Við erum öll almannavarnir - grein í Morgunblaðinu 18. mars 2020
Við lifum á miklum óvissutímum. Heimsfaraldur geisar og hann mun reyna á þolgæði okkar allra. Frá því að faraldurinn hófst í Kína hafa sérfræðingar í sóttvörnum og fulltrúar okkar í almannavörnum unnið mikið starf við að greina vandann og leggja fram áætlanir um það hvernig skynsamlegt sé að bregðast við. Þeir hafa stýrt aðgerðum og farist það verkefni vel úr hendi.
Áhersla stjórnvalda og framlínufólks almannavarna er að dreifa smitálagi með þeim hætti að verja veikustu hópana og teygja á smitkúrfunni þannig að heilbrigðiskerfið ráði sem best við að sinna þeim sem veikastir verða í faraldrinum. Smit í samfélaginu er óhjákvæmilegt, en mikilvægast er að smitið sé hjá þeim sem ólíklegastir eru til að fá alvarleg einkenni.
Þetta er gert með markvissum og tímasettum inngripum eins og því samkomubanni sem nú stendur yfir. Fyrsta áskorunin til okkar var almenn smitgát. Handþvottur, sprittun, fjarlægð frá næstu manneskju og gott hreinlæti eru áhrifaríkar leiðir til að koma í veg fyrir smit. Með því að vera öll almannavarnir náum við bestum árangri.
Öll eigum við einhvern náinn sem telst í meiri áhættu af því að veikjast illa af Covid-19 veirunni. Þess vegna er mikilvægt að við höldum áfram að vanda okkur og verja þá sem veikastir eru fyrir. Við þekkjum það öll að finna fyrir ótta, ýmist vegna okkar sjálfra eða þeirra sem næst okkur standa. Óttinn má hins vegar ekki stjórna okkur.
Það er aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig þorri fólks hefur brugðist við af yfirvegun og skynsemi og ekki látið óttann ná yfirhöndinni. Við þurfum á því að halda og munum þurfa þess áfram. Hvernig við bregðumst við í mótlæti segir mikið um okkur sjálf.
Við sjáum fólk taka við sér víða um samfélagið og leggja hönd á plóg til að gera þessa tíma bærilegri. Fjöldi heilbrigðisstarfsmanna hefur svarað kalli landlæknis um skráningu til að mæta aukinni þörf og einstaklingar og fyrirtæki bjóða fram hjálp við ýmis mikilvæg verkefni.
Við erum öll almannavarnir. Smæð samfélagsins hjálpar okkur að takast á við þetta. Það myndi þó aldrei duga eitt og sér ef ekki kæmi til hugarfar kjarks og ábyrgðar. Okkur ber skylda til að leggja okkar af mörkum og það sjáum við að fólk gerir í stórum stíl.
Þjóðin hefur staðið sameinuð til þessa í viðbrögðum við þessum vágesti. Ég hef fulla trú á að svo muni áfram verða. Stjórnvöld, sérfræðingar og allur sá fjöldi sem sinnir almannavörnum leggja mikið á sig til að allt megi fara eins vel og hægt er. Þeim ber að þakka, en ekki síður almenningi fyrir sitt framlag. Þessi staða hefur kallað fram það besta í okkur sem þjóð, samstöðu, samheldni og kærleika. Á þeim grunni förum við í gegnum þetta saman.