Schengen - grein í Morgunblaðinu 19. febrúar 2019
Ísland hefur tekið þátt í Schengen-samstarfi Evrópusambandsríkja frá árinu 2001 í samræmi við samning sem undirritaður var árið 1996. Á þessum árum hefur samstarfið aukist mjög með fjölgun samstarfsríkja og auknu umfangi. Markmið samstarfsins er þó óbreytt og einkum tvíþætt. Í umræðu um þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu er gjarnan einblínt á þann þátt samstarfsins sem lýtur að afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum, enda er hann augljós öllum þeim sem um landamæri ríkjanna fara. Hinn þátturinn er lýtur að samvinnu um löggæslu er hins vegar ekki öllum eins kunnur. Þar er um að ræða samræmdar reglur um eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins og mikla samvinnu lögregluliða ríkjanna með öryggi borgara Schengen-ríkjanna að leiðarljósi.
Öryggi í frelsinu
Frjáls för manna yfir landamæri er markmið í sjálfu sér. Það eru mikilsverð réttindi að geta farið á milli ríkja án þess að þurfa að sæta persónubundnu eftirliti meðan á ferð stendur og áður en lagt er í hann. Íslendingar, sem nú á dögum ferðast trúlega meira milli landa en ríkisborgarar margra annarra Evrópuríkja, finna glöggt muninn að þessu leyti á ferðalögum innan Evrópu og utan.Niðurfelling eftirlits á innri landamærum Schengen kallar hins vegar á margvíslegar öryggisráðstafanir. Lögreglusamvinna yfir landamæri skiptir þar sköpum. Mikilvægur hluti hennar felst í sameiginlegu upplýsingakerfi (SIS) með tilheyrandi heimild löggæsluyfirvalda til að miðla með skilvirkum hætti upplýsingum milli samstarfsaðila. Einnig er samvinna milli ríkjanna um réttaraðstoð í sakamálum, meðal annars með það að leiðarljósi að einstaklingur verði ekki saksóttur eða refsað tvívegis fyrir sama afbrot á Schengen-svæðinu. Þá hafa samstarfsríkin skuldbundið sig til þess að fylgja samræmdri stefnu við útgáfu vegabréfsáritana. Það er ekki ólíklegt að án þessa samstarfs um vegabréfsáritanir og áritanafrelsi væri ferðaþjónusta á Íslandi nokkuð minni en raun er.
Margvíslegar ástæður ferðalaga
Langflestir sem leggja land undir fót gera það í lögmætum tilgangi. Viðskiptaferðir, skemmtiferðir og búferlaflutningar af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna ófriðar heima fyrir eða bágs efnahagsástands. Ástæðulaust, að ekki sé minnst á tilgangslaust, er að amast við þessum ferðum okkar mannfólksins. Það er hins vegar hverju fullvalda ríki mikilvægt að hafa einhverja yfirsýn yfir þann straum erlendra borgara sem fara um landamæri þess. Ekki eru allir í lögmætri dvöl og ekkert ríki á Vesturlöndum er í stakk búið til þess að taka á móti öllum þeim sem þangað vilja flytja frá öðrum heimshlutum.Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu lýtur ekki að heildarstefnu Evrópusambandsins í málefnum útlendinga eða hælisleitenda. Ísland er ekki skuldbundið að neinu leyti í þeim efnum. Hins vegar tekur Ísland þátt í Dyflinnarsamstarfinu sem lýtur að afmörkuðum málum er varða útlendingamál, þ.ám. brottvísanir og endurkomubann útlendinga í ólögmætri dvöl. Það er vandséð hvernig Ísland hefði getað brugðist við fordæmalausum straumi hælisleitenda undanfarin ár án þessa samstarfs sem er hluti Schengen-samstarfsins. Þess misskilnings gætir stundum í umræðu um Schengen að afstýra hefði mátt fjölgun hælisleitenda hér á landi væri Ísland utan Schengen. Hælisleitendur velja hins vegar ekki viðkomustaði sína eftir ríkjabandalögum. Schengen-ríkin eru fráleitt einu áfangastaðir hælisleitenda eins og Bretland er ágætt dæmi um.
Samvinna í stöðugri þróun
Málefni landamæra- og lögreglusamvinnu teljast almennt þróun á Schengen-samstarfinu. Samvinna á vettvangi öryggismála telst hins vegar ekki nema að hluta Schengen-tengd, nánar tiltekið þegar samvinnan varðar t.d. öryggi á ytri landamærum eða nýtingu Schengen-upplýsingakerfisins svo dæmi séu tekin. Framundan eru nokkur mikilvæg verkefni á sviði landamæra- og lögreglusamvinnu sem almenningur verður var við. Fyrirhuguðu Entry/Exit-kerfi sem samkomulag náðist um síðari hluta árs 2017 er til að mynda ætlað að auka gæði landamæraeftirlits og auka sjálfvirkni við mælingu dvalar útlendinga á Schengen-svæðinu. Á árinu 2017 ferðuðust 30 milljón einstaklingar til Schengen-svæðisins á grundvelli heimildar um vegabréfsáritunarfrelsi. Eftir því sem samningum um vegabréfsáritunarfrelsi fjölgar þá fjölgar þessum ferðamönnum. Það er vissulega jákvætt í stóra samhenginu en má þó ekki vera á kostnað öryggis Schengen-svæðisins. Á árinu 2022 er fyrirhugað að taka í notkun ETIAS-kerfi (European Travel Information and Authorisation System) í líkingu við það kerfi sem Bandaríkin nota við forskráningu ferðamanna til landsins. ETIAS er ætlað að greiða fyrir landamæraeftirliti og draga úr líkum á því að ferðamaður sæti frávísun á landamærum.Ísland hefur aðkomu að mótun nýrra Schengen-gerða með þátttöku íslenskra sérfræðinga, sendiherra og dómsmálaráðherra í nefndum ráðherraráðs Evrópusambandsins. Í upphafi árs tók Rúmenía við formennsku í ráðherraráðinu af Austurríki. Formennskuríki hefur tækifæri til þess að setja sitt mark á stefnumótum Schengen-samstarfsins en ríkin hafa vissulega mismunandi áherslur þegar kemur að þróun samstarfsins.
Í gær lagði ég fyrir Alþingi skýrslu mína um Schengen-samstarfið. Í henni er fjallað um þau verkefni sem rædd eru á reglulegum fundum dómsmála- og innanríkisráðherra Evrópusambandsins sem við dómsmálaráðherrar Schengen-samstarfsríkjanna sækjum. Ég hvet áhugasama til þess nálgast skýrsluna á vef Alþingis eða dómsmálaráðuneytis.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2019