Óviðunandi refsiauki
Tíminn sem líður frá því dómur fellur og þar til afplánun hefst var að meðaltali nær 17 mánuðir á síðasta ári. Dómþolar hafa þurft að bíða í allt að þrjú ár þar til þeir geta hafið afplánun. Þessi staða er óviðunandi.
Í ljósi framangreinds skipaði ég sérstakan starfshóp til að fara yfir þessi mál og koma með tillögur til úrbóta. Vinna hópsins skilaði sér í vandaðri skýrslu þar sem grunnur er lagður að leiðum til lausnar vandans. Á grundvelli vinnu starfhópsins hef ég því ákveðið að hefja úrbætur sem leiða eiga til þess að hægt sé að stytta boðunarlista.
Flestum er þungbært að vera dæmdir til refsingar. Þegar við bætist langur biðtími eftir því að greiða skuld sína við þjóðfélagið er ekki hægt að líta á það öðruvísi en sem refsiauka. Biðin veldur auknu álagi, angist og kvíða, ekki aðeins hjá dómþola sjálfum heldur einnig þeim sem næst honum standa. Margir hafa jafnvel snúið af þeirri braut sem leiddi til hinnar refsiverðu háttsemi, jafnvel náð bata frá áfengis- og vímuefnaneyslu og stofnað fjölskyldu þegar þeim er loks gert að hefja afplánun dóms.
Refsingar eru ekki einfalt mál og sífellt umræðuefni hversu þungar þær eigi að vera. Í fræðilegri umræðu um tilgang og eðli refsinga koma fyrir hugtök eins og réttlæti, betrun og varnaraðráhrif refsinga. Á síðari árum hefur betrunarhugtakið fengið æ meira vægi og áherslan í fangelsismálum lotið að því að þeir sem víkja af vegi dyggðarinnar læri af mistökum sínum og endurtaki ekki brot sín.
Í tillögum starfshópsins er öðru fremur horft til vægari brota sem leiða af sér skemmri fangelsisdóma. Þau úrræði sem boðuð eru lúta að því að styðja þá sem dæmdir hafa verið til þess að byggja sig upp á ný.
Aukin samfélagsþjónusta, reynslulausn og sáttamiðlun eru meðal þeirra leiða sem hægt er að nýta til að stytta boðunarlista. Sáttamiðlunin er dæmi um áhugaverða leið til þess að þeir sem hafa brotið af sér horfist í augu við brot sitt og afleiðingar þess og geti náð sátt við brotaþola án þess að til hefðbundinnar refsingar komi. Slíkt verður þó ávallt háð vilja þess sem brotið var á.
Með skynsamlegum lausnum er hægt að spara, bæði í réttarkerfinu og fangelsismálum. Tryggja mannúðlega nálgun gagnvart brotamönnum án þess að slakað sé á kröfum okkar um að hver og einn taki afleiðingum gjörða sinna.