Ávarp við verðlaunaafhendingu Siðmenntar
Guðsótti og góðir siðir, segja menn. Óttinn við Guð er upphaf viskunnar. Það kenndi Gamla Testamentið.
En hvað gerist ef óttinn er tekinn út úr jöfnunni? Ef Guð bregður sér frá? Verður þá allt stjórnlaust einsog í barnaskólabekk, þegar kennarinn fer fram? Eða getur verið að réttlætiskennd, heiðarleiki, samúð og kærleikur séu manninum eiginleg? Höfum við samvisku? Hvaðan kemur hún?
Hvert sem svarið er, þá er ljóst að hvorki Guð né ótti er forsenda góðra siða.
Samviskan er okkur ásköpuð og eiginleg og gott uppeldi ræktar hana og þroskar. Og best þroskumst við í óttaleysi. Og kærleika.
Fjöldi fólks velur að lifa án trúarbragða en fæstir myndu kjósa líf án kærleika. Kærleikur er upphaf viskunnar, ekki ótti. Ótti leiðir til vanlíðunar og vondra verka. Nýja Testamentið tekst á við ótta með allt öðrum hætti en Gamla Testamentið og önnur trúarbrögð hafa óþrjótandi svör til þeirra sem spyrja.
En það eru ekki einungis trúarbrögð sem geyma svörin. Sumir leita í smiðju fornra og nýrra heimspekinga, aðrir snúa sér til náttúrunnar og enn aðrir leita fyrst og fremst innra með sér sjálfum. Trú getur verið tengd trúarbrögðum, en hún getur líka verið þeim alls ótengd.
Í hugum sumra er samviskan okkar eigin Guð, röddin sem er innra með sérhverjum manni. Sú rödd getur verið harður húsbóndi, og kannski ekki eins umburðarlyndur og sá gamli afi, sem stundum er teiknaður sem sá Guð sem býr skýjum ofar. Þessi innri rödd er án afláts og getur krafist meira af okkur en lausnir skriftastólsins. En hún getur líka verið ósanngjörn – lituð af viðhorfum sem eru alls laus við kærleika gagnvart okkur sjálfum og gagnvart öðrum.
Um þetta snýst sennilega innri barátta okkar allflestra. Hvernig högum við lífi okkar í samfélagi fólks, dýra og náttúru? Hvernig látum við gott af okkur leiða og til hvers? Sum okkar velja leiðsögn trúarbragða eða samtaka sem sameinast í trú á æðri máttarvöld, önnur leita í veraldlega siðfræði og til hugsuða sem létu jörðina og hið áþreifanlega nægja í leit að svörum. Þannig er til dæmis um það félag sem stendur fyrir þessari samkomu í dag að það kennir sig við húmanisma og frjálsa hugsun, óháð trúarsetningum.
Hvers vegna geri ég þetta að umtalsefni? Jú, vegna þess að allt frá stofnun – eða í rúma tvo áratugi – hefur Siðmennt vakið athygli á þeirri staðreynd að trúarbrögð njóti vissra forréttinda umfram annars konar lífsskoðunarhópa í íslensku samfélagi, nefnilega í gegnum þann lagabókstaf sem tryggir trúfélögum sóknargjöld og veitir þeim heimildir til embættisverka sem hið opinbera hefur annars með höndum.
Óskir Siðmenntar hafa ekki með neinu móti gengið á rétt annarra til að velja sér trú, trúarbrögð eða trúleysi. Þvert á móti hafa ábendingarnar verið á þá lund að jafna stöðu félaga og þannig einstaklinga sem kjósa sér mismunandi vettvang fyrir mannrækt, tilvistarspurningar og andlega þekkingarleit. Ég nefni þetta hér því að nú er til umsagnar á vefsvæði Innanríkisráðuneytisins frumvarp sem jafnar stöðu lífsskoðunarfélaga og trúfélaga. Í framhaldinu verður frumvarpið lagt fram á Alþingi og er það mín von að þingið taki málið föstum tökum þannig að það megi verða að lögum í vetur eða með komandi vori. Það verður ekki fyrr en þá að ég óska Siðmennt til hamingju með árangurinn en færi ykkur nú þakkir fyrir sanngjarna og málefnalega baráttu í þessum efnum.
Segðu mér hverja þú umgengst og ég skal segja þér hver þú ert, segir gamalt orðtak. Þessi hugsun kom upp í huga minn þegar ég fékk boðsbréf á þennan fund Siðmenntar þar sem greint var frá því hverjir hefðu fengið hin árlegu húmanistaverðlaun félagsins frá upphafi þeirra verðlaunaveitingar. Það voru Samtökin 78, Ragnar Aðalsteinsson, Tatjana Lationvic, Rauði Kross Íslands, Alþjóðahús og Hörður Torfason. Og í boðsbréfinu var sagt frá því að nú væri nýr verðlaunahafi að koma til sögunnar. Sá sem þar var nefndur er að mínu mati vel að viðurkenningu kominn og verður góður vitnisburður um þau gildi sem Siðmennt vill greinilega í hávegum hafa: Hugrekki og þor, seiglu og staðfestu í baráttu fyrir mannréttindum, baráttu sem krefst þess að setja kærleika og visku í öndvegi; baráttu sem aldrei verður háð með óttann að vopni.
Þá sá ég að til stendur einnig að veita Fræðslu og vísindaviðurekningu. Í fyrra hlaut hana Ari Trausti Guðmundsson, sem í mínum huga sameinar það tvennt að berjast fyrir mannréttindum og sækja inn í framtíðarlendur þekkingarinnar.
Ég óska nýjum verðlaunahöfum til hamingju. Og ég óska Siðmennt alls góðs um alla framtíð.
-
Frétt á vef ráðuneytisins: