Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. desember 2018 DómsmálaráðuneytiðSigríður Á. Andersen 2016-2017

Ávarp dómsmálaráðherra í upphafi ráðstefnu í tilefni af 70 ára afmælis Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna

Það er mér sönn ánægja að vera hér með ykkur í dag til þess að fagna 70 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem var samþykkt  af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í París 10. desember árið 1948.

Það má heita með ólíkindum að þau ríki sem tilheyrðu Sameinuðu þjóðunum fyrir 70 árum hafi á þeim tíma getað fjallað um fyrirbærið mannréttindi, hvað þá komið sér saman um texta sem ætlað var að slá skjaldborg um grundvallarréttindi manna. Auðvitað hafa hörmungar seinni heimisstyrjaldarinnar opnað augu margra fyrir nauðsyn þess að efla mannréttindi – og það var jú tilgangurinn með stofnun Sameinuðu þjóðanna. En á sama tíma var svo örstutt síðan að borgarar svo margrar ríkja höfðu verið sviptir flestum þeim réttindum sem við núna lítum á sem mannréttindi, og jafnvel með skipulegum hætti mikilvægasta réttinum, réttinum til lífs. Og þótt styrjöldinni hafi verið lokið á þessum tíma þá voru réttindi einstaklinga með skipulögðum hætti fótum troðin í mörgum þeirra ríkja Sameinuðu þjóðanna sem þó sættust á texta mannréttindayfirlýsingarinnar. Þegar mannréttindayfirlýsingin var samþykkt var skollið á kalt stríð milli hins vestræna heims og austurblokkarinnar svokölluðu. Þrátt fyrir að Mannréttindayfirlýsingin félli illa að stjórnarfari handan járntjaldsins höguðu örlögin því svo að þessi gagnmerka yfirlýsing fékkst þrátt fyrir allt samþykkt.

Samþykkt Mannréttindayfirlýsingarinnar markaði mikilvæg tímamót. Í fyrsta sinn var algildi mannréttinda viðurkennt á alþjóðlegum vettvangi. Yfirlýsingin markaði án efa upphaf nýrra tíma. Frá samþykkt hennar hefur hún verið leiðarljós við þróun löggjafar út um allan heim  og grunnur fjölmargra alþjóðlegra mannréttindasamninga. Til að mynda gerðu ríki Vestur-Evrópu fljótlega með sér sáttmála, Mannréttindasáttmála Evrópu, sem byggði á hinni almennu Mannréttindayfirlýsingu en með mun skýrari réttarúrræði fyrir þá sem brotið er gegn. Í Austur-Evrópu varð þróunin önnur.

Í Mannréttindayfirlýsingunni er að finna ákvæði um ýmis grundvallarréttindi, svo sem réttinn til lífs, rétt til frelsis og mannhelgi, bann við pyndingum, bann við mismunun, réttinn til friðhelgi einkalífs, rétt til heilbrigðis, menntunar o.s.frv.

Í umfjöllun um mannréttindi er gjarnan í grófum dráttum vísað til annars vegar jákvæðra réttinda og hins vegar neikvæðra. Í hinum neikvæðu felast réttindi til þess að þurfa ekki að þola afskipti ríkisvaldsins. Þetta má segja að séu hin hefðbundnu borgaralegu réttindi, eins og tjáningarfrelsið, félagafrelsið og eignarrétturinn. Hin jákvæðu réttindi eru hins vegar þau sem borgarar geta ekki notið nema með atbeina stjórnvalda, þ.e. réttindi sem kalla á löggjöf eða einhvers konar athöfn stjórnvalda. Þessum réttindum er ætlað er að færa borgurunum tiltekin gæði, svokölluð félagsleg og efnahagsleg réttindi.

Harðstjórnarríki handan járntjaldsins studdu ávallt ákvæði um efnahagsleg réttindi enda var það eitt af megin markmiðum kommúnismans að tryggja verkalýðnum húsnæði og bíl. Raunveruleg réttindi sem tryggðu mannfrelsi eins og eignarréttur, tjáningarfrelsi og rétturinn til að standa utan félaga var þessum ríkjum hins vegar þyrnir í auga og því er það merkilegt að til að mynda 17. gr. yfirlýsingarinnar um eignarréttinn hafi haldist í yfirlýsingunni án þess að harðstjórinn Stalín beitti neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Með tilliti til mannréttinda má því segja að heimurinn hafi til ársins 1989 skipts í harðstjórnarríki sem höfðu undirgengist Mannréttindayfirlýsinguna og lögðu áherslu á efnahagsleg og félagsleg réttindi eins og aðrir en fóru í reynd ekki eftir henni og vestræn lýðræðisríki sem komu á fót raunhæfu kerfi til varnar grundvallarmannréttindum, þ. á m. borgaralegum réttindum, með Mannréttindasáttmála Evrópu.

Þótt heimur fari vissulega batnandi á svo marga mælikvarða er enn langt í land með að einstaklingarnir sem hann byggja fái að njóta allra þeirra grundvallarréttinda sem Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveður á um. Almenn vitundarvakning hefur þó orðið um mannréttindi og algildi þeirra. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að umræða um hin svokölluðu jákvæðu réttindi sé fyrirferðameiri en umræða um hin neikvæðu, að minnsta kosti í hinum vestrænu ríkjum. Efnahagsleg og félagsleg réttindi hljóma jú áþreifanlegri og eru þar af leiðandi kannski aðgengilegri hinum almenna manni en borgaraleg réttindi á borð við félagafrelsi og eignarrétt. Samt er það svo að menn fá ekki notið til fulls margra þeirra réttinda sem Mannréttindayfirlýsing SÞ tiltekur nema menn skilji inntak eignarréttarins og að staðinn sé vörður um hann. Í allri þeirri viðleitni sem alþjóðasamstarf hefur haft uppi til þess að mæta vanda sem fylgt hefur óreglulegri för manna yfir landamæri, farendum svokölluðum, hefur sjónum lítið verið beint að rót vandans. Hví flýja milljónir manna heimkynni sín þessi misserin? Margir frá löndum þar sem félagsleg réttindi hafa verið í hávegum höfð. Það sem heimaríki þessara farenda virðast eiga sammerkt er alger vanmáttur þegar kemur að vernd eignarréttar. Það er óskandi að þessum mikilvæga rétti einstaklingsins verði meiri gaumur gefinn í mannréttindabaráttu næstu ára.

Slagorð 70 ára afmælis Mannréttindayfirlýsingarinnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er #Standup4humanrights –stöndum vörð um mannréttindi. Forsenda áframhaldandi mannréttindabaraáttu er stöðugt samtal um mannréttindamál, innanlands í hverju landi og yfir landamæri. Hér á landi hefur almennt ríkt samstaða um mikilvægi mannréttinda þótt hér á landi eins og víðar hafi túlkun stjórnvalda og dómstóla á hinum borgaralegum réttindum Mannréttindayfirlýsingarinnar stundum farið fyrir ofan garð og neðan. Ég nefni sem dæmi tjáningarfrelsið og réttinn til að standa utan félaga. Með meiri hagsæld er von til þess að hlúð verði betur að þessum réttindum.

Á síðasta ári setti ég á laggirnar stýrihóp innan Stjórnarráðsins um mannréttindi. Hópurinn er  samráðsvettvangur allra ráðuneyta um mannréttindamál og er ætlað að stuðla að samvinnu um mannréttindi þvert á öll ráðuneyti. Stýrihópurinn á í góðu samstarfi við félagasamtök og stendur m.a. fyrir þessum viðburði í dag. Ég vona að þessi fundur verði innlegg það samtal um mannréttindi sem er svo mikilvægt að viðhalda og stuðli um leið að áframhaldandi innleiðingu mannréttinda, bæði hér á landi og á alþjóðavísu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta