Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. maí 2018 DómsmálaráðuneytiðSigríður Á. Andersen 2016-2017

Árvarp dómsmálaráðherra á ráðstefnu HR um kynferðisbrot þann 25. maí sl.

Góðir gestir.

Það er ólíðandi að eitthvert okkar búi við ofbeldi, í skugga ofbeldis eða í ótta við ofbeldi. Það skiptir sköpum að þolendur ofbeldisbrota sjái sér fært að leita til lögreglu þegar á þeim er brotið en þjáist ekki í hljóði. Það þarf kjark til að standa gegn ofbeldi, segja frá og leita réttar síns. Það er ekki langt síðan við sáum fjölda íslenskra kvenna kveða sér hljóðs og deila reynslusögum af kynferðisofbeldi og kynferðislegri áreitni sem þær höfðu orðið fyrir á lífsleiðinni. Sögurnar skiptu hundruðum og létu enga ósnortinn.

Í kjölfarið kviknaði mikil umræða í samfélaginu sem reyndist ekki bara upplýsandi í sjálfu sér heldur hefur þjónað öðrum góðum tilgangi. Hún hlýtur jú að vera græðandi fyrir þá sem segja sína sögu og getur opnað augu krónískra gerenda á þessu sviði. En svo er hún líka nauðsynlegt hreyfiafl innan réttarvörslukerfisins. Áframhaldandi opin umræða, eins og þessi ráðstefna hér í dag, getur leitt til þess að þeir sem telji á sér brotið með alvarlegum hætti veigri sér ekki við að stíga fram og leita réttar síns sem fyrst. Tíminn er nefnilega versti óvinur réttvísinnar í kynferðisbrotamálum.

Í þessum efnum finnst mér vert að huga að þætti fjölmiðla. Umfjöllun þeirra um kynferðisbrot reynist þolendum oft erfið. Réttarhöld og í kynferðisbrotamálum eru stundum lokuð almenningi og dómar í þeim málum birtir án nafna hlutaðeigandi. Það er mikilvægt að hafa í huga að það er ekki gert af tillitssemi við hinn dæmda heldur af tillitssemi og nærgætni gagnvart brotaþola sem stundum tengist sakamanninum. Nú síðast í þessari viku var mikil umfjöllun í fjölmiðlum um mál sem þannig háttaði til en í fréttum var hinn dæmdi margnafngreindur og ítarlegar lýsingar á atvikum máls í hrottalegu máli. Þess háttar umfjöllun kann að vera erfið þolendum. Fjölmiðlaumfjöllun má ekki verða til þess að fórnarlömb veigri sér við að leita réttar síns.

Kærum til lögreglunnar vegna kynferðisbrota hefur fjölgað verulega og ég vona að það sé ekki vegna fjölgunar brota milli ára heldur vegna þess að hærra hlutfall brota sé tilkynnt og það sé m.a. vegna aukins trausts til lögreglu, ásamt auðvitað sívaxandi sjálfsöryggi unga fólksins almennt. Brotaþolar verða að getað leita til lögreglu eða annarra í þeirri vissu að á þá verði hlustað og allt kapp lagt á að aðstoða þá, bæði andlega og við meðferð málsins í réttarvörslukerfinu.

Lögreglan hefur þegar haft frumkvæði að því að leita leiða til að aðstoða brotaþola betur, t.d. vinnur lögreglan á Akureyri nú að tilraunaverkefni með Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilsugæslustöðinni á Norðurlandi og Háskólanum á Akureyri þess efnis að kalla til sálfræðinga á lögreglustöðina eftir skýrslutöku í alvarlegum kynferðisbrotamálum til að veita þolanda stuðning og leiðbeina honum um næstu skref, sér að kostnaðarlausu.

Það hefur orðið mikil vitundarvakning í samfélaginu þegar kemur að kynferðisbrotum og mikilvægi þess að ráðast að rót vandans, taka vel utan um þolendur og gæta að því að vel sé haldið á meðferð mála. Það má ekki vera svo að þolendum finnist ekki aðeins að sér vegið með brotinu sjálfu heldur líka með réttarvörslukerfinu. Við höfum þegar náð árangri í þessum málum undanfarin ár en betur má ef duga skal.

Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Framsóknarflokksins tók við í byrjun desember og kvað á um það strax í stjórnarsáttmála sínum að gera þyrfti miklar úrbætur á meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, styrkja innviði þess, styrkja stöðu brotaþola og samhæfa þjónustu við brotaþola á landsvísu. Rýna þyrfti lagaumhverfi kynferðisbrota með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda brotanna og fullgilda þyrfti Istanbúl-samninginn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Það er gaman frá því að segja að samningurinn var fullgiltur nú á dögunum en þetta er fyrsti bindandi samningurinn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum.

Í febrúar kynnti ég fullgerða aðgerðaráætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu. Aðgerðirnar snerta mismunandi þætti réttarvörslukerfisins, auk aðgerða er varða brotaþola, sakborninga, forvarnir og fræðslu. Ég hef fylgt þessari vinnu þétt eftir og er áætlunin fullfjármögnuð í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023.

Á grundvelli þessarar áætlunar hef ég þegar gripið til þess að efla málsmeðferð kynferðisbrota hjá lögreglunni. Yfir 200 m.kr. viðbótarfjármagni var veitt í ár til að bæta við stöðugildum hjá lögreglu, alls fimmtán nýjum stöðugildum um land allt, með það að markmiði að öll embættin væru í stakk búin til að sinna rannsókn og meðferð kynferðisbrota. Lagðar voru rúmlega 40 m.kr. til viðbótar til uppfærslu á verklagsreglum og rannsóknarbúnaði hjá lögreglu. Þá var embætti héraðssaksóknara einnig styrkt um tvö ný stöðugildi á þessu ári til að efla meðferð kynferðisbrota hjá embættinu. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu og embætti ríkissaksóknara var einnig styrkt með tilliti til endurmenntunar lögreglu og ákærenda sem þarf að efla á þessu sviði.

Á næstu þremur árum verður styrkari stoðum einnig rennt undir skilvirkt og öruggt gagnaflæði milli lögreglu og ákæruvalds ásamt miðlun gagna milli ákæruvalds og dómstóla og milli lögmanna og réttargæslumanna sem koma að málum. Þegar er hafin könnun á því hvernig koma megi upp vefsvæði fyrir brotaþola, sakborninga og málsvara þeirra þar sem má fylgjast auðveldlega með gangi máls í kerfinu.

Þá hefur dómsmálaráðuneytinu einnig borist mikilvægur liðsauki til að fylgja eftir samræmingu málsmeðferðar kynferðisbrota á landsvísu á grundvelli aðgerðaráætlunarinnar, ásamt því að hefja endurskoðun á ákvæðum almennra hegningarlaga um kynferðisbrot og önnur ofbeldisbrot í samræmi við áætlunina. Það er Svala Ísfeld Ólafsdóttir, lögfræðingur, sem var ráðin inn sem sérfræðingur í þessum málaflokki og hún hafði forgöngu um að efna til þessarar ráðstefnu hér í dag þar sem við getum áfram talað opinskátt um þetta samfélagsmein.

Það geta aldrei of margir látið sig þennan málaflokk varða og því fagna ég einnig nýstofnsettum stýrihóp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, sem hefur það verkefni að beita sér fyrir framsæknum og samhæfðum aðgerðum stjórnvalda gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni. Halla Gunnarsdóttir leiðir hópinn og samþykkti að fara yfir næstu skref í þeirri hópavinnu hér á eftir. Ég óska henni velfarnaðar í sínum störfum og vona að okkur takist með samhentu átaki að ná árangri í baráttunni gegn ofbeldi.

Góðir gestir,

Við þurfum að halda áfram á þeirri braut sem við erum byrjuð að feta og sýna samhug okkar í verki með þeim sem hafa orðið fyrir ofbeldisbrotum, bæði körlum og konum. Þannig hjálpum við þeim sem orðið hafa fyrir órétti að ganga bein í baki inn í framtíðina.

Framundan eru fróðleg erindi og reynslusögur sem munu gera okkur betur kleift að skilja vandann, horfast í augu við hann og að lokum uppræta hann.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta