Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. janúar 2019 DómsmálaráðuneytiðSigríður Á. Andersen 2016-2017

Ávarp dómsmálaráðherra á málþingi um réttaröryggi fatlaðs fólks sem haldið var á vegum Dómstólasýslunnar, réttindindavaktar, félgasmálaráðuneytis og mennta- og þróunarseturs lögreglunnar

Tímamót urðu í mannréttindabaráttu fatlaðra þegar samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur 13. desember 2006. Ísland undirritaði samninginn 30. mars 2007 og fullgilti hann síðan 23. sept. 2016. Fatlað fólk nýtur að sjálfsögðu almennra mannréttinda samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasamningum sem Ísland er aðila að. Möguleikar þess að njóta þeirra réttinda eru hins vegar stundum takmarkaðir. Samningnum um réttindi fatlaðs fólks er ætlað að tryggja enn frekar að fatlað fólk fái í raun notið réttinda sinna.

Samningurinn beinir sjónum okkar að þáttum daglegs lífs sem fatlaðir standa frekar frammi fyrir sem hindrunum en ófatlaðir. Hann gerir þá kröfu að sjálfstæð mannréttindi fatlaðra séu viðkennd ásamt rétti þeirra til þátttöku í samfélaginu til jafns á við ófatlaða. Jafnræði og viðurkenning á því að fólk er margs konar skiptir ekki síst máli innan réttarvörslukerfisins. Það er jú réttarvörslukerfið sem gegnir lykilhlutverki þegar kemur að því að því að standa vörð um öryggi almennings, réttarríkið og mannréttindi einstaklinganna. Greiður aðgangur allra að réttarvörslukerfinu er ein forsenda réttarríkisins. Fjallað er um þennan rétt í 13. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en þar er áréttuð sú skylda ríkisins að tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarvörslukerfinu til jafns við aðra.[1] 

Ýmislegt hefur verið gert til þess að tryggja virkan aðgang fatlaðra að réttarkerfinu. Má sem dæmi nefna réttindagæslumenn fatlaðs fólks, nýjar leiðbeiningar ríkissaksóknara til lögreglu og ákærenda um meðferða kynferðisbrota sem varða fatlað fólk - sem fjallað verður nánar um hér í dag - og nýtt frumvarp sem ég hef lagt fram á Alþingi og mun mæla fyrir einhvern næstu daga og varðar þjónustu táknmálstúlka í dómsal. Frumvarpið mælir fyrir um að kostnaður vegna táknmálstúlkunar við meðferð einkamála fyrir dómstólum verði greiddur úr ríkissjóði. 

Tryggja þarf fullnægjandi þekkingu á málefnum fatlaðs fólks og viðurkenningu á mismunandi tjáningaraðferðum. Starfshópur, sem skipaður var af ríkissaksóknara í ársbyrjun 2017, um meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða sakborninga og/eða brotaþola er að ræða, skilaði skýrslu nýlega þar sem settar eru fram tillögur um endurskoðun og úrbætur á þeim ákvæðum sakamálalaga, sem gilda um skýrslutökur af sakborningum og vitnum. Þar er lögð áhersla á að umbætur verði gerðar á fyrirkomulagi er lýtur að skýrslutöku af vitnum í viðkvæmri stöðu og að réttur fatlaðra brotaþola til að hafa með sér stuðningsaðila í samskiptum við lögreglu og fyrir dómi verði tryggður. Þá er lagt til að dómarar fái heimild til að kalla til sérkunnáttumenn við skýrslutökur af fötluðu fólki telji þeir þörf á því. Réttarfarsnefnd hefur þegar verið falið að vinna með tillögur starfshópsins.

Undir lok nýliðins árs gaf ríkissaksóknari út sérstök fyrirmæli til lögreglustjóra og annarra ákærenda um meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða einstaklinga er að ræða og byggja þau á athugun og tillögum starfshópsins. Fyrirmælin lúta að því að tryggja jafna stöðu fatlaðra og ófatlaðra gagnvart réttarvörslukerfinu. Þannig er lagt fyrir lögreglu og ákærendur að laga rannsókn í hverju máli fyrir sig að þörfum hvers og eins og virða vilja hins fatlaða og óskir.

Það er jafnframt mikilvægur liður í því að tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu að fagstéttir sem starfa innan réttarvörslukerfisins fái nauðsynlega fræðslu og þjálfun. Í þessu sambandi má nefna að viðbótarfjármagni, sem fékkst með aðgerðaáætlun um bætta meðferð kynferðisbrota, hefur verið veitt til Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar í þeim tilgangi m.a. að tryggja þjálfun lögreglumanna í yfirheyrslu- og samtalstækni þar sem sérstök áhersla er lögð á sakborninga, þolendur og vitni í viðkvæmri stöðu.

Í stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017 - 2021 er að finna aðgerð sem miðar að því að auka þekkingu lögreglu, ákæruvalds og dómskerfis við rannsókn og meðferð ofbeldisbrota, í þeim tilgangi að tryggja að fatlað fólk njóti verndar réttarkerfisins til jafns við aðra. Þá hafa verið haldin sérhæfð námskeið í skýrslutökum af  fólki með sérþarfir, auk þess sem þjálfun í grunnnámi rannsóknarlögreglumanna hefur verið aukin að þessu leyti.

Ljóst er að vitundarvakning um samninginn og réttindi fatlaðs fólks er viðvarandi verkefni – við þurfum að halda áfram að kynna þau réttindi sem samningurinn kveður á um, og auka þekkingu innan réttarvörslukerfisins á réttindum fatlaðs fólks. Málþingið hér í dag er mikilvægt skref í þá átt.



Ákvæðið í heild:

1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.

2. Í því skyni að greiða fyrir því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, meðal annars lögreglumenn og starfsfólk fangelsa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta