Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. mars 2020 DómsmálaráðuneytiðÁslaug Arna Sigurbjörnsdóttir

Ljótur en ekki Skallagrímur - grein í Morgunblaðinu 28. febrúar 2020

Flest­ir kann­ast við þá fleygu setn­ingu „að fjórðungi bregði til föður, fjórðungi til móður, fjórðungi til fóst­urs og fjórðungi til nafns“. Þarna kem­ur fram sú sýn að nöfn skipti miklu máli. Það sé heilla­væn­legt að skíra barnið í höfuðið á ein­hverri ákveðinni fyr­ir­mynd. Þetta geta verið afar eða ömm­ur, frænd­ur eða frænk­ur eða ein­hverj­ir allt aðrir sem búa yfir ein­hverj­um þeim kost­um sem prýða viðkom­andi ein­stak­ling í huga þeirra sem velja nafn fyr­ir barnið.

Ég nefni þetta til að und­ir­strika að eng­um sé bet­ur treyst­andi til að velja barni nafn en ein­mitt þeim sem bera ábyrgð á upp­vexti og öllu at­læti þess. Rétt­ur­inn til nafns er mjög rík­ur og einnig rétt­ur­inn til að velja og ákveða nafn viðkom­andi einstaklings.
Í sam­ráðsgátt stjórn­valda er frum­varp sem ég hyggst leggja fram um ný manna­nafna­lög. Með frum­varp­inu er stefnt að því að draga úr af­skipt­um op­in­berra aðila af nafn­gift­um með hliðsjón af friðhelgi einka­lífs. Frelsi við nafn­gjöf verður aukið og tak­mark­an­ir af­numd­ar varðandi skrán­ingu nafna, bæði eigin­nafna og kenni­nafna.
Nú­gild­andi lög um manna­nöfn hafa verið í gildi í tæp­an ald­ar­fjórðung. Lög­in hafa sætt tölu­verðri gagn­rýni og hafa þótt helst til ströng. Snýr gagn­rýn­in ekki síst að erfiðleik­um við að fá nöfn skráð hér á landi ef þau eru ekki fylli­lega í sam­ræmi við ís­lenska mál­hefð og rit­hátt. Mörg ákvæði í lög­un­um þykja ekki hafa fylgt þeim miklu breyt­ing­um sem orðið hafa á síðustu árum á sam­setn­ingu þjóðfé­lags­ins.
Í frum­varp­inu er lagt til að ekki verði tak­mörk á fjölda eig­in­nafna og kenni­nafna. Þeim sem eru 15 ára og eldri er tryggður sjálfs­ákvörðun­ar­rétt­ur þegar kem­ur að nafn­breyt­ing­um, auk þess sem leit­ast er við að tryggja bet­ur rétt yngri barna til að taka þátt í slíkri ákvörðun. Felld­ar verða niður regl­ur um að eig­in­nöfn skuli geta tekið ís­lenska eign­ar­fallsend­ingu eða hafa unnið sér hefð í ís­lensku máli. Einnig er fellt brott ákvæði um að nafn megi ekki brjóta í bága við ís­lenskt mál­kerfi og að það skuli ritað í sam­ræmi við al­menn­ar rit­regl­ur. Tak­mark­an­ir á notk­un er­lendra nafna falla niður og ætt­ar­nöfn verða leyfð að nýju. Loks er lagt til í frum­varp­inu að manna­nafna­nefnd verði lögð niður.
Ef við treyst­um fólki til að ala upp börn sín verðum við líka að treysta því til að gefa þeim nafn. Fjöl­mörg dæmi eru um nöfn sem ekki hafa feng­ist samþykkt og dæmi um nöfn sem þegar eru leyfð, eins og vísað er í hér í fyr­ir­sögn. Enn verður þó ákvæði í lög­un­um um að nafn barns megi ekki vera því til ama.
Íslensk manna­nafna­hefð varð ekki til og verður ekki viðhaldið með laga­setn­ingu. Rétt­ur ein­stak­lings til nafns er rík­ari en réttur rík­is­valds­ins til að tak­marka hann.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta