Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. febrúar 2021 DómsmálaráðuneytiðÁslaug Arna Sigurbjörnsdóttir

Lítil en mikilvæg skref - grein í Morgunblaðinu í febrúar 2021

Nú er liðið tæpt 31 ár frá því bjór var leyfður á Íslandi, en hann hafði þá verið bannaður í rúm 70 ár. Sjálfsagt myndu fáir vilja banna hann á ný í dag og þrengja þannig að valfrelsi einstaklinga. Það er hins vegar rétt að hafa í huga að afnám bjórbannsins varð ekki til af sjálfu sér. Til þess þurfti dugmikla baráttu manna og kvenna sem kusu að treysta því að Íslendingar gætu sjálfir tekið ákvörðun um eigið líf, þar með talið drykkjarmenningu. Þarna var stigið skref í átt að auknu frelsi. Öll slík skref skipta máli.

Á undanförnum áratug hefur smærri brugghúsum, handverksbrugghúsum, fjölgað mikið um allt land. Þau eiga það sammerkt að leggja áherslu á minni framleiðslu, gæði og sjálfstæði. Samhliða þessari þróun hefur eftirspurn og áhugi almennings á innlendri bjórframleiðslu aukist verulega. Endurspeglast það meðal annars í umtalsverðri fjölgun á íslenskum bjórtegundum. Fyrir utan aukna fjölbreytni í vöruúrvali hafa húsin skapað ný störf og nýja veltu í hagkerfinu okkar.

Í frumvarpi til breytinga á áfengislögum sem ég hef lagt fram verður minni brugghúsum veitt leyfi til sölu áfengs öls á framleiðslustað. Breytingin mun styrkja rekstur smærri brugghúsa, sérstaklega á landsbyggðinni, sem eiga erfitt með að koma vörum sínum að í ÁTVR. Áfram gilda strangar reglur um leyfisveitingu og eftirlit og sveitarstjórnir munu hafa ákvörðunarvald um hvort smásala á framleiðslustað fari fram innan sveitarfélagsins. Ekki hefur náðst samstaða um breytingar á íslenskri netverslun.

Frumvarpið tekur mið af sjónarmiðum þeirra sem vilja aukið frjálsræði í verslun með áfengi sem og þeirra sem kjósa aðhaldssama áfengisstefnu. Það felur ekki í sér tillögur um breytingu á áfengisstefnu eða breyttum áherslum í lýðheilsumálum. Á síðastliðnum árum og áratugum hefur fjöldi sölustaða áfengis aukist umtalsvert og á það bæði við um fjölda verslana ÁTVR sem og fjölda vínveitingaleyfa. Fjölgun útsölustaða hefur ekki haft í för með sér samsvarandi aukningu á áfengisneyslu þjóðarinnar.

Frumvarpið felur ekki bara í sér tæknilegar útfærslur á því hvort og hvernig selja megi áfengi, í þessu tilviki bjór, heldur er hér um mikilvægt frelsismál að ræða. Við eigum að treysta fólki til að taka ákvarðanir um eigið líf og það þurfa að vera afskaplega góð rök fyrir því að skerða valfrelsi almennings í þessum málum sem og öðrum. Ríkisvaldið á ekki að ákveða hvað, hvort og hvernig landsmenn neyta drykkjarfanga og það er ekkert sem kallar á að reglur hér á landi séu mun strangari en annars staðar. Það er nauðsynlegt að stíga skref sem þessi, þau eru mikilvæg og mættu vera fleiri, jafnvel þótt þau séu smá.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta