Við stefnum í eðlilegt horf - gein í Morgunblaðinu 25. maí 2020
Undanfarnar vikur höfum við fengið að kynnast því sem ekkert okkar hafði gert sér í hugarlund fyrir aðeins nokkrum mánuðum, að lifa við mikla skerðingu á daglegu frelsi. Við höfum ekki getað hitt eldri ættingja, farið í líkamsrækt, knúsað litlu systur, haldið fermingarveislur né ferðast óhindrað milli landa. Það er merkilegt að sjá þann samtakamátt sem þjóðin hefur sýnt og við sjáum nú þegar merki þess að flestir vilja leggja sitt af mörkum til að fara verlega á meðan ógnin af veirunni varir enn.
Við erum öll staðráðin í því að láta lífið halda áfram. Í dag taka í gildi miklar afléttingar á þeim takmörkunum sem hér hafa verið frá 13. mars. Það er mikilvægt að tryggja að þau höft og takmarkanir sem nauðsynlegt hefur verið að grípa til festi sig ekki í sessi til lengri tíma. Þrátt fyrir að þær hafi verið minni en víða um heim og við lifum við meira frelsi frá og með deginum í dag finnst okkur nóg um.
Aðgerðir stjórnvalda miða að því að færa þjóðlífið smám saman í eðlilegt horf þótt veiran muni mögulega koma að einhverju marki upp aftur. Samkomur með allt að 200 manns eru nú leyfðar, skilgreiningin á tveggja metra reglunni er breytt og miðast nú einungis við að fólk geti átt þess kost að virða hana kjósi það svo. Þá verða líkamsræktarstöðvar opnaðar ásamt skemmtistöðum og krám með ákveðnum takmörkunum.
Baráttan við óþekkta sjúkdóminn COVID-19 hefur gengið vel hér á landi, allt hefur miðað að því að vernda líf og heilsu fólks og nú eru einungis þrjú virk smit í landinu. Afleiðingar þeirra viðbragða sem farið hefur verið í um heim allan fela í sér gríðarlegan samdrátt í hagkerfum heimsins sem ekki verður búið við til langframa. Nú leggjum við allt kapp á að ræsa hagkerfið aftur, tryggja störf og hagvöxt til framtíðar. Þannig aukum við lífsgæðin enn frekar hér á landi.
Það eru rúmir tveir mánuðir frá því að samkomubann var sett á hér á landi. Það er ekki langur tími í sögulegu samhengi en þetta er engu að síður tími sem við gleymum seint. Við vitum hvað við höfum í frelsinu, hvað við höfum í samskiptum við okkar nánustu, möguleikana á því að koma saman og ferðast og þannig mætti lengi áfram telja. Við vitum að við viljum halda í þetta frelsi og aðeins hamfarir eða skæðar sóttir geta tekið það frá okkur – þó alltaf vonandi tímabundið. Í dag förum við af neyðarstigi almannavarna yfir á hættustig og ég er þess fullviss að allir hafi vilja til þess að leggja áfram sitt af mörkum til að takast á við þetta verkefni. Þannig höfum við náð árangri fram til þessa.