Er þetta forgangsmál - grein í Morgunblaðinu 7. október 2019
„Er þetta nú forgangsmál?“ Þetta er spurning sem sumir spyrja þegar fram koma mál sem lúta að því að auka frelsi einstaklinga. Í hvert einasta skipti sem rætt er um breytingar á áfengislöggjöfinni er spurt hvort það sé forgangsmál og hvort það séu ekki mikilvægari mál sem hægt sé að sinna. Hvernig dettur nokkrum stjórnmálamanni í hug að einbeita sér að þannig máli á meðan fjölmörg önnur og alvarlegri mál kunna að bíða afgreiðslu? Þetta viðhorf einskorðast alls ekki við áfengislöggjöfina og á í raun við um flest frelsismál.
Stutta svarið er: Nei, þetta er ekki forgangsmál, því miður. Það eru óteljandi mál sem ávallt bíða þess að hljóta athygli og afgreiðslu stjórnmálamanna. Vandamálin, bæði raunveruleg og upptöluð, sem bíða þess að ríkið leysi þau eru og verða alltaf til staðar. Það má alltaf bæta hag einhverra hópa í samfélaginu, það þarf að afgreiða fjárlög, það þarf að uppfæra lög um hitt og þetta og það þarf að bregðast við þeim fjölmörgu málum sem koma upp hverju sinni. Allt eru það forgangsatriði hverju sinni.
Það er ekki til það vandamál sem hið opinbera telur sig ekki geta leyst með fjármagni, lagasetningu eða reglugerð. Það má á sama tíma færa rök fyrir því að flest sem þingmenn og ráðherrar senda frá sér felur í sér aukin fjárútlát af hálfu hins opinbera (sem sótt eru í vasa skattgreiðenda) eða einhvers konar form af þvingunum eða takmörkun á því sem einstaklingar og fyrirtæki geta tekið sér fyrir hendur. Lögum og reglugerðum er ætlað að leysa vandamál nútímans og ekki síður möguleg vandamál framtíðarinnar. Með einum eða öðrum hætti rammar ríkið reglulega inn það hvernig við lifum lífi okkar, stundum í þeim tilgangi að verja okkur fyrir okkur sjálfum.
Í öllu þessu gefst sjaldan tími til að velta því fyrir sér hvort hægt sé að minnka ríkisvaldið, t.d. í formi þess að fækka eða afnema lög og reglugerðir. Og þá sjaldan sem það er gert er alltaf hægt að færa rök gegn því að afnema lög, því einhver gæti gert eitthvað sem gengur gegn hugmyndum um móðurhlutverk hins opinbera. Á sama tíma er líka alltaf hægt að benda á eitthvað annað sem mögulega ætti að vera í forgangi.
Frelsismál ættu að vera forgangsmál. Það að lækka skatta, minnka ríkisvaldið eða einfalda líf almennings, með einum eða öðrum hætti, er ekki síður mikilvægur hluti af starfi stjórnmálamannsins. Það eru fjölmargir málaflokkar sem einstaklingar og fyrirtæki eru betur til þess fallin að sinna og það eru til lög og reglugerðir sem eru úr sér gengin. Það að vilja breyta lögum í frelsisátt og treysta almenningi fyrir eigin lífi er mikilvægt viðhorf að hafa. Þær raddir eiga að heyrast og það hátt. Það er forgangsmál.