Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. maí 2012 DómsmálaráðuneytiðÖgmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2010, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2010

Ávarp innanríkisráðherra á fundi um mannréttindamál 30. maí

 

Útlönd, útlendingur, útlenska. Þessi orð hafa yfir sér blæ framandleikans, þetta er heimurinn, sem horfir ólíkt við eftir sjónarhorni. Landakort Evrópubúans hefur Evrópu í miðjunni en á landakorti Asíubúans er Asía fyrir miðju. Á slíku korti kann hugtakið Austurlönd fjær, eða eins og ensku mælandi menn segja, löndin langt í austri „far east“, að horfa undarlega við, því alltaf er eitthvað austan við austrið og norðan við norðið. Enskumælandi fólk vísar líka til svæða hinum megin á hnettinum sem löndin undir niðri, „down under“ en það getur verið orðalag sem erfitt er að skilja ef horft er á jörðina á ferðalagi um sólkerfið, hvað snýr upp og hvað snýr niður?

„Ég er ekki Aþenumaður eða Grikki. Ég er borgari heimsins,“ sagði Sókrates – citizen of the world. Í heiminum í dag er fjöldi fólks sem neitar að kenna sig við eitt ríki, ein manngerð landamæri, heldur kennir sig við heiminn, því hann sé samfélagið. En á sama tíma er fólk sem líður fyrir það að vera ríkisfangslaust. Réttindin, sem ríkisfanginu fylgja í heimsskipulaginu, eru réttindi hinnar frjálsu manneskju – að eiga land, eiga samastað, en geta líka farið yfir landamæri og það sem meira er – að geta snúið aftur heim.

Því heimsskipulagið byggir á landamærum og innan landamæranna eru ríki og innan ríkjanna fólk. Það hvar á plánetunni barn fæðist hefur úrslitaáhrif á allt líf þess. Hvort það lifir fram yfir fimm ára aldur eða ekki, hvort það lærir að lesa og hvort það sofnar svangt eða satt.

Ég er kannski heldur upphafinn í byrjun þessa fundar, en ég held að umræðuna um málefni útlendinga þurfi alltaf að nálgast út frá hinu víða sjónarhorni; helst af kögunarhóli þar sem við sjáum til allra átta. Hver er staða lítillar eyju eins og Íslands í þessu samhengi?

Þetta er ekki einföld umræða, því hún setur okkur mörg í siðferðisvanda – við viljum byggja betri heim fyrir alla, en samt um leið halda í okkar, standa vörð um okkar samfélag, okkar lífsgæði og okkar velferð. Við viljum vera hjartgóð og raunsæ í senn. Þetta er vandrataður vegur og sennilega tekst okkur aldrei að rata hann þannig að  óaðfinnanlegt sé. En við verðum að reyna.

Þegar núgildandi útlendingalög voru sett af Alþingi árið 2002 er langt í frá að ríkt hafi um þau einhugur. Frumvarpið var samþykkt með 31 einu atkvæði, gegn 19 atkvæðum stjórnarandstöðu. Umsagnir voru margar neikvæðar og af meirihlutaáliti allsherjarnefndar má lesa að þar var ekki einu sinni fyllileg sannfæring fyrir löggjöfinni. Kosturinn var hins vegar sá að útlendingalögin leystu gamla og úr sér gengna löggjöf af hólmi. Verstu hrakspár hafa ekki reynst réttar, en engu að síður hefur löggjöfin ýmsa ágalla. Sumir þeirra hafa verið lagfærðir, aðrir ekki.

Nú hefur landslagið breyst, reynsla er komin á lögin – kosti þeirra og galla – og þá er tímabært að endurskoða þau í heild sinni, ekki aðeins að stoppa og staga, heldur að opna á möguleikann á nýrri heildarlöggjöf. Það var gert með skipun starfshóps innanríkisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis en hópurinn hefur unnið hörðum höndum frá því sl. sumar, í nánu samstarfi við þá sem vel til málaflokksins þekkja. Halla Gunnarsdóttir, ráðgjafi í ráðherra í innanríkisráðuneytinu, stýrir þessari vinnu.

Útlendingamál eru ekki málaflokkur eins ráðuneytis – hann snertir þau mörg, en helst innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið. Milli þessara ráðuneyta hefur tekist gott samstarf og ég leyfi mér að segja frá því að við höfum átt um þessi mál góð og vonandi mikilvæg samtöl. Við erum sammála um mikilvægi þess að hafa það jafnan í huga að hugsanlega þurfi að breyta núverandi fyrirkomulagi, núverandi stjórnsýslu, þótt markmiðið sé ekki að breyta stjórnsýslunni, fremur en að markmiðið sé að breyta ekki stjórnsýslunni. Engin stjórnsýsla er óaðfinnanleg, ekkert kerfi svo gott að ekki sé hægt að bæta.

Það er mín skoðun að öll stjórnsýsla eigi alltaf að vera til endurskoðunar.Stundum er sagt að tímarinr breytist og mennirnir með. Auðvitað eru það mennirnir – við sem eigum að breyta tímunum! Í slíku umbreytingarstarfi þar sem málefnið að vera í forgrunni, ekki persónur og leikendur, heldur hagsmunir þeirra sem löggjöfin hefur úrslitaáhrif á, í þessu tilviki útlendingar utan EES sem hingað vilja flytja.

Lögin fjalla nefnilega um það, hverjir mega flytja hingað og hverjir ekki og hvaða skilyrði fólk þurfi að uppfylla til að geta sest hér að.

Á sínum tíma var það stefna sænskra hægri manna að hafa ætti landamæri sem opnust – hver sem er mætti koma og leita sér tækifæra innan landsins. Þá var spurt: Hvað með velferðarkerfið? Rís það undir miklum fjölda þurfandi aðkomufólks? Svarið var: Því er engin hætta búin, við seljum bara aðgang að því.

Þarna liggja áskoranirnar. Hvaða áhrif hefur frekari opnun á íslenskt samfélag og hvaða áhrif hefur hún á íslenskt velferðarkerfi? Þarna tel ég að heillavænlegra sé að stíga skref en taka ekki  heljarstökk, en á sama tíma má óttinn við skrefin ekki gera það að verkum að við stöndum í stað.
Í tíð minni sem innanríkisráðherra, hef ég orðið vitni að einstaklingsmálum sem sýna fram á ágalla í löggjöfinni. Ef lagabókstafurinn er þannig að ósanngirnin blasir við þeim sem fylgjast með framkvæmdinni, þá þarf að lagfæra lagabókstafinn. Miðað við þá fundi sem ég hef átt með starfsnefndinni þá þykir mér ljóst að þessi endurskoðun mun vera mjög til góðs og með mannúðarsjónarmið að leiðarljósi. Það er ekki þar með sagt að niðurstaðan verði endanleg og eilíf, þvert á móti, löggjöf þarf stöðugt að betrumbæta, sem áður segir, sérstaklega löggjöf sem hefur afgerandi áhrif á líf fólks.

Þessi fundur er ekki hugsaður sem kynningarfundur á niðurstöðum ráðuneyta, heldur einmitt sem samráðsfundur, þar sem tækifæri er til að hafa áhrif á niðurstöðurnar.

Ég vona að umræðurnar verði uppbyggilegar og gagnrýnar. Þannig að við getum tekið skrefið fram á við.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta