Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. janúar 2018 DómsmálaráðuneytiðSigríður Á. Andersen 2016-2017

Ræða dómsmálaráðherra á ráðstefnunni Þögnin, skömmin og kerfið 5. janúar 2018

Hér fer á eftir ávarp Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra á ráðstefnunni Þögnin, skömmin og kerfið sem fram fór í Háskólanum í Reykjavík 5. janúar 2018.

Góðir gestir.

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur fjöldi kvenna greint frá kynferðislegri áreitni og kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir bæði í leik og starfi. Þessar reynslusögur skipta hundruðum hafa ekki látið neinn ónsortinn. Umræðan í kjölfarið hefur opnað augu okkar fyrir því að um er að ræða vanda í okkar samfélagi sem er af ýmsum toga og sem er í sumum tilvikum djúpstæður. Enginn á að þurfa að lifa við ofbeldi, í ótta við ofbeldi eða í skugga ofbeldis.

En umræðan er ekki bara upplýsandi í sjálfu sér. Hún getur þjónað margvíslegum öðrum góðum tilgangi. Hún hlýtur jú að vera græðandi fyrir þá sem segja sína sögu. Hún getur opnað augu krónískra gerenda á þessu sviði. En svo er hún líka nauðsynlegt hreyfiafl innan réttarvörslukerfisins. Ég bind til að mynda mestar vonir við að opin umræða sem þessi leiði til þess að þeir sem telji á sér brotið með alvarlegum hætti veigri sér ekki við að stíga fram og leita réttar síns sem fyrst. Tíminn er nefnilega versti óvinur réttvísinnar í kynferðisbrotamálum.

En brotaþolar verða að getað leita til lögreglu eða annarra í þeirri vissu að á þá verði hlustað og allt kapp lagt á að aðstoða þá, bæði andlega og við meðferð málsins í réttarvörslukerfinu. Við höfum náð árangri í þessum málum undanfarin ár. Kærum til lögreglunnar vegna kynferðisbrota hefur fjölgað verulega. Ég vona að það sé ekki vegna fjölgunar brota milli ára heldur vegna þess að hærra hlutfall brota sé tilkynnt og það sé m.a. vegna aukins trausts til lögreglu, ásamt auðvitað sívaxandi sjálfsöryggi unga fólksins almennt.  

Ég veit að mörgum þykir réttarvörslukerfið virka bæði hægt og illa. Undanfarna tvo áratugi hafa þó verulegar breytingar til batnaðar orðið á meðferð ofbeldisbrota og margar á grundvallarþáttum í réttarfari. Til dæmis má nefna lög nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, lög nr. 36/1999 en með þeim var réttarstaða brotaþola styrkt verulega með tilkomu réttargæslumanna og árið 2000 var nálgunarbann lögfest til verndar þeim sem verða fyrir ítrekuðu áreiti.

Kæru gestir.

Ég er þeirrar skoðunar að það megi gera enn betur í réttarvörslukerfinu þegar kemur að þolendum ofbeldisbrota, einkum kynferðis- og heimilisofbeldis. Það má ekki vera svo að þolendum finnist ekki aðeins að sér vegið með brotinu sjálfu heldur líka með réttarvörslukerfinu. Um það er ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna einnig sammála og í nýjum stjórnarsáttmála hefur verið tekinn af allur vafi um að aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu verði hrundið í framkvæmd og fjármögnuð að fullu. Áætlunin var unnin af starfshópi sem forveri minn í starfi, Ólöf heitin Nordal, setti á laggirnar fyrir um ári síðan og skilaði hópurinn lokadrögum í haust. Næstu skref eru að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum áætluninnar sem má ráðast í strax og hefjast handa við að koma í framkvæmd þeim aðgerðum sem taka lengri tíma. Ég mun fylgja þessari vinnu vel eftir.

Ég tel til dæmis afar brýnt að stytta málsmeðferðartímann og setja kynferðisbrotamál í forgang í réttarvörslukerfinu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur þegar tekið skref í þá átt og lagt sérstaka áherslu á heimilisofbeldisbrot í sínum störfum með góðum árangri. Þá þarf að skilgreina hlutverk réttargæslumanna brotaþola í sakamálum betur svo þjónustan sé samræmd, skýr og brotaþolanum til gagns. Ég hef einnig lengi talað fyrir rafrænu réttarvörslukerfi og þegar er hafin vinna við ýmsa þætti þess stóra verkefnis. Ég tel til dæmis augljóst hagræði að því fyrir alla aðila að brotaþoli geti fylgst með máli sínu rafrænt í réttarvörslukerfinu. Á það hefur verið bent að það myndi spara öllum tíma og takmarka það hugarangur sem meðferð málsins óhjákvæmilega veldur brotaþola.

Réttarvörslukerfið er eins og önnur kerfi í stöðugri endurskoðun og mun halda áfram að taka breytingum í takt við verkefnin á hverjum tíma. Skilaboð frá skjólstæðingum þess skipta miklu máli við þá endurskoðun.

Stjórnvöld og stofnanir þurfa líka að skoða verklag sitt með tilliti til þessa og gera breytingar ef þörf krefur. Forsætisráðherra lagði til að mynda fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi fyrir jól um stefnu og áætlun Stjórnarráðsins gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi sem var samþykkt í mars á síðasta ári af öllum ráðuneytisstjórum og ráðuneytum stjórnarráðsins. Hvatti forsætisráðherra til þess að ráðherrar kæmu á kynningu og fræðslu um gildandi stefnu í sínum ráðuneytum og framkvæmdu árlegar kannanir á hugsanlegum tilvikum kynfreðislegrar áreitni og að unnið yrði úr niðurstöðum þeirra. Það er mikilvægur liður í að meta umfang vandans sem okkur er nú öllum dagljós. Ég hef nú þegar komið á dagskrá fræðslufundi um þessi mál í dómsmálaráðuneytinu svo tryggt sé að starfsmenn hafi nauðsynleg verkfæri til að bregðast við ef að þeim er vegið með ótilhlýðilegri hegðun.

Þá hafa fréttir borist af fyrirtækjum víðsvegar um landið sem hafa tekið mark á umræðunni og ýmist sett sér áætlun um aðgerðir ef upp kemur kynferðislegt ofbeldi eða áreitni á vinnustað eða ítrekað þá sem þegar var í gildi. Allt er þetta til bóta.

Að lokum vil ég nefna að það getur ekki annað en yljað manni um hjartarætur að sjá þennan samhug fólks í verki með þeim sem hafa orðið fyrir ofbeldisbrotum, bæði karla og kvenna. Það sýnir okkur að það á aldrei að þjást í þögninni, það á að vera raunverulegt val að greina frá því þegar að manni er vegið, sækja rétt sinn sé á manni brotið og ganga beinn í baki inn í framtíðina.

Ég hlakka til að hlýða á þau erindi sem á eftir koma en fjölbreytt efni þeirra býður að við förum öll héðan út með dýpri þekkingu á hinum fjölmörgu hliðum ofbeldisbrota, málsmeðferðarinnar og eftirleiksins.

Takk fyrir. 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta