Hæstiréttur Íslands 100 ára - grein í Morgunblaðinu 15. febrúar 2019
Í þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga á 19. öld var ein krafan sú að æðsta dómsvaldið yrði flutt til landsins. Það var eðlileg og rökrétt krafa. Sjálfstætt og óháð dómsvald er samofið kenningunni um þrískiptingu ríkisvaldsins sem var grundvöllur frelsishreyfinga á Vesturlöndum á tíma sjálfstæðisbaráttunnar. Hæstiréttur Danmerkur fór með úrslitavald í íslenskum málum allt til ársins 1920. Íslendingar bjuggu við þrjú dómstig fram að þeim tíma því niðurstöðum Landsyfirréttar mátti skjóta til endanlegs dóms í Kaupmannahöfn.
Hæstiréttur Íslands var stofnaður á grundvelli sambandslaganna frá 1918 og er ein helsta táknmynd fullveldisins sem Íslendingar fengu á því ári. Þar kom efnislega fram að Hæstiréttur Danmerkur héldi stöðu sinni sem æðsti dómstóll í íslenskum dómsmálum uns Íslendingar tækju ákvörðun um að stofna eigin hæstarétt. Íslendingar biðu ekki boðanna. Frumvarp var lagt fram á Alþingi sumarið 1919 og það varð að lögum nr. 22/1919. Hæstiréttur tók til starfa 16. febrúar 1920.
Með lögunum um Hæstarétt Íslands urðu mikil kaflaskipti. Úrslitadómsvald í íslenskum málum var flutt til landsins; áfrýjunardómstóllinn, Landsyfirréttur, var lagður niður og ákveðið var að málflutningur fyrir hinum nýja dómstóli skyldi vera munnlegur. Þótt mikil samstaða væri um stofnun réttarins og menn litu á hann sem mikilsverðan áfanga í sjálfstæðisbaráttunni var greinilegt af umræðum í fjölmiðlum á þeim tíma að ýmsir voru uggandi um stöðu hans og óttuðust að hann yrði mjög vanbúinn í samanburði við Hæstarétt Danmerkur. Var ekki aðeins verið að bæta tveimur dómurum við þrjá dómara Landsyfirréttarins og breyta nafninu? Hinn mikilvægi varnagli, Hæstiréttur Danmerkur, yrði ekki lengur til staðar. Stærsti kostur hans væri fjarlægðin frá mönnum og flokkadráttum á Íslandi.
En, fjarlægðin var reyndar einnig stærsti ókosturinn við að hafa æðsta dómstól íslenskra mála í Kaupmannahöfn. Dómendur höfðu ekki vald á tungumálinu á dómskjölunum sem varð því að þýða yfir á dönsku. Þá voru samgöngur stirðar og gat komið fyrir að 5-6 ár liðu frá dómi Landsyfirréttar til endanlegrar niðurstöðu Hæstaréttar. Staðreyndin var því sú að mjög fáum málum var í raun skotið til Danmerkur.
Vissulega bjó Hæstiréttur Íslands lengi við erfið skilyrði. Dómurum var t.d. fækkað niður í þrjá í sparnaðarskyni aðeins örfáum árum eftir stofnun réttarins og þeir urðu ekki aftur fimm fyrr en tveimur áratugum síðar. Hatrammar deilur hafa á stundum blossað upp um skipan dómara og um niðurstöður einstakra mála. En, Hæstiréttur hefur eigi að síður áunnið sér álit og traust landsmanna og býr nú við hin ágætustu skilyrði. Enginn þarf að efast um sjálfstæði hans sem æðsta handhafa einnar af þremur greinum ríkisvaldsins.
Þegar við fögnum 100 ára afmæli Hæstaréttar Íslands hefur sú meginbreyting orðið á stöðu hans að dómstigin eru aftur orðin þrjú líkt og þau voru fyrir stofnun hans. Nýr áfrýjunardómstóll, Landsréttur, tók til starfa fyrir tveimur árum. Með stofnun hans var Hæstarétti skapað svigrúm til að gegna hlutverki sem æðsti dómstóll þjóðarinnar. Í því felst að hann tekur til meðferðar mál þar sem mikilvæg og vandasöm lögfræðileg viðfangsefni eru til úrlausnar. Með stofnun Landsréttar var einnig brugðist við veikleika í íslensku dómskerfi er sneri að endurskoðun dóma á áfrýjunarstigi vegna meginreglunnar um beina og milliliðalausa sönnunarfærslu.
Það voru ekki síst athugasemdir frá Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) sem leiddu til stofnunar Landsréttar. MDE hefur haft margvísleg og jákvæð áhrif á íslenskan rétt enda er hann stefnumarkandi við túlkun á ákvæðum mannréttindasáttmálans (MSE) sem hefur lagagildi hér á landi. Nefna má að það var fyrir áhrif MDE að fullur aðskilnaður varð loks á milli framkvæmdavalds og dómsvalds í héraði fyrir 30 árum. Áhrif dómsins hafa verið margvísleg síðan og enn lætur hann til sín taka. Fyrir efri deild dómsins er til meðferðar mál er varðar skipun dómara við Landsrétt. Mörgum þykir sem neðri deild dómsins hafi hafnað niðurstöðu Hæstaréttar Íslands án fullnægjandi rökstuðnings. Málinu var því skotið til efri deildar dómsins. Endanlegrar niðurstöðu er vonandi að vænta áður en langt um líður og hún verður tekin til skoðunar af íslenskum stjórnvöldum hver svo sem hún verður.
Þótt margt hafi þróast til betri vegar í störfum og starfsumhverfi Hæstaréttar á liðnum árum og áratugum verður ekki hjá því komist að nefna hve seint og illa hefur reynst að tryggja jafnræði kynjanna meðal dómara réttarins. Á 100 ára afmælinu eru aðeins 2 dómarar af 7 konur. Karlar voru áður mun fleiri en konur í hópi lögfræðinga. Sú staða hefur gjörbreyst. Konur eru nú mjög áberandi á meðal lögmanna, dómara og kennara í lagadeildum háskólanna. Vonandi kemur því til þess fyrr en síðar að jafnrétti kynjanna verði tryggt hvað varðar dómaraskipun við æðsta dómstól þjóðarinnar.
Hæstiréttur Íslands er sem fyrr táknmynd fullveldis þjóðarinnar en það er ekki síður mikils um vert að hann sé táknmynd réttaröryggis, frelsis og friðhelgi borgaranna.