Á tímamótum – og allan ársins hring - grein í Morgunblaðinu 3. janúar 2020
Í upphafi nýs árs er við hæfi að meta árið sem nú er liðið og horfa til þess hvernig nýja árið lítur út. Árið 2019 var viðburðaríkt og full ástæða er til að horfa björtum augum á árið 2020.
Ísland er á réttri leið og við getum verið full tilhlökkunar gagnvart þeim krefjandi verkefnum sem bíða og nýjum tækifærum til að gera enn betur.
Ríkissjóður hefur aldrei staðið styrkari fótum og vextir hafa lækkað þrátt fyrir samdráttarskeið. Í gegnum þau efnahagslegu áföll, sérstaklega í ferðaþjónustu, sem urðu á árinu sem nú er liðið, hefur verðbólga haldist stöðug og gengið lítið lækkað. Sá grunnur er forsenda þess að hægt sé að vinna áfram að betri lífskjörum allra landsmanna.
Útlitið í efnahagsmálum í upphafi síðasta árs var ekki bjart. Stærsta úrlausnarefnið voru kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Með samstilltu átaki og vegna þeirra skynsamlegu ákvarðana sem teknar voru tókst okkur að afstýra óstöðugleika og bæta lífskjör almennings, einkum hinna lægst launuðu, skapa forsendur fyrir aukinn kaupmátt, lægri vexti og stöðugleika í verðlagsmálum til hagsbóta fyrir alla.
Ríkisstjórnin kom með myndarlegum hætti að lausn kjaradeilunnar og mun áfram stuðla að aukinni velsæld hér á landi. Við höfum lækkað tekjuskatt, lengt fæðingarorlof, aukið barnabætur og stuðning við ungt fólk í húsnæðiskaupum. Allt eru þetta brýn verkefni sem einkum gagnast ungu fólki og hinum tekjulægri. Ég er stolt af því að eiga sæti í ríkisstjórn sem berst fyrir bættum lífskjörum almennings með svo afgerandi hætti.
Máttur samstöðu og gagnkvæms skilnings er mikill og árangursríkur. Það mun ég hafa að leiðarljósi í störfum mínum í dómsmálaráðuneytinu á komandi ári. Þar bíða brýn verkefni á borð við málefni fanga, útlendinga og lögreglu, svo fátt eitt sé nefnt. Sú bjargfasta trú mín að mikilvægt sé að einfalda regluverk öllum til hægðarauka verður leiðarljós mitt á nýju ári – meðal annars í breytingum á lögum um áfengissölu, breytingum á lögum um mannanafnanefnd og bættri þjónustu við almenning.
Sannindin um þýðingu samstöðu og samheldni þjóðarinnar birtist með óvæntum hætti þegar gífurlegt óveður gekk yfir landið í byrjun desember. Þar urðum við vitni að því að þúsundir sjálfboðaliða eru reiðubúnir til að hætta lífi sínu til stuðnings og hjálpar meðborgurum sínum. Allar aðgerðir stjórnmálamanna blikna í samanburði. Þarna sýndu Íslendingar sínar bestu hliðar. Í þeim anda, umhyggju fyrir náunganum, sem er svo stór þáttur í samfélagi okkar, skulum við byggja framtíðina. Fyrir þessa dýrmætu auðlind ber að þakka, ekki eingöngu um áramót heldur allan ársins hring.