Tvær útskýringar, einn sannleikur - grein í Morgunblaðinu í
Sigrún Davíðsdóttir, pistlahöfundur hjá Ríkisútvarpinu, kaus í fréttaskýringu sinni, sama dag og skýrslan birtist, að gera lítið úr því sem gert hefur verið á vegum dómsmálaráðuneytisins og lét í veðri vaka að þar væri hvorki áhugi né vilji á aðgerðum gegn spillingu.
Talsmaður GRECO fór á hinn bóginn lofsamlegum orðum um vinnu ráðuneytisins og lagði áherslu á að þetta ferli tæki sinn tíma. Í viðtali við Fréttablaðið sl. þriðjudag segir Gianluca Esposito, einn höfunda GRECO-skýrslunnar: „Það er ekki búið að innleiða tillögurnar en við tökum til greina að dómsmálaráðherra hóf nýverið mjög yfirgripsmikla endurskipulagningu á lögreglunni og öðrum embættum löggæslu. Það er einnig í gangi endurskoðun. Mér skilst að okkar tillögur sem miða að því að tryggja að engin pólitísk afskipti séu höfð af löggæslu verði innleiddar í gegnum þessi tvö ferli. […] Ég er mjög ánægður með að sjá að þetta sé [í] ferli.“
Greiðendur útvarpsgjaldsins eiga rétt á því að greint sé rétt frá. Ýmislegt hefur verið aðhafst í málefnum lögreglunnar undanfarið og frekari breytingar til hins betra eru framundan.
Tekist hefur að lægja átök og deilur innan æðstu stjórnar lögreglunnar. Nýr ríkislögreglustjóri og nýir lögreglustjórar hafa verið skipaðir í stærstu lögregluembættunum að undangengnu faglegu mati óháðra hæfnisnefnda. Lögregluráð, sem starfar undir forstöðu ríkislögreglustjóra, var stofnað til að efla liðsheildina.
Unnið hefur verið að breytingum á lögreglulögum og í frumvarpi sem nú er í lokavinnslu er lögð áhersla á að efla sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu og rannsóknir þegar upp kemur grunur um refsiverða háttsemi lögreglumanna. Áfram verður unnið að frekari breytingum á lögreglulögum þar sem einkum er litið til þess að skilgreina boðvald og valdmörk ríkislögreglustjóra gagnvart öðrum lögreglustjórum og auka sjálfstæði lögreglunnar. Þessar áherslur mínar eru í samræmi við tilmæli GRECO og ábendingar í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um embætti ríkislögreglustjóra.
Allt er þetta í eðlilegum farvegi. Þetta veit talsmaður GRECO en fréttamaður „útvarps allra landsmanna“ kaus á hinn bóginn að afflytja málið og lýsa pólitískri afstöðu án tengsla við staðreyndir.