Ávarp dómsmálaráðherra á Prestastefnu í apríl 2019
Biskup Íslands, vígslubiskupar, prestar og aðrir fundarmenn.
Það er mér ánægja að fá þetta tækifæri til að ávarpa prestastefnu hér í Áskirkju í Reykjavík.
Öll upplifum við trú með misjöfnum hætti. Og oft kann það að breytast með aldrinum. Ég var mikið með ömmu minni sem barn en hún var fædd árið 1915. Hún var Guðhrædd og fórum saman með bænirnar fyrir svefninn. Ég fór sjálf með frumsamdar aukabænir í barnæsku og fór alltaf með sömu setninguna sem hljóðaði svona; „Góði Guð, viltu hjálpa vondu fólki að vera gott fólk og viltu hjálpa góðu fólki að halda áfram að vera gott fólk.“ Frekar einfalt en fangaði þetta ágætlega.
Víða í okkar samfélagi gefur fólk tíma sinn í allskyns samfélagsleg verkefni og víða tengist það starfi kirkjunnar í formi þess að létta undir með öðrum, bæði á þeirra erfiðustu stundum og þeirra gleðilegustu. Þetta eru verðmæti samfélags í sjálfu sér.
Í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar kemur fram að á prestastefnu skuli fjalla um málefni prestastéttarinnar, svo og önnur kirkjuleg málefni. Ég hlýt því að gera hér að umtalsefni mínu stöðu prestastéttarinnar gagnvart ríkinu og raunar einnig stöðu kirkjunnar sjálfrar gagnvart ríkisvaldinu. Hvort tveggja hefur verið í deiglunni undanfarin misseri og skiptar skoðanir hafa komið fram um hvernig best sé að koma málum fyrir til framtíðar.
Hingað til hefur þjóðkirkjan í raun og veru verið rekin fjárhagslega eins og hver önnur ríkisstofnun, með fjárframlögum sem ákvörðuð eru af Alþingi – því ríkið hefur fyrir löngu fellt innheimtu sóknargjalda inn í almenna tekjuskattskerfið. Löggjafinn hefur einnig samið lög um starfsemi kirkjunnar þar sem ríkisvaldið hlutast til um starfsemina. Í lögunum segir þó að „Þjóðkirkjan nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka.“ og að „Þjóðkirkjan, einstakar sóknir og stofnanir hennar njóta sjálfstæðrar eignhelgi og koma fram sem sjálfstæðir aðilar gagnvart almannavaldinu eftir því sem við getur átt.“ Þá hafa starfsmenn kirkjunnar fengið greidd laun frá ríkinu á grundvelli einhliða ákvarðana ríkisins um kjör – eins og aðrir ríkisstarfsmenn.
Þrátt fyrir þetta upplegg löggjafans gagnvart kirkjunni hefur ríkið líka samið við kirkjuna eins og hvern annan einkaréttarlegan aðila um uppgjör krafna - með samningi sem felur í sér fjárhagslega skuldbindingu ríkisins gagnvart kirkjunni.
Það er því ekkert skrýtið að margir stoppi við og spyrji sig – er þjóðkirkjan ríkisstofnun eða ekki? Ef þjóðkirkjan er ríkisstofnun er í öllu falli sérkennilegt að ríkið sé á sama tíma að semja við hana um uppgjör krafna og aðrar greiðslur.
Mér virðist einsýnt til framtíðar að þjóðkirkjan verði sjálfstæð eining gagnvart ríkinu – það sé gert í skrefum, í víðtækri sátt og án þess að það komi til einhverrar kollsteypu í málefnum kirkjunnar.
Ég vil einnig nota tækifærið og taka undir þau sjónarmið sem fjármálaráðherra kynnti kirkjuþingi í lok síðasta árs, varðandi fyrirkomulagið á samskiptum ríkis og kirkju og myndi gjarnan vilja að við yrðum öll sammála um:
Í fyrsta lagi, að sú greiðsla sem ríkið greiðir kirkjunni árlega á grundvelli Kirkjujarðasamkomulagsins felur í sér gagngjald fyrir fasteignir. Það framlag verði ekki skert með neinum hætti. Það er mikilvægt að halda þessu skýrlega til haga því í opinberri umræðu heyrast oft raddir sem ganga út frá því að þetta framlag ríkisins sé einhvers konar örlætisgerningur sem megi missa sín. Þetta framlag þarf hins vegar að verða ótengt innri starfsemi þjóðkirkjunnar, svo sem launagreiðslum einstakra starfsstétta eða rekstrarkostnaði.
Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að í samræmi við þessi sjónarmið er gert ráð fyrir framlagi ríkisins til að efna kirkjujarðasamkomulagið í fjárlögum næsta árs og einnig í gildandi fjármálaáætlun. Það er nýmæli því hingað til hefur Alþingi beitt fjáraukalögum til að útvega greiðslu til að efna samkomulagið frá ári til árs.
Í öðru lagi, að kirkjan taki alfarið við eigin starfsmannamálum. Einhverjir kunna að segja að með þeirri breytingu minnki öryggi fyrir presta, að þeir verði ekki lengur ríkisstarfsmenn. En í ljósi þess að lög um kjararáð hafa þegar verið felld úr gildi verður ekki hjá því komist að ákvarðanir um kjör presta verði teknar með einhvers konar samningum – spurningin er einfaldlega, eiga þeir samningar að vera við fjármálaráðuneytið eða við þjóðkirkjuna. Ég tel að best fari á því að þjóðkirkjan verði viðsemjandi prestastéttarinnar.
Í þriðja lagi tel ég að við eigum að reyna að einfalda fjárhagslega umgjörð um samskipti ríkis og kirkju þannig að þær greiðslur sem í dag renna í kristnisjóð, kirkjumálasjóð, jöfnunarsjóð sókna og til höfuðkirkna, fari einfaldlega til kirkjunnar og hún beri sjálf ábyrgð á því hvernig hún verji þessu fé. Ríkið hlutist sem minnst um fjárhagsmálefni hennar eða skiptingu og ráðstöfun fjárframlaga.
Ég leyfi mér að vera bjartsýn á að unnt verði að ná víðtækri sátt um þessi skref. Kirkjan þarf meiri sveigjanleika í sínu starfi og meira sjálfstæði. Bæði til að svara breyttum aðstæðum í samfélagi okkar og ákalli um aukið sjálfstæði kirkjunnar frá ríkisvaldinu. Prestar ættu einnig að fagna því að fá rétt til að gera samninga um eigin kjör, þar sem unnt verður að ná fram meiri sveigjanleika en nú er.
Þeir sem tala fyrir íhaldssemi hvað þetta varðar mega þó ekki láta hana byrgja sér sýn þannig að þeir sjái ekki gallana á fyrra fyrirkomulagi, þegar kjararáð ákvað laun presta. Mér er það nefnilega til efs að því hefði verið tekið fagnandi ef prestar hefðu hingað til samið um laun sín við þjóðkirkjuna, en nú væri lagt til að ríkið ætlaði sér að ákveða þau einhliða í nefnd.
Ég hef átt ágætt samtal við Biskup um fjárhagsmálefni þjóðkirkjunnar og held áfram að vera í góðu sambandi við hana, hennar embætti og aðrar stofnanir kirkjunnar.
Framlag þjóðkirkjunnar til velferðar hér á landi, í víðri merkingu þess hugtaks, hefur verið og verður áfram mikilvægt. Starf prestanna er margþætt og þeir oft kallaðir til á ögurstundu í lífi fólks, þótt fæstir leiði hugann mikið að hversdagslegum störfum þeirra þess á milli.
Ágætu fundarmenn
Það er mikilvægt að ríkið og kirkjan nái sem fyrst saman um að þróa áfram samband sitt og sjálfstæði kirkjunnar innan skynsamlegs ramma sem sátt ríkir um.
En ég vænti þess að þið hér á prestastefnu látið ykkur mun fremur varða ýmis kirkjuleg málefni þó mál prestastéttarinnar komi væntanlega einnig við sögu. Ég vona að ykkur gangi sem allra best með störfin hér og óska ykkur velgengni og blessunar í þeim.