Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. febrúar 2017 DómsmálaráðuneytiðSigríður Á. Andersen 2016-2017

Ávarp dómsmálaráðherra á 1-1-2 deginum

Góðir gestir,

ég býð ykkur velkomin hingað í Hörpu á einn-einn-tveir daginn sem nú er haldinn í þrettánda sinn. Margt er að sjá hér í dag, bæði tæki og neyðarbúnað, sem kemur að gagni þegar bregðast þarf við á neyðarstundu. Auk þess má nefna varðskipin okkar, björgunarskip Landsbjargar og þyrlurnar en allt eru þetta tól sem notuð eru við krefjandi og erfiðar aðstæður björgunar.

Þegar hætta steðjar að og hringja þarf á hjálp skiptir sköpum að til staðar sé eitt og einfalt símanúmer sem auðvelt er að muna á ögurstundu og þar höfum við 112, sem gildir líka fyrir alla Evrópu. Fyrr á tímum voru það hins vegar 146 símanúmer sem þurfti að muna ef kalla þurfti á hjálp í neyð, eftir því hvers eðlis hún var. Við sjáum í hendi okkar að það gengi illa að útskýra það fyrir þeim fjölda ferðamanna sem hingað sækja orðið ár hvert.

Samband okkar við Neyðarlínuna 112 er í raun líflína. Þar hefur fólk svarað af yfirvegun og hjálpsemi í rúma tvo áratugi og kallað á augabragði út sérhæft lið í sérhvert verkefni, leiðbeint um fyrstu viðbrögð og haldið sambandi við þann sem hringir þar til hjálpin berst.

Það er varla það mannsbarn sem ekki þekkir neyðarnúmerið 112 hér á landi eins og kom glögglega í ljós í nýrri könnun um ímynd Neyðarlínunnar 2016 þar sem yfir 97% svarenda vissu að til að leita aðstoðar lögreglu, slökkviliðs, sjúkraflutninga eða annarra viðbragðsaðila þyrfti að hringja í 112. Helst það nær óbreytt milli ára en tæplega þúsund manns eru spurðir á hverjum tíma. Þess má einnig geta að yfir 93% voru jákvæðir gagnvart þjónustunni og yfir 83% voru ánægðir með hvernig leyst var úr erindi þeirra.

Þetta er vægast sagt árángur til eftirbreytni og óska ég ykkur öllum til hamingju með vel unnin störf í þágu þjóðar. Það er full ástæða til að minna líka á það sérstaklega hve umfangsmikið starf sjálfboðaliðar inna af hendi á þessu sviði. Þeir eru boðnir og búnir að fara til leitar- og björgunarstarfa þegar kallið berst og eiga mikla og góða samvinnu við alla þá sem sinna leit og björgun, svo sem Landhelgisgæslu og lögreglu ásamt sérfræðingum heilbrigðiskerfisins þegar kemur að því að veita slösuðum aðstoð. Okkur hefur því hér á Íslandi tekist að byggja upp öflugt net launaðra sem ólaunaðra sérfræðinga og reynslumikilla einstaklinga sem hafa ítrekað sannað fyrir okkur hvers þeir eru megnugir.

Í lokin er vert að leggja áherslu á tækniþróunina sem orðið hefur á símkerfi okkar síðustu árin en samhliða því hafa tæknimálin verið í sífelldri þróun hjá Neyðarlínunni og orðið hafa stórstíga framfarir í öllu fjarskiptasambandi um landið; við náum nú lengra og með meira öryggi. Á öllum, sviðum leitar, björgunar og neyðarviðbragða gerum við okkar besta til að nýta ávalt fullkomnustu tækni og búnað.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta