Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. maí 2021 DómsmálaráðuneytiðÁslaug Arna Sigurbjörnsdóttir

Skilvirkar aðgerðir gegn skipulögðum glæpum - grein í Morgunblaðinu í maí 2021

Eitt mikilvægasta verkefni lögreglunnar á næstu árum er baráttan gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Lögreglan telur að 15 slíkir hópar séu að störfum í landinu. Margir þeirra stunda rekstur samhliða lögbrotunum til að styðja við ólöglegu starfsemina og til að þvætta peninga. Hóparnir eru af ýmsum þjóðernum og starfa flestir bæði innanlands og utan.

Þessi veruleiki kallar á nýja nálgun í löggæslu og afbrotavörnum. Í stað þess að afbrot séu öðru fremur tilfallandi verknaðir einstaklinga, stundum undirbúin og framin af yfirlögðu ráði, þá þarf lögregla nú að takast á við hópa manna sem nálgast afbrot og ólöglega starfsemi eins og viðskipti eða rekstur.

Í tíð minni sem dómsmálaráðherra hef ég lagt sérstaka áherslu á að styrkja og efla lögregluna til að takast á við þessa ógn. Lögreglan verður að hafa burði, getu og þekkingu til að takast á við þau flóknu verkefni sem við blasa í harðnandi heimi af völdum skipulagðrar glæpastarfsemi.

Breytt vinnubrögð og nýjar áherslur

Nýr veruleiki kallar á breytingar á vinnubrögðum lögreglu. Landfræðilega afmörkuð lögreglulið sem horfa aðeins þröngt á einstaka brotaflokka án samhengis við önnur afbrot ná ekki árangri í baráttu við þessa hópa. Starfsemi þeirra teygir anga sína víða og felur í sér ýmiss konar afbrot á borð við fíkniefnabrot, peningaþvætti, mansal og ógnanir.

Ég hef lagt áherslu á að lögreglan endurskoði og breyti því samstarfi sem verið hefur á milli einstakra lögregluliða. Sett hefur verið á stofn lögregluráð sem fundar reglulega um samstarf lögregluliðanna og sameiginleg mál lögreglunnar. Í fyrsta skipti frá stofnun embættis ríkislögreglustjóra árið 1997 hefur verið sett reglugerð um embættið þar sem m.a. er kveðið á um hlutverk, verkefni og samskipti þess við önnur lögregluembætti.

Samnýting mannafla og aukin skilvirkni

Síðastliðið sumar fól ég ríkislögreglustjóra að efla sérstaklega samstarf innan lögreglu með því að samnýta mannafla og búnað í því skyni að vinna markvissar að aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi. Fundir voru haldnir með fulltrúum stærstu lögregluembættanna til að auka samhæfingu og samvinnu innan lögreglunnar. Lögð var áhersla á að setja aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi í forgang og efla samstarf á milli lögregluembætta með því að leggja til mannafla í sameiginlegan aðgerða- og rannsóknarhóp.

Sérstakur stýrihópur var stofnaður, skipaður fulltrúum embætta ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórans á Suðurnesjum og héraðssaksóknara. Markmið stýrihópsins er að tryggja samræmingu og samhæfingu lögreglu á landsvísu til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi og efla upplýsingaskipti milli embættanna. Stýrihópurinn hefur verið að störfum undanfarna mánuði og hefur það hlutverk að veita lögreglustjórum stuðning í málum er varða skipulagða brotastarfsemi, efla samvinnu milli lögreglustjóra og samræma verklag. Hann vinnur jafnframt að því að efla fræðslu til lögreglustjóra og hafa yfirsýn í málaflokknum. Þá er það enn fremur hlutverk hópsins að veita öðrum lögregluembættum aðstoð þegar um skipulagða brotastarfsemi er að ræða.

Nýverið voru samþykktar verklagsreglur ríkislögreglustjóra um samstarf lögregluembætta og annarra viðeigandi stjórnvalda í aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi. Með stofnun stýrihópsins hafa umrædd embætti sett málaflokkinn í ákveðinn forgang með því að verja mannafla, búnaði og öðrum aðföngum lögreglu til verkefnisins.

Auknir fjármunir og aukið samstarf

Hvað varðar fjárhagslega getu lögreglunnar til að sinna verkefnum á þessu sviði hefur lögreglan byggt upp búnað og tæki með fjármunum – um 350 milljónum króna – sem komu í hlut íslensku lögreglunnar sem upptökuandlag svonefnds „Silk Road“-máls. Einnig má nefna að sá slaki sem fækkun ferðamanna skapaði hefur að hluta til verið nýttur til að berjast gegn skipulagðri brotastarfsemi. Á síðasta ári reyndist unnt að setja meiri fjármuni en ella í rannsóknir á þessu sviði – raunar meiri fjármuni en áður hefur þekkst. Það er áskorun til framtíðar að viðhalda þeirri getu eftir að störf lögreglu færast í hefðbundnara horf.

Þess ber einnig að geta að á árinu 2019 var lagt 80 m.kr. framlag til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu með sérstakri áherslu á aðgerðir gegn fíkniefnasölu, innflutningi og framleiðslu. Með fjárlögum 2020 var framlagið gert varanlegt. Embættið er því betur í stakk búið til til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi og styrkja rannsóknir á skipulögðum brotahópum bæði hvað varðar rannsóknir, beitingu sérstakra rannsóknaraðferða sem og í fjármálagreiningar og peningaþvættisrannsóknir.

Bætt lagaumhverfi

Á undanförnum árum hefur verið unnið að lagabreytingum sem miða að því að efla getu lögreglunnar í aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi. Í því sambandi má nefna umfangsmiklar breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og öðrum lagabálkum sem tengjast þeim aðgerðum. Árið 2019 voru sett lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi auk þess sem sérstök lagastoð fyrir vinnslu og miðlun persónuupplýsinga var sett í lögreglulögin. Þá voru nýlega sett lög um breytingu á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum sem miða einkum að því að gera málsmeðferð þeirra mála skilvirkari.

Auk framangreinds ber að geta þess að frumvarp til breytinga á lögreglulögum var samþykkt á Alþingi á þriðjudag. Þar er lagt til að efla og skýra heimildir lögreglu til alþjóðlegs samstarfs og samráð lögreglu lögfest. Þá er frumvarp um breytingu á mansalsákvæði hegningarlaganna til meðferðar á Alþingi. Mansal tengist ýmislegri skipulagðri brotastarfsemi og megintilgangur frumvarpsins að bæta vernd þolenda þessara brota.

Alþjóðlegt samstarf og öflug liðsheild

Í nýlegum skýrslum Europol hefur verið lýst áhyggjum af framvindu mála í mörgum löndum Evrópu. Skipulögð brotastarfsemi kallar á aukna samvinnu og samstarf löggæsluyfirvalda þvert á landamæri. Við munum halda áfram á þeirri braut að styrkja lögreglunna, hæfni hennar og getu, til að koma fram sem ein öflug liðsheild í þessari baráttu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta