnæfandi meirihlutastuðningur við að fjármagna velferðarkerfið með sköttum og hefur meirihluti jafnan verið fyrir því að borga háa skatta að því tilskildu að tryggt sé að þeir renni til heilbrigðisþjónustunnar eða annarrar mikilvægrar velferðarþjónustu. Af tilefni þessara tilvitnuðu skrifa má einnig spyrja hvort það hefði verið til ills ef efnt hefði verið til þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeildar ráðstafanir á undangengnum tveimur áratugum og hvort það yfir höfuð sé hollt að ríkisstjórnin komi „erfiðum málum" auðveldlega í gegn svo vitnað sé í áður ívitnaðan texta? Hefði verið virkjað við Kárahnjúka, hefðu bankarnir verið einkavæddir og sjávarauðlindin sett í pant ef þurft hefði að eiga það við þjóðina beint? Og hvað með vatnið?
Fyrir nær tveimur áratugum staðnæmdist ég í umræðu um skylt málefni við orð Halldórs Laxness í formála annarrar útgáfu Alþýðubókarinnar frá árinu 1945.
„Ef maður vill fræða einhvern hve langt sé austur á Eyrarbakka,“ ritaði Halldór, „þá er fyrst að leita öruggrar fræðslu um það hjá þeim sem hafa mælt veginn; maður hefur ekki leyfi til að hafa um það neinar skoðamir.“
Auðvitað var það hárrétt hjá Halldóri Laxness, að vegurinn austur á Eyrarbakka er tiltekinn fjöldi kílómetra, og einnig metra og sentímetra ef því er að skipta, algerlega óháð skoðunum okkar og vilja. Hitt er svo annað mál að við hljótum að hafa leyfi til að hafa á því skoðun hvort okkur finnist vera langt eða stutt til Eyrarbakka – og hlýtur sú skoðun að vera háð því við hvað hver og einn miðar. Þetta minnir á að sú spurning er sígild þegar ákvarðanir eru teknar eða afstaða mótuð til mála, hvar draga eigi mörkin á milli vilja og þekkingar.
Þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var keyrður til niðurstöðu á Alþingi árið 1993 vildu öll helstu almannasamtök landsins fá að kjósa um hann í þjóðaratkvæðagreiðslu og þúsundum undirskrifta var safnað í þeim tilgangi að knýja á um að svo yrði. En allt kom fyrir ekki. Þáverandi ríkisstjórn sagði að almenningur hefði ekki vit á svo flóknum samningum, það yrði að láta þingmenn sem aflað hefðu sér þekkingar og væru orðnir sérfróður um málefnið – taka um það ákvörðun. Og þar við sat.
Um þetta leyti urðu mannaskipti á forsetastól Alþýðusambandsins. Þá gat að líta í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins annað skýrt dæmi um ofurtrú á tæknihyggju. Þaning var að framlenging á svokölluðum Þjóðarsáttarsamningum var í burðarliðnum og talsverður urgur kominn í margan manninn. Fráfarandi forseti ASÍ var hins vegar á svipaðri bylgjulengd og ríkisstjórnin og Morgunblaðið og sagði höfundur Reykjavíkurbréfs að fráfarandi alþýðuforingi talaði af miklu viti enda gæti hann það því hann væri á förum úr embætti og fyrir bragðið ekki háður vilja umbjóðenda sinna! Þarna var nánast sagt að æskileg eða rétt niðurstaða og lýðræðislegur vilji gætu ekki átt samleið. Með öðrum orðum, þekking og lýðræði stönguðust á – væru beinlínis andstæður.
Ef litið er til mannkynssögunnar þá hafa menn alltaf annað veifið trúað því að þeir væru að höndla sannleikann – og stundum hafa þeir talið sig hafa náð á honum tökum af vísindalegri nákvæmni, samanber í Sovétríkjunum sálugu þar semsérstakir hugmyndafræðingar höfðu það hlutverk að kveða upp úr um hvað væri rétt og hvað væri rangt. Slíkir aðilar gefa að sjálfsögðu lítið fyrir skoðanir – það hljóti meira að segja vera sannleikanum til framdráttar að útrýma því huglæga úr tilverunni. Ekki má gleyma því í þessu samhengi að ólíkum hagsmunum fylgja ólík sannindi.
En áður en ég segi skilið við þessi fystu ár tíunda áratugar síðustu aldar og til að botna þessa frásögn vil ég minnast reynslu minnar innan BSRB þar sem ég þá gegndi formannsstöðu. Á þessum tíma lét BSRB útbúa upplýsingaefni um hið Evrópska efnahagssvæði þar sem greint var frá ýmsum fullyrðingum um meinta kosti og galla aðildar að EES. Á þessum tíma vorum við harla vongóð um að við næðum því fram að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn og þannig hugsuðu margir. Og viti menn. Við þessa tilhugsun var sem þjóðfélagið lifnaði. Umræða sem árum saman hafði verið einskorðuð við sérfræðinganefndir varð nú þjóðarinnar allrar. Fólk spurði og leitaði svara; fólk vildi læra á umhverfi sitt, þekkja allar hliðar, alla möguleika og kosti til að átta sig á hvað best væri til ráða. Það mætti orða það svo að fólk hafi viljað vita hve langt væri til Brussel í kílómetrum talið, og einnig í metrum og sentimetrum til þess að geta haft á því skoðun hvort og með hvaða hætti það vildi halda þangað.
Þarna kom í ljós að þegar lýðræðið verður virkt og lifandi, leita menn þekkingar til að grundvalla skoðanir sínar á. Í umræðunni mátti sjá sterkar vísbendingar um að ákvarðanir sem grundvallast á þekkingu og ákvarðanir sem grundvallast á lýðræði þurfa ekki að stangast á. Þvert á móti, þegar þetta tvennt kemur saman verður til uppbyggjandi afl, og fyrir vikið verður samfélagið allt stekrara og öflugra.
Þegar Íslendingar unnu sjálfstæði sitt, þá var það því að þakka að vakning varð með þjóðinni, hún tók af lífi og sál þátt í umræðu um nútíð sína og framtíð. Að sönnu var samfélagið að mörgu leyti einfaldara í þá daga en það er nú, en hitt hefur ekki breyst að okkar litla samfélag þarf á því að halda að við leggjumst öll á árarnar og séum öll með á nótum, skiljum umhverfi okkar og allt sem það hefur upp á að bjóða. Þannig virkjum við best þá krafta sem búa með okkur.
Ég hef lengi haldið fram þeirri kenningu að stjórnmál snúist ekki um stjórnmálaflokka nema þá helst að því leyti að stjórnmálaflokkum hættir til að fangelsa hugarfarið, beina athyglinni frá stefnumálum og að hinum stofnanavædda þætti stjórnmálanna. Þannig var hægri bylgjan í byrjun níunda áratugarins, sem byrjaði að rísa í tíð þeirra Thatchers og Reagans, ekki fólgin í því að hægri flokkar yrðu stærri. Hún fólst í því að allir flokkar urðu hægri sinnaðri, allt stofnanaveldi samfélagsins, verkalýðskontórar ekkert síður en atvinnurekendakontórar fóru að hugsa í markaðslausnum; hinum félagslegu lausnum var ekki hleypt að, upp á þær var ekki lengur boðið – og er reyndar svo enn þótt gleðileg teikn megi sjá um breyttar áherslur í þankagangi samfélagsins, í tíðarandanum.
Tíðarandinn er viðfangsefni stjórnmálanna. Hann skiptir miklu meira máli en gengi einstakra stjórnmálaflokka. Ég er þannig sannfærður um að fyrir fjörutíu árum hefðu hægri sinnaðir handhafar peningafrjálshyggjunnar ekki komist upp með sín verstu verk sem hrint var alltof auðveldlega í framkvæmd á undangengnum árum. Tíðarandinn hefði ekki leyft það.
Og að sama skapi er ástæðan fyrir því að peningafrjálshyggjan komst þó ekki lengra en raunin varð á síðustu árum með velferðarkerfið í átt til einkavæðingar, sú, að almenningur leyfði það ekki. Þrátt fyrir allan áróðurinn stríddi markaðsvæðing á þessu sviði gegn almennum viðhorfum í samfélaginu; gegn hinum óskrifuðu grunngildum.
Í mínum huga er baráttan um tíðarandann hin raunverulega pólitíska barátta. Það er barátta eða viðleitni til að hafa áhrif á það hvernig við hugsum, hvaða lausnir við viljum, hvernig við viljum skipuleggja þjóðfélagið, hvað við leyfum stjórnmálamönnum að framkvæma og hvað við beinlínis óskum eftir að þeir geri.
Ég andmæli þeirri skoðun að lýðræði í of stórum skömmtum leiði til ranglætis og bendi á að ástæðuna fyrir félagslegu ranglæti, hvort sem er í Sviss eða einstökum fylkjum Bandaríkjanna tel ég vera aðra en beina ákvarðanatöku almennings, held hún hafi meira með stöðu þjóðfélagsmála almennt að gera, óháð formlegu lýðræðislegu valdi. Skýringuna er að finna í viðhorfum í þjóðfélaginu, tíðarandanum. Ef hann er ekki innstilltur til varnar velferðinni þá mun velferðin eiga erfitt uppdráttar hvort sem er í almennri atkvæðagreiðslu eða í fulltrúalýðræði.
Hins vegar skulum við ekki fara í grafgötur með að í framkvæmd lýðræðis er ekki allt slétt og fellt. Þar er að finna togstreitu af ýmsu tagi. Þannig er í rauninni ekkert undarlegt að stofnanakerfi stjórnmálanna sé efins um beint lýðræði. Ástæðan er sú að margir stjórnmálamenn líta á beint lýðræði sem ógn við tilveru sína. Beint lýðræði komi til með að fækka þeim viðfangsefnum og ákvörðunum sem þeir eru nú einir um. Síðan er það að sjálfsöfgðu hitt að krafan um almenna atkvæðagreiðslu er oftar en ekki sett fram vegna óánægju með ákvarðanir eða ákvarðanaleysi stjórnmálamanna. Krafan um almenna atkvæðagreiðslu verður þannig auðveldlega skilin af þeirra hálfu sem vantraust á þá og án efa er oft nokkuð til í því.
Annað sem getur valdið togstreitu er hvaða lýðræðisheild eigi að taka ákvörðun um hvaða viðfangsefni. Taka Reykvíkingar einir ákvörðun um framtíð Reykjavíkurflugvallar? Á þjóðin öll að koma að því máli? Hvað með Jökulárnar í Skagafirði, Landmannalaugar, Gullfoss eða Grímsstaði á Fjöllum? Hver á að hafa ákvörðunarvaldið yfir þessum stöðum, þeir sem hafa einkaeignarrétt á hendi, sveitarfélög, þjóðin öll? Hvar skarast réttur fjármagns og lýðréttinda?
Að lokum langar mig til að víkja að spurningunni um rétt og skyldur okkar sem þjóðfélagsþegna í þessu samhengi. Gætum við leitt allt þetta argaþras hjá okkur? Haldið okkur í eigin heimi og látið aðra um hituna? Að sjálfsögðu getum við það. Ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm um frelsi einstaklingsins hljótum við að virða rétt hans til þátttökuleysis. Gleymum þó ekki hvatningarorðum þeirra Jean Paul Sartre og Stefane Hessels um hina einstaklingsbundnu og sammannalegu ábyrgð. Munum að með afskiptaleysi afsölum við okkur rétti til að gagnrýna það samfélag sem við búum í.
Einu sinni var ég á ferð í Helsingfors í Finnlandi. Ég var í flughafnarrútunni árla morguns á förum frá borginni. Enginn var á ferli í morgunnepjunni nema einmana gamall drykkjumaður. Hann hallaði sér að útikamri sem þarna var og meig utan í hann. Inn í sjálfan kamarinn komst hann ekki því þá hefði hann þurft að hafa evru sem hann að öllum líkindum átti ekki. Tvær spurningar komu upp í hugann. Í fyrsta lagi, hefur þessi maður rétt á að míga þar sem hann lystir? Í öðru lagi, skyldi hann eiga kröfu á samfélagið um að sjá sér fyrir fríum kamri? Niðurstaða mín þessa morgunstund var sú, að maðurinn ætti ekki sjálfkrafa kröfurétt á samfélagið. Ef hins vegar samfélagið vildi ekki hafa fólk mígandi á torgum úti, ef samfélagið vildi yfirleitt ekki að gamlir drykkjumenn væru settir út á guð og gaddinn þá hefði það skyldur gagnvart þeim. Þessar hugleiðingar eina morgunstund í Helsingfors breyta ekki því að allir menn hvernig sem þeir eru á sig komnir eiga kröfu til grundvallarmannréttinda. En fyrrnefnd hugsun er engu að síður í ætt við þær áherslur fatlaðra sem ég heyrði einu sinni svo vel fram settar af talsmanni fatlaðara á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og voru á þá leið að vilji samfélag teljast mannréttindasamfélag þá verði það að uppfylla skyldur sínar gagnvart þörfum fatlaðra – annars rísi samfélagið ekki undir því sæmdarheiti að geta kallast mannréttindasamfélag.
Það er þarna sem ég finn samhjóminn við Sartre og Hessel um skyldur okkar allra til að rækja samfélagslegt og sammannlegt hlutverk okkar. Lýðræði er ekki eitthvað sem við fáum sem sérstök fríðindi – lýðræði er í þessum skilningi samfélagsleg skylda.
Ég vitnaði í lýðræðisbaráttu fyrri alda á milli konungssinna og þingræðissinna, sem lauk með sigri þingræðissinna. Nú á sér stað hliðstæð barátta milli þingræðissinna og lýðræðissinna, sem vonandi lýkur með sigri lýðræðissinna. Verkefnið nú er að tryggja framgang lýðræðisins og búa því traustan og framsækinn lagalegan ramma. En minnumst þess að ekkert kerfi er eilíft. Til að lýðræðið lifi þarf stöðugt að næra það og gæða það lífi. Vandinn mun síðan í framtíðinni sem hingað til, felast í því að varðveita og verja lýðræðið, jafnvel fyrir yfirlýstum vinum þess.