Klámvæðing - Ávarp Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á ráðstefnu um samfélagsleg áhrif kláms í Háskóla Íslands 16. október
Ágæta samkoma.
I would like to begin by welcoming our distinguished key-note speaker, Dr. Gail Dines, who has travelled from Boston to be with us today. Dines has studied the porn industry extensively and, as an academic and activist, emphasized the importance of talking about porn and pornification. Her latest book, Pornland – How Porn has Hijacked our Sexuality, has been translated into 5 different languages and generated a fruitful debate in various countries. It is my hope that Dines's lecture here today will provide a ground for a constructive and responsible dialogue on porn and pornification in Iceland. Now, let me switch to Icelandic.
Fyrir tveimur árum síðan, nánast upp á dag, komu saman um fjörtíu manns í litlum sal í gamla dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu í Skuggasundi. Þarna voru fulltrúar frá ráðuneytum, lögreglu, Stígamótum, neyðarmóttöku vegna nauðgana, ríkissaksóknara, dómstólum, stofnunum, mannréttindasamtökum, kvennahreyfingunni, fagfélögum, þingflokkum og fræðasamfélagi. Markmiðið var skýrt: Að ræða meðferð nauðgunarmála í réttarvörslukerfinu.
Til fundarins var ekki boðað upp úr þurru. Öllum sem sjá vildu var ljóst að einhvers staðar var pottur brotinn. Í fyrsta lagi þá var og er enn ljóst að kynferðisofbeldi þrífst á Íslandi í ríkum mæli, svo ríkum að hætt er við því að fólk láti hugfallast, loki augunum og láti sem vandinn sé ekki til. En afneitun er ábyrgðarlaus því ekki vinnur hún bug á vandanum, þvert á móti þá viðheldur hún ofbeldinu og eykur á sársauka þeirra sem fyrir því verða. Í öðru lagi mátti ætla – og má enn ætla – að úrræði réttarkerfisins nái aðeins utan um brot af þeim kynferðisbrotamálum sem upp koma.
Á þessum tíma varð vart við þær raddir sem töldu að umræðan um þessi málefni gæti verið varasöm og jafnvel teflt sjálfstæði stofnana réttarkerfisins í tvísýnu. En þegar betur var að gáð var ljóst að vilji allra sem að umræðunni komu var aðeins að varpa ljósi á meðferð kynferðisbrota og hvort og þá með hvaða hætti mætti bæta hana. Með því að hlusta hvert á annað komumst við hjá því að lenda í skotgröfum og gátum þess í stað átt uppbyggilegt og gagnrýnið samtal.
Í framhaldi af áðurnefndum fundi var efnt til smærri funda þar sem málin voru rædd í þaula. Á þessum fundum komu fram fjölmargar ábendingar sem við höfum eftir fremsta megni reynt að framfylgja. Þar má nefna ákall um frekari fræðslu í málaflokknum og um fræðilegar rannsóknir á meðferð nauðgunarmála.
Eitt af því sem ítrekað kom fram á þessum fundum voru áhyggjur af aukinni klámnotkun og klámvæðingu og mögulegum áhrifum þess á kynferðisbrot. Þannig telja fagaðilar sem starfa í málaflokknum – við rannsóknir brota, með sakborningum eða brotaþolum – að áhrifa kláms gæti í kynferðislegu ofbeldi.
Þessar ábendingar tel ég að við verðum að taka alvarlega.
Með því er ekki verið að segja að allir sem horfa á klám breytist sjálfkrafa í kynferðisbrotamenn, en það er jafnframt erfitt að ætla að halda því fram að fólk – eða eins og raunin er oft barnungir drengir – horfi á klám og verði ekki fyrir neinum áhrifum af því. Þá þurfum við að spyrja: Hvaða áhrif hefur þetta efni sem hefur snaraukist á síðustu árum með tilkomu internetsins? Hvaða skilaboð sendir þetta efni um manneskjur og samskipti kynjanna? Hvert á hlutverk stjórnvalda að vera þegar kemur að klámi? Hvernig nær löggjöfin utan um klám og hvernig ætti hún að vera?
Allt eru þetta spurningar sem við veltum upp hér í dag.
Klám er ekki viðfangsefni réttarkerfisins eins. Um klám þarf að fjalla út frá samfélagslegu, heilbrigðislegu og félagslegu sjónarhorni og þess vegna standa þrjú ráðuneyti að þessari ráðstefnu, ásamt lagadeild Háskóla Íslands, en innanríkisráðuneytið og lagadeild hafa starfað saman á þessu ári að því að efla umræðu og faglega þekkingu um kynferðisbrot.
Það er von mín að þessi ráðstefna megi verða til þess að opna á uppbyggilega og gagnlega umræðu um klám og klámvæðingu á Íslandi, umræðu sem ekki einkennist af afneitun gagnvart þeim veruleika sem er til umfjöllunar.
Að þessu sögðu segi ég ráðstefnuna setta.
Takk fyrir.