Grein dómsmálaráðherra í hátíðarriti Orators í febrúar
Ástæðulaus aðkoma ríkisvaldsins
Í ár er þess minnst að 500 ár eru liðin frá því að Marteinn Lúther hengdi upp 95 greinar gegn aflátssölu rómversk-kaþólsku kirkjunnar á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg í Þýskalandi en atvikið markaði upphaf siðbótar kirkjunnar. Samtíða Marteini fóru einnig konur sem fetuðu ótroðnar slóðir og lögðu sitt að mörkum til siðbótarinnar. Það var því við hæfi að hefja siðbótarafmælið hér á landi í lok janúar með því að beina kastljósinu að þeirra þætti í sögunni. Ein kvennanna vildi til að mynda fá að predika í kirkju sinni en þurfti að sætta sig við að koma boðskap sínum á framfæri í sálmi sem hún orti rétt eftir árið 1520. Á Íslandi var kona svo ekki vígð til prests fyrr en árið 1974 sem er til marks um að góðir hlutir gerist oft hægt.
Lög um um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta voru sett árið 1911 en konum fjölgaði þó afar hægt í háskólanámi. Það var ekki fyrr en um hálfri öld síðar að konur hófu að setjast í lagadeild Háskóla Íslands í einhverjum mæli og ekki eru mörg ár síðan konur urðu um helmingur laganema. Það er lítill ágreiningur um að rekstur kvenna á heimilum og uppeldi barna eigi stóran þátt í því að þær komu hægar út á það sem kallað hefur verið vinnumarkaður. Já, hér er heimilishaldið nefnt rekstur því þótt heimili séu ekki skráð með kennitölu í fyrirtækjaskrá eru þau merkustu félögin í hverju þjóðfélagi og rekstur þeirra skiptir verulegu máli. En um leið og rætt er um þessa staðreynd sem dragbít fyrir konur og hlutskipti þeirra sem fórnarlambs eru menn þó sammála um að dýrmætustu stundirnar í lífi fólks séu almennt með börnum sínum. Þeir sem fylgst hafa með hjalandi hvítvoðungi verða að kátum krakka mótmæla því varla. Þó er í þessu samhengi sjaldnast minnst á fjarvistir feðra frá börnum sínum á meðan þeir sinna erfiðisvinnu í námum, smiðjum eða á hafi úti.
Það er óhætt að fullyrða að hvergi halli lengur á konur í íslenskum lögum. Konur mæta hvergi formlegum hindrunum, þær geta bæði samið sálma og predikað yfir söfnuðum ásamt öllu hinu sem þeim kemur til hugar og hrinda í framkvæmd. Það kann að vera ofmælt en gæti ekki verið að aldrei áður í veraldarsögunni hafi verið uppi hópur með bjartari framtíð en ungar konur á Íslandi, nú í upphafi nýs árþúsunds? Þeim virðast allir vegir færir með sína góðu menntun, almenna heilsuhreysti og ágætu atvinnuhorfur í þjóðfélagi sem á flesta mælikvarða telst eitt af þeim bestu. Auðvitað vitum við ekki hvað verður úr þeim hagstæðu aðstæðum sem nú eru uppi en það er full ástæða til bjartsýni.
Engu að síður mætti ætla af umræðunni að langt sé í land í „jafnréttismálum“. Hvernig stendur á því? Enginn vafi leikur á því að umræðan um hin alræmda launamun kynjanna á þar drýgstan þátt. Reglulega eru fluttar fréttir af því að með sömu hægu þróuninni muni laun karla og kvenna ekki verða jöfn fyrr en eftir 70 eða jafnvel 150 ár. Það er rétt að karlar afla almenntmeiri tekna en það skýrist af meiri vinnu þeirra utan heimilis. Vafalaust er ástæðan meðal annars sú að konur eiga enn fleiri dýrmætar stundir með börnum sínum en karlar. Hvernig fólk kýs að haga þeim málum hverju sinni er eitthvað sem foreldrar ákveða innan fjölskyldunnar og sú ákvörðun á skilið fulla virðingu.
Í þeim launakönnunum sem gerðar eru til að kanna í hverju launamunur kynjanna felst er jafnan reynt að leiðrétta fyrir ýmsum þáttum á borð við vinnutíma, mannaforráðum, menntun og reynslu. Þegar leiðrétt er fyrir þessum mælanlegu þáttum stendur hins vegar enn eftir um 5% tölfræðilega marktækur munur á kynjunum, körlum í vil. En þessi marktæki munur finnst aðeins í takmörkuðu umhverfi launalíkansins. Utan þess eru margir huglægir og ómælanlegir þættir sem erfitt er að fella inn í líkön af þessu tagi. Tveir starfsmenn geta litið eins út á pappír, með sömu reynslu og menntun, en annar þeirra hefur minni áhuga á starfinu, hefur ekki frumkvæði að nýjum verkefnum og sinnir viðskiptavinum af hálfum hug. Svo getur annar starfsmannanna alltaf verið til í að vinna yfirvinnu á meðan hinn neitar slíku. Þetta veit aðeins vinnuveitandinn og launar í samræmi við það. Um þessa þætti hafa líkönin sem mæla launamuninn enga hugmynd. Við bætist að á vinnumarkaði er enn talsverð kynjaskipting, þ.e. svonefnd kvennastörf og karlastörf, sem þvælist fyrir raunhæfum samanburði á launum kynjanna.
Það má því segja að þótt kannanir mæli enn um 5% „kynbundinn“ launamun þá er hann of lítill til að hægt sé að fullyrða nokkuð um kynbundið misrétti á launamarkaði. Til þess eru kannanirnar of takmarkaðar ásamt því að mannleg samskipti verða aldrei felld að fullu í töflureikni. Þær munu því seint geta metið hina huglægu þætti sem skipta svo miklu máli í sambandi vinnuveitanda og starfsmanns. Í skýrslunni Launamunur karla og kvenna sem velferðarráðuneytið lét vinna árið 2015 segir: „Ómálefnalegan, óskýrðan launamun má skilgreina sem launamun sem eingöngu er vegna kynferðis. Um er að ræða þann mun sem eftir stendur þegar tillit hefur verið tekið til allra þeirra þátta sem áhrif hafa á launamyndun. Í reynd er í besta falli hægt að nálgast þennan mun. Launamyndun byggist oft á þáttum sem tölfræðin veitir ekki svar við. Við getum því ekki með vissu ályktað að sá óskýrði launamunur sem hér hefur verið metinn sé eingöngu vegna kynferðis.“ Það leikur ekki nokkur vafi á því að þrýstingur á opinberar aðgerðir í jafnréttismálum, til dæmis kynjakvóta og jafnlaunavottanir, myndi minnka ef þessu væru gerð betri skil í opinberri umræðu.
Greinin birtist í Hátíðarriti Orators í febrúar 2017.