Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. nóvember 2017 DómsmálaráðuneytiðSigríður Á. Andersen 2016-2017

Ávarp dómsmálaraáðherra á aðalfundi Dómarafélags Íslands 24. nóvember

Hér fer á eftir ávarp Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra á aðalfundi Dómarafélags Íslands 24. nóvember sem haldinn var í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík.

Virðulegir dómarar og aðrir gestir.

Þessa dagana reynum við stjórnmálamenn að mynda ríkisstjórn fyrir næstu 4 árin. Það gengur bara ágætlega og tíminn sem það hefur tekið er hvorki langur né óeðlilegur, í ljósi aðstæðna. Fréttir hafa ekki verið miklar af viðræðum formanna flokkanna. Það er helst fjallað um það hver komi til með að stýra forsætisráðuneytinu og hinum og þessum ráðuneytum. Ég veit að þið sem eruð hér eruð sammála mér um það að umræða um svokallað mikilvægi einstakra ráðuneyta er stundum hláleg, þegar tekið er mið af því að nú hlýtur að vera staðfest það sem mönnum hefur mátt vera ljóst síðustu 100 árin að það er auðvitað í ráðuneyti dómsmála sem hlutirnir gerast.  Að öllu gamni slepptu þá hefur þetta ár sem senn er á enda verið afar viðburðarríkt í ráðuneytinu og alltaf kemur betur í ljós hversu undarleg ákvörðun það var árið 2011 að renna saman ráðuneytum dómsmála annars vegar og samgöngu hins vegar. Söguleg hefð fyrir sérstöku ráðuneyti dómsmála er sterk og byggist á efnislegri sérstöðu þeirra stjórnarmálefna sem tilheyrt hafa dómsmálaráðuneytinu, enda er það svo að flest lönd eiga sér sérstakt dómsmálaráðuneyti, til að mynda öll hin Norðurlöndin.

Ég nefni það að árið hafi verið viðburðarríkt í ráðuneytinu. Það þarf ekki að koma á óvart að mætt geti á ráðuneytinu í kjölfar uppkveðinna dóma sem varða mannréttindi og réttarfar. Sérstaklega á þetta við þegar kveðnir eru upp dómar í Strassburg á vettvangi MDE. Mér hefur reyndar þótt undalega einhliða áhugi sá allur. Bæði fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa til að mynda talið dóma MDE sem fallið hafa fyrra hluta ársins í meiðyrðamálum, þar sem dómstólinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið á tjáningarfrelsi manna, til marks um stórkostlega galla á löggjöf eða störfum íslenskra dómstóla, ef ekki hvoru tveggja. Ég hef ítrekað verið krafin svara um aðgerðir í þessum efnum. Ég hef hins vegar ekki ennþá fengið eina fyrirspurn um nýlegan dóm MDE þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið á þeirri friðhelgi einkalífsins sem æra manns er svo sannarlega.  Ég hef heldur ekki ennþá séð nokkurn stjórnmálamann lýsa áhyggjum sínum yfir vinnubrögðum íslenskra dómstóla í því máli sem þar um ræddi. – Af hliðarlínunni hefur mér fundist  áhugavert að fylgjast með þessum viðbrögðum, ekki lögfræðilega augljóslega heldur frekar félagsfræðilega.

Mál er lúta að friðhelgi einkalífsins, eins og meiðyrðamál eru, eru hins vegar lögfræðilega afskaplega áhugaverð. Í þeim vegast á tvö grundvallarréttindi borgaranna, tjáningarfrelsið annars vegar og rétturinn til einkalífs hins vegar. Sumir myndu segja að þessi réttindi skelli harkalega saman í þessum málum. Á það má þá benda að tjáningarfrelsinu er skipað skör lægra í stjórnarskránni með því að gert er ráð fyrir að það megi takmarka vegna mannorðs annarra.

Engum getur dulist að eftir efnahagshrunið hefur umræða um menn og málefni orðið óvægnari en áður. Hún er ekki bara óvægnari vegna orðanna sem eru látin falla heldur líka í ljósi samskiptamátans. Fúkyrðaflaumur gagnvart stjórnmálamönnum og þeirra á milli er ekki nýr af nálinni. Það er hins vegar sitthvað að fá um sig blaðagrein á pappír sem fer af öllum heimilum á ruslahaugana daginn eftir og að vegið sé að æru manns á internetinu öllum til ævarandi áminningar. Í dómaframkvæmd undanfarið er nokkuð gert með það hvort að sá sem telur að sér vegið sé svokölluð opinber persóna eða ekki. Hafa slíkar persónur þurft að búa við lakari réttarvernd en hinar. Þó hefur löggjafinn hvorki skilgreint hverjir það eru sem geta talist opinberar persónur né gert þennan skilsmun í lagatexta. Ég veit ekki hvenær „opinberri persónu“ skaut fyrst upp í dómum hér á landi en ég er ekki viss um að þessi skilsmunur sé sanngjarn eða í þágu almennings. Þetta er í öllu falli til umhugsunar fyrir löggjafann.

Ágætu fundargestir.

Ég ætlaði svo sannarlega ekki að halda á þessum vettvangi fyrirlestur um lögfræði. Ég nefni þessi dómsmál bara í því tilliti að mannréttindi almennt, svo sem eins og tjáningarfrelsi en um leið æruvernd og persónuvernd eru umfangsmikill þáttur í dómsmálaráðuneytinu þessi dægrin. Undirbúningur fyrir störf Landsréttar hefur einnig staðið yfir í ráðuneytinu en þó aðallega á vettvangi sérstaks starfshóps sem skipaður er dómurum og fulltrúum ráðuneytisins. Ég hef ekki fengið upplýsingar um annað en að undirbúningur gangi vel og að mestu samkvæmt áætlun. Húsnæði dómstólsins í Kópavogi hefur verið aðlagað að þörfum hans, eins og hægt er og í ljósi þess að ekki er um framtíðarhúsnæði að ræða. Þegar ég kom að þessum málum hafði ekki verið tekin ákvörðun um húsnæði fyrir hinn nýja dómstól. Eftir skoðun á þeim kostum sem stóðu til boða tók ég af hagkvæmnisástæðum ákvörðun um að rétturinn sæti í Kópavogi til að byrja með, þrátt fyrir að ég hafi þóst greina einhverjar efasemdaraddir um það. Ég er þakklát fyrir að þær raddir hljóðnuðu samstundis og menn einhentu sér í það að gera það húsnæði sem var í boði sem best úr garði þannig að húsnæðið sem slíkt myndi ekki verða starfsemi dómstólsins fjötur um fót.  

Það liggur fyrir að það er lagaheimild til þess að dómstólinn sitji þarna næstu 4 árin. Þau ár munu líða hratt og ekki seinna vænna að huga að framtíðarheimili dómstólsins. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að rétturinn eigi að sitja í Reykjavík. Það leiðir hugann strax að svokölluðum Stjórnarráðsreit sem er reitur sem afmarkast af Ingólfsstræti, Skúlagötu, Klapparstíg og  Lindargötu. Nú stendur til að fara í deiliskipulagssamkeppni á þessum reit. Það hefur verið skipuð verkefnisstjórn með fulltrúum frá forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og Framkvæmdasýslu ríkisins til þess m.a. að marka stefnu í uppbyggingu á Stjórnarráðsreitnum. Auk þessarar verkefnisstjórnar hefur líka verið settur á laggirnar samráðshópur með fulltrúum frá öllum ráðuneytum  sem hefur það hlutverk að fylgjast með og gera athugasemdir þegar þess er talin þörf. Samráðshópnum verður haldið upplýstum um gang mála.

Húsnæðismál stjórnarráðsins eru þannig í dag að samtals eru ráðuneyti í tæpum 23.000 m2 vítt og dreift um borgina, flest ráðuneyti í óhentugu húsnæði þannig að fermetrafjöldinn er mikill sem ekki nýtist vel. Áætluð fermetranotkun, miðað við forsendur fjármálaráðuneytisins um 23 m2 á starfsmann, eru tæpir 15.000 m2 og tæpir 11.000 m2 ef miða ætti við 18 m2 á starfsmann, sem er framtíðarsýn fjármálaráðuneytisins. Á þessum Stjórnarráðsreit er nú þegar húsnæði sem telur um 27.755 m2. Þar af eru ráðuneyti á reitnum sem telja 11.022 m2, og með Hafró 15.367 m2. Gert er ráð fyrir að mögulega megi byggja rúma 24.000 m2 til viðbótar á reitnum. Gengið er út frá því að forsætisráðuneytið verði áfram í Stjórnarráðshúsinu og að byggt verði um 1.000 m2 nýbygging á baklóðinni.

Samtals getur þessi Stjórnarráðsreitur hýst um 50.000 m2, þar af verða 24.000 m2 nýbyggingar. Ráðuneytin munu þurfa um 15-20.000 m2. Þessi nálgun skapar talsvert svigrúm fyrir aðrar stofnanir en ráðuneyti á Stjórnarráðsreitnum. Það má þannig mjög vel koma þar fyrir húsnæði fyrir Landsrétt og Héraðsdóm Reykjavíkur, en samkvæmt frumskoðun er gert ráð fyrir það þyrfti um 4.500 m2 samtals fyrir báða dómstólana. Héraðsdómur Reykjavíkur er í dag í rúmlega 4.000 m2 þar sem nýtingin þykir ekki góð og Landsréttur verður í tæplega 1.800 m2 þegar rétturinn tekur til starfa.

Í greinargerð Framkvæmdasýslu ríkisins til fjármálaráðuneytisins frá því í ágúst sl. er gert ráð fyrir því að skoðað verði framtíðarskipulag alls reitsins og að unnið verði að því að skilgreina hvaða ráðuneyti ef ekki öll, hvaða stofnanir og hvort dómstólar eigi að vera á reitnum. Minn vilji stendur til þess gert verði ráð fyrir dómstólunum, bæði héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti á þessum reit. Ég mun beita fyrir mér fyrir því að í forsendum deiliskipulagsvinnu verði að minnsta kosti gert ráð fyrir þessu.

Gert er ráð fyrir því að farið verði í arkitektasamkeppni um deiliskipulag fyrir reitinn. Ráðgert er að  samkeppninni verði hrundið af stað í febrúar og að tillögur verði kynntar fyrir 1. desember 2018 og veitt verðlaun fyrir þá tillögu sem telst best.

Samhliða þyrfti að nota næsta ár til að ljúka þarfagreiningu og frumathugunarskýrslu fyrir nýbyggingar fyrir bæði dómstigin. Þannig gæti verið tilbúin framtíðarsýn á uppbyggingu húsnæðis fyrir bæði dómstig þegar deiliskipulagstillagan verður kynnt. Ég tel að best færi á því að Dómstólasýslunni væri falið að leiða þessa vinnu f.h. dómsmálaráðuneytisins.

Ágætu fundarmenn. Ég vil að lokum nefna við ykkur að ég hyggst leggja fram á Alþingi þegar það kemur saman í desember frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla til að mæta fækkun dómara við Hæstarétt og í þeim tilgangi að gera réttinum kleift að ljúka flestum áfrýjuðum einkamálum eigi síðar en snemma á árinu 2019. Þá hef ég líka hug á að gera lögmönnum sem hafa þegar flutt prófmál fyrir Hæstarétti kleift að nýta þessi sömu mál sem prófmál, að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Ágætu fundarmenn. Það verður ekki dauð stund á málefnasviði dómsmála í ráðuneytinu næstu misserin.

Ég vil að lokum óska ykkur árangursríks fundar hér á eftir og óska dómurum öllum gæfu í þeirra mikilvægu störfum. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta