Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. nóvember 2012 DómsmálaráðuneytiðÖgmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2010, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2010

Ávarp Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á ráðstefnu 8. nóvember 2012 í tilefni af gildistöku barnalagabreytinga

Ágæta samkoma, dear guests,

I welcome you to this conference, where we will discuss various topics regarding children's issues, on the occasion of the revision of the Icelandic Children's Act. The topics include the child's right to access, custody disputes and mediation. These matters are truly important since they involve personal relationships between children and their parents. Children are in a sensitive position – they are dependent on their parents, who – along with society at large – bear responsibility for children's welfare. I emphasise the role of society, which is underlined in the Convention on the Rights of the Child.

Particularly I would like to express my gratitude to our foreign guests, who have come from afar to be with us here today and share their knowledge and experience in the field. It is of immense value for us to learn about best practises from other countries and share our ideas and experiences.

Now, let me switch to Icelandic.

Breytingarnar á barnalögum sem koma til framkvæmda á næsta ári og verða ræddar á ráðstefnunni í dag eiga sér alllangan aðdraganda eða allt til ársins 2009 þegar endurskoðun laganna hófst. 

Vorið 2011 var lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingar á barnalögum en hlaut ekki afgreiðslu. Það var lagt fyrir Alþingi á ný á haustþingi 140. löggjafarþings og var samþykkt um miðjan júní 2012.

Lögin hafa að geyma margvíslegar breytingar sem eru í flestum atriðum mjög til hagsbóta fyrir þá sem lögin taka til.

Ýmis ákvæði mætti tína til en hér verður aðeins nokkurra getið. Fyrst ber að nefna nýjan upphafskafla barnalaga þar sem lögfest eru grundvallarsjónarmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins; meðal annars reglan um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Þetta felur í sér að aðrir hagsmunir, hvort sem það eru hagsmunir foreldra eða annarra verða að víkja, fari þeir ekki saman við hagsmuni barnsins. Af þessu þarf að taka mið við alla stefnumótun og einnig við meðferð sérhvers máls. 

Þá er líka rétt að nefna ný ákvæði laganna um ráðgjöf annars vegar og sáttameðferð hins vegar. Í lögunum er mælt fyrir um að sýslumenn geti boðið foreldrum, sem deila ráðgjöf sérfræðings með það að markmiði að leiðbeina þeim og að ná sátt, með tilliti til þess sem barni er fyrir bestu. Gengið er út frá því að sérfræðingarnir sem veita ráðgjöf á embættum sýslumanna geti unnið náið með sýslumönnum sem leiðir af sér að embættin verða þverfagleg og er það nýmæli. Með þessu móti er meðal annars komið til móts við óskir foreldra um aukna ráðgjöf.

Að því er sáttameðferðina varðar þá er það nýmæli að foreldrum verður skylt að leita sátta Markmiðið með skyldubundinni sáttameðferð er að hjálpa foreldrunum að finna lausn í málum er varða ágreining um málefni barns. Foreldrum verður því skylt að mæta á sáttafund í eigin persónu og leggja sitt af mörkum við að reyna að finna lausn. Aðeins ef útséð þykir að það takist ekki verður unnt að óska úrskurðar eða dóms um umgengni eða forsjá. Áherslan sem lögð er á þetta á rætur að rekja til þess að það er viðurkennt að samkomulag foreldra um málefni barns sé barni almennt fyrir bestu. Þess vegna ber að reyna til þrautar að leysa mál með sátt og forðast að fara með þessi erfiðu mál í réttarsal ef nokkur möguleiki er.

Meðal þess sem nokkuð hefur verið deilt um í barnalögunum eru ákvæði sem heimila dómara að dæma sameiginlega forsjá og ákvæði um að unnt sé að knýja umgengni fram með aðför. Þessi ákvæði voru ekki í frumvarpinu sem ég lagði fyrir Alþingi heldur breyttist frumvarpið í meðförum þingsins. Núna verður brýnasta verkefnið að reyna að tryggja að hagsmunir barnsins og það sem því er fyrir bestu verði ávallt í forgrunni þegar til álita þykir koma að beita þessum ákvæðum því – eins og nefnt var hér fyrr – hagsmunir barnsins verða að ganga fyrir hagsmunum annarra. Hér mun því reyna á dómara landsins og á þeim hvílir mikil ábyrgð. Í þessu sambandi er mikilvægt að við lítum til – og lærum af – reynslu annarra þjóða sem tekið hafa upp heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá. En bæði í Svíþjóð og í Danmörku þurfti að árétta með lagabreytingu, eftir upptöku dómaraheimildar, að hagsmunir barns í sérhverju máli væri sá mælikvarði sem ávallt bæri að leggja til grundvallar.

Alþingi gerði einnig aðra grundvallarbreytingu á frumvarpinu til barnalaga. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að fella brott úr lögum heimild til að koma á umgengni með aðfarargerð, þ.e. að sækja barn á heimili sitt með lögregluvaldi til að koma á umgengni. Barnaheill, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Mannréttindaskrifstofa Íslands höfðu lagt til að ákvæðið yrði afnumið, auk þess sem barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafði lýst yfir áhyggjum sínum af framkvæmd þessa. Á þetta taldi ég rétt að hlusta og er enda sannfæring mín sú að það geti aldrei verið barni fyrir bestu að sækja það með lögregluvaldi, nema það búi við ofbeldi eða vanrækslu og engar aðrar leiðir séu færar. Alþingi vildi hins vegar viðhalda þessu ákvæði. Engu að síður þurfa framkvæmdaaðilar að taka mið af þessum varnaðarorðum og þá ekki síst þeim áhyggjum sem barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna setti fram.

Eins og ítrekað kom fram við meðferð frumvarpsins á Alþingi er ljóst að ekki verður unnt að hrinda ákvæðum laganna í framkvæmd nema fyrir liggi nægileg fjárveiting. Af hálfu ráðuneytisins hefur ávallt verið við það miðað að leggja þyrfti aukið fjármagn til sýslumanna vegna verkefnisins. Til lítils væri að fara af stað ef fjármagn fylgdi ekki - en fyrsta skrefið væri auðvitað að samþykkja lögin.

Nú er orðið ljóst að tryggð hefur verið 30 milljón króna fjárveiting til innleiðingar laganna. Sú fjárhæð dugar ekki til að unnt verði að koma lögunum að fullu til framkvæmda þann 1. janúar nk. eins og til stóð. Það er afar brýnt að vandað verði til innleiðingar laganna – ekki síst ákvæðanna um ráðgjöf og sáttameðferð og annarra ákvæða um hlutverk sérfræðinga – svo ákvæðin geti þjónað tilgangi sínum og orðið sú réttarbót sem að er stefnt. Til þess að tryggja að svo verði hefur verið ákveðið að leggja til að gildistöku laganna verði frestað um sinn eða til 1. júlí 2013. Þetta er ekki óskastaða, en þykir óhjákvæmilegt í ljósi aðstæðna og er von mín að með þessu móti verði innleiðingin vandaðri, sem aftur leiðir til betri framkvæmdar.

Ráðstefnan í dag markar ákveðið upphaf af kynningu laganna og innleiðingu þeirra. Þau sjónarmið sem hér munu koma fram munu án efa verða gott veganesti fyrir þá vinnu sem framundan er við undirbúning að gildistöku og framkvæmd laganna og það er ánægjulegt að sjá hve margir eru komnir til þess að hlýða á þá fyrirlesara sem hér eru og taka þátt í umræðum.

Markmiðið er að geta sem best staðið vörð um hagsmuni og velferð barna og gef ég mér að umræðan sem fram fer hér í dag taki mið af því. Við höfum einfaldlega ekki leyfi til annars. Að því sögðu segi ég þessa ráðstefnu setta.

                                          Takk fyrir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta