Ávarp við kynningu í febrúar á skýrslu um aðlögun flóttafólks og innflytjenda
Fyrir hönd ráðherra vil ég byrja á að þakka háttvirtum rektor og þeim sérfræðingum sem komu að gerð skýrslunnar um gæði aðlögunar flóttafólks og innflytjenda að íslensku samfélagi sem kynnt var hér í dag. Niðurstöðurnar, vísbendingarnar og framlagðar tillögur eru um margt áhugaverðar og gott innlegg inn í áframhaldandi vinnu á þessu sviði á vettvangi dómsmálaráðuneytisins.
Svo ég rétt minnist á forsögu þess að við stöndum hér í dag þá samþykkti ríkisstjórn Íslands í júní 2016 að ráðast í rannsókn á greiningu og mati á gæðum aðlögunar innflytjenda og flóttfólks að íslensku samfélagi. Meginmarkmiðin voru mörkuð í kjölfarð þar sem meta þurfti þörf á umbótum til að tryggja farsæla móttöku innflytjenda hér á landi og hvort tryggja þyrfti samhentari og skilvirkari stjórnsýslu og betri þjónustu í því sambandi. Þá þyrfti að greina áskoranir sem stofnanir og þjónustukerfi stæðu frammi fyrir vegna aukins fjölda innflytjenda. Kannað yrði einnig hvernig staðið væri að rannsókn og öflun upplýsinga um hvernig innflytjendum reiddi af í íslensku samfélagi.
Vert er að vekja athygli fundarmanna á því að skýrslan kveður á um að almenn jákvæðni sé í garð Útlendingastofnunar og Lögreglunnar af hálfu innflytjenda og flóttafólks. Er það til marks um hið góða starf sem þar er unnið en mikið álag hefur verið að undanförnu hjá Útlendingastofnun vegna fordæmalausrar fjölgunar hælisumsókna sem starfsmenn hafa brugðist við með útsjónarsemi, hæfni og skipulagi.
Þá er einnig ástæða til að kanna hvers vegna svarhlutfall í skoðunarkönnun á meðal flóttafólks sem fengið hefur dvalarleyfi á Íslandi síðustu 12 ár hafi verið jafn lágt og raun ber vitni og erfiðleikum háð að ná ná tali að fólkinu varðandi upplifun þess.
Það er vilji ríkisstjórnarinnar og dómsmálaráðherra að innflytjendum verði auðveldað að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og að virkni nýrra útlendingalaga sé tyggð gagnvart viðeigandi stofnunum og þjónustu. Mannúðarsjónarmið skulu jafnframt höfð að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd og afgreiðslutími styttur eins og hægt er án þess að það bitni á vandaðri málsmeðferð. Dómsmalaráðherra hefur þegar stigið skref til að tryggja markmið nýrrar ríkisstjórnar og stemma stigu við tilhæfulausum umsóknum um hæli frá öruggum ríkjum. Til að Íslendingar geti aðstoðað þá sem eru í neyð verður að tryggja að ekki sé gengið á þá velvild án ástæðu. Á síðasta ári sóttu alls 1.132 einstaklingar um hæli hér á landi sem er þreföldun frá árinu áður en langflestir þeirra komu frá öruggum ríkjum - þar sem engin neyð ríkir.
Niðurstöður skýrslunnar munu koma að gagni við áframhaldandi vinnu á þessu sviði ásamt frummatsskýrslu varðandi umbótatækifæri í tengslum við stofnanauppbyggingu og verkaskiptingu á sviði útlendingamála sem unnin var fyrir innanríkisráðuneytið í ágúst 2016.
Fyrir hönd dómsmálaráðherra Sigríðar Á. Andersen vil ég enn og aftur þakka Háskóla Íslands fyrir vandaða rannsókn og þarft innlegg í málaflokk sem er í stöðugri þróun. Sigríður sendir kærar kveðjur en hún er stödd í Færeyjum á fundi Vestnorræna ráðsins – en þess má til gamans geta í ljósi efni fundarins hér í dag að fyrir um einu og hálfu ári tók Lögþing Færeyinga ákvörðun um að taka yfir stjórn útlendingamála frá Dönum. Þeir munu því að öllum líkindum standa frammi fyrir sambærilegum áskorunum á þessu sviði og líta til reynslu okkar hér á Íslandi. Skýrslan sem kynnt var hér í dag getur þannig nýst fleirum en okkur.
Það er fyrirséð að við þurfum að halda vel utan um innflytjenda- og útlendingamálin á næstu árum og vanda til verka. Eins og við var að búast kallar þessi skýrsla á frekari vinnu í dómsmálaráðuneyti jafnt sem velferðarráðuneyti og fleirum sem að þessum málaflokki koma og við hlökkum til að taka virkan þátt í því samstarfi.
Aðstoðarmaður ráðherra, Laufey Rún Ketilsdóttir, flutti fyrir hönd ráðherra.