Ræða dómsmálaráðherra á Alþingi við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra flutti ræðu við umræðu á Alþingi 13. september um stefnuræðu forsætisráðherra. Fer ræða hennar hér á eftir.
Virðulegur forseti. Góðir áheyrendur. Hér áðan vék hæstv. forsætisráðherra að þeirri hagsæld sem við nú búum við, hagsæld sem er ekki sjálfgefin og sem þarf að nálgast af yfirvegun og skynsemi. Það ætlar ríkisstjórnin að gera með uppbyggingu og viðhaldi nauðsynlegra innviða en um leið með því að gera ráðstafanir til þess að fé skattgreiðenda til framtíðar verði einmitt notað í innviði fremur en í vaxtagreiðslur til kröfuhafa íslenska ríkisins vegna skuldasöfnunar.
Hagsæld er ekki bara mæld í krónum og aurum. Það eru til að mynda mikil verðmæti fyrir hvert samfélag að reglur séu skýrar, gangi jafnt yfir alla. Þeir sem eru ósáttir geti fengið áheyrn og eftir atvikum bót sinna mála. Mikilvægur hluti af slíku réttarríki er til að mynda gott aðgengi almennings að stjórnsýslunni, dómstólum og Alþingi. Þessar þrjár grunnstoðir réttarríkis okkar eru ólíkar, hver með sitt hlutverk. Í samræmi við kenningar 18. aldar lögfræðingsins Montesquieu er þessum þremur stoðum haldið aðskildum í þágu valddreifingar og aðhalds með hverri stofnun fyrir sig. Þótt þessar grunnstoðir hvíli á gömlum og góðum grunni þá er hvorki hér á landi né annars staðar málum þannig háttað að ekki þurfi stundum að gera bragarbót á. Stofnun nýs millidómstigs hér á landi með Landsrétti sem tekur til starfa 1. janúar næstkomandi er dæmi um hvernig ein þessara stoða tekur breytingum í þágu grundvallarréttinda þeirra sem þurfa að sæta málsmeðferð fyrir dómi.
Stjórnsýslan hefur líka tekið stórstígum framförum undanfarna áratugi, t.d. með stjórnsýslulögum sem settu vissulega á pappír þær reglur sem áður hafði verið unnið eftir, en einnig aðrar nýjar, flestar til bóta. Við sem höfum haft tækifæri til að sitja hér í þessum sal þekkjum svo hvernig Alþingi hefur þróast. Sitt sýnist reyndar hverjum um þær breytingar. En þingsköpum hefur verið breytt með það að markmiði að bæta störf þingsins. Það á sér þannig stað sífelld þróun á helstu stoðum réttarríkisins. Allar breytingar sem átt hafa sér stað taka hins vegar mið af hinum gamla og góða grunni sem var lagður með þrískiptingu ríkisvaldsins. Sumar breytingarnar hafa meira að segja verið í þeim tilgangi að skerpa einmitt á þessari skiptingu.
Virðulegur forseti. Undanfarið hefur stjórnsýslan verið nokkuð til umfjöllunar vegna mála sem alla jafna vekja ekki endilega upp margar lögfræðilegar spurningar en því mun meiri tilfinningar. Í lögum er ævafornt ákvæði um heimild til þess að veita dæmdum sakamönnum sem hafa afplánað sinn dóm uppreist æru og að uppfylltum skilyrðum góða hegðun. Með uppreist æru öðlast dæmdir menn óflekkað mannorð, en óflekkað mannorð er skilyrði fyrir því að geta gegnt margháttuðum trúnaðarstörfum fyrir hið opinbera og jafnvel stundað tiltekna atvinnu. Uppreist æru felur hins vegar hvorki í sér að brotið hafi ekki verið framið eða það hafi verið léttvægt. Áratugalöng framkvæmd við veitingu uppreistar æru virðist hafa leitt til heldur vélrænnar afgreiðslu á umsóknum um uppreist æru, því miður með vísan til skráðra og óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins. Þarna kann stjórnsýslan að hafa borið löggjafann ofurliði.
Ég léði máls á því opinberlega í júní í tengslum við umfjöllun um eina tiltekna veitingu uppreistar æru að endurskoða lagaákvæðið um uppreist æru. Fyrr um vorið hafði ég hafið endurskoðun á þessari stjórnsýsluframkvæmd allri. Ég veit að forveri minn í starfi taldi mjög mikilvægt að þessi endurskoðun færi fram. Ég mun leggja til við þingið í vetur að horfið verði frá þeirri framkvæmd að veita uppreist æru, en um leið að tryggt verði að dæmdir menn öðlist aftur borgaraleg réttindi sem þeir missa við flekkun mannorðs í samræmi við eðli máls og mannréttindi sem við viljum að öllum séu tryggð.
Ég vil að gefnu tilefni nefna það að dómsmálaráðuneytið hefur viljað veita allar upplýsingar sem því er heimilt að veita um afgreiðslur þessara mála. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók undir sjónarmið ráðuneytisins í nýlegum úrskurði sínum um að slík upplýsingagjöf gæti þurft að sæta takmörkunum er lúta að viðkvæmum persónulegum upplýsingum. Nú þegar hafa gögn verið birt í samræmi við úrskurð nefndarinnar. Ráðuneytið hefur ekki annað í hyggju en að veita allar þær upplýsingar sem dýpkað geta umræðu um þessi mál sem önnur. Ég hef almennt ekki heyrt annað en menn fagni boðuðum lagabreytingum um þessi efni og vænti þess að eiga gott samstarf við þingið um þær þegar þar að kemur.
Góðir áheyrendur. Um aldamótin voru erlendir ríkisborgarar innan við 3% landsmanna, nú eru þeir 9%. Á þetta benti hæstv. fjármálaráðherra áðan í ræðu sinni, talnaglöggur sem hann er. Við þetta má bæta að á hverju ári undanfarin ár hefur um eitt þúsund útlendingum verið veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Íslendingar taka og vilja taka vel á móti útlendingum.
Undir lok síðasta kjörtímabils voru samþykkt ný lög um útlendinga sem samin voru af þverpólitískri nefnd þingmanna, hópi þingmanna úr öllum flokkum. Þau kveða á um málsmeðferð sem er í samræmi við íslenskan stjórnsýslurétt og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði mannréttinda. Þannig fá einstök mál öll sérstaka skoðun, fyrst hjá Útlendingastofnun og svo ef eftir því er leitað hjá kærunefnd útlendingamála. Í einstökum tilvikum fellst kærunefndin jafnvel líka á að endurupptaka eigin úrskurði. Hjá þessum stofnunum starfar fjöldi sérfræðinga á ýmsum sviðum, m.a. í málefnum barna. Nýju lögin voru mikil réttarbót fyrir bæði útlendinga sem hingað leita og stjórnsýsluna sem vissulega þarf skýran lagagrundvöll undir sín störf.
Á Íslandi er að sjálfsögðu ríkur vilji til að hjálpa því fólki sem býr við stríð og ógnarstjórn í sínu landi. Á undanförnum árum höfum við meðal annars farið þá leið að bjóða hópum flóttamanna til landsins. Frá árinu 2015 hafa 109 flóttamenn komið hingað og ríkisstjórnin hefur kynnt áform um móttöku 50 flóttamanna á næsta ári. Við erum að öðlast mikla og dýrmæta reynslu á þessu sviði. Hingað kemur líka fólk af sjálfsdáðum og sækir um hæli. Fjöldi þeirra hefur margfaldast undanfarin ár. Í samræmi við lög og alþjóðlegar skuldbindingar er lagt mat á tilefni þessara umsókna í þeim tilgangi að forgangsraða með hliðsjón af atvikum öllum og raunverulegum möguleikum þessa fólks til að komast úr aðstæðum sem metnar eru hættulegar. Það sem af er þessu ári hefur 92 einstaklingum verið veitt hæli hér á landi, í fyrra 111 og árið þar á undan 82 einstaklingum.
Það var viðbúið þegar við þingmenn samþykktum nýja útlendingalöggjöf að hún þyrfti fljótlega að sæta endurskoðun í ljósi reynslunnar. Lagabálkurinn er efnismikill. Við erum öll að kynnast nýjum úrlausnarefnum sem varða mikilsverð réttindi mjög margra. Stöðug vinna er í dómsmálaráðuneytinu um þetta. Ég hef lýst því við breytingar á útlendingalögum sem fyrirhugaðar eru á komandi þingi að tekið verði vel á móti öllum tillögum þingmanna hvað varðar lagabreytingu og sjónarmið þar að baki. Ég finn að það er mikill áhugi á þessum málaflokki á Alþingi. Ég hef því ákveðið að kalla til samráðsvettvang með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi sem verður til samráðs við dómsmálaráðuneytið í þeirri vinnu sem fram undan er við breytingar á lögum um útlendinga og fylgja þeim lagabálki enn lengra úr hlaði. Þannig verður gætt að öllum sjónarmiðum sem uppi eru hvað varðar þennan málaflokk.
Góðir landsmenn. Þessi tvö mál sem ég hef nefnt verða meðal fjölmargra framfaramála sem ríkisstjórnin leggur áherslu á á þessum þingvetri. Ég hlakka til samstarfsins við þingmenn úr öllum flokkum og samskipta við kjósendur nú sem endranær.