Greining á útgjöldum
Alls námu heildarútgjöld árið 2023, til þeirra málaflokka sem félags- og vinnumarkaðsráðherra ber ábyrgð á, 287.324 milljónum kr. Fjárheimildir voru 288.573 milljónir kr.
- Ábyrgð á málefnasviðum 28 og 30 er alfarið hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.
- Á málefnasviðum 27 og 29 eru málaflokkar sem tilheyra öðrum ráðuneytum og eru útgjöld þeirra tilgreind hjá viðkomandi ráðuneytum.
- Málefnasvið 10 tilheyrir dómsmálaráðuneyti að frátöldum hluta af málaflokki 10.5 sem tilheyrir félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu
- Málefnasvið 22 fellur undir ábyrgð mennta- og barnamálaráðuneytis að frátöldum hluta af málaflokki 22.2 sem tilheyrir félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.
- Málefnasvið 32 tilheyrir þremur ráðuneytum og er einn málaflokkur þar á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.
Málaflokkur 10.5 Útlendingamál
Málaflokkurinn er í heildina 779 milljónum kr. umfram fjárheimild eða 7,8%. Í janúar 2024 fékk liðurinn umsækjendur um alþjóðlega vernd framlag af almennum varasjóði til að mæta þeim halla sem myndast hafði í árslok 2023 vegna aukins kostnaðar vegna flóttafólks. Eftir það framlag og áður en bókhaldi vegna 2023 var lokað bættust við leiðréttingarfærslur sem mynda neikvæða afkomu upp á 715 milljónir kr. auk 64 milljón kr. halla frá fyrra ári.
Málefnasvið 27 Örorka og málefni fatlaðs fólks
Í heild eru útgjöld málefnasviðs 27, Örorka og málefni fatlaðs fólks, 93,3 milljarðar kr. en heildarfjárheimildir ársins voru 96,2 milljarðar kr. Afkoman er jákvæð um 2,9 milljarða eða sem nemur 3%.
Greiðslur vegna örorku falla á þrjá málaflokka, málaflokk 27.1, sem eru bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, málaflokk 27.2 sem eru bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og málaflokk 27.4 sem eru aðrar greiðslur vegna örorku. Þannig getur einstaklingur með örorku fengið samsettar greiðslur úr tveimur til þremur málaflokkum. Telur ráðuneytið því rétt að gera grein fyrir útgjöldum málaflokkanna þriggja saman.
Á árinu 2023 varð ekki sú fjölgun í hópi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir og skýrir það jákvæða afkomu málaflokkanna þriggja. Ekki er ljóst hvort um varanlega eða tímabundna breytingu er að ræða á nýgengi örorku og þarf lengra tímabil til að meta slíkt. Líkur eru þó á að áhersla síðustu ára á endurhæfingu og vinnumarkaðsúrræði hafi umtalsverð áhrif á nýgengi örorku. Unnið er að endurmati á þeim forsendum fjárlaga sem lúta að árlegri fjölgun örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Útgjöld málaflokkanna jukust um 1,2 milljarða kr. vegna hækkunar bóta um 2,5% frá 1. júlí 2023, 1,6 milljarða kr. vegna eingreiðslu til örorkulífeyrisþega sem var ákvörðuð af Alþingi og um 500 milljónir kr. vegna lokagreiðslna til örorkulífeyrisþega í kjölfar hæstaréttardóms í máli nr. 52/2021 um framfærsluuppbót. Til að standa straum af útgjaldaauka sem af þessu hlaust var fjárheimild hækkuð um 2 milljarða kr. í fjáraukalögum.
Málaflokkur 27.3 Málefni fatlaðs fólks
Gjöld málaflokksins eru í heildina 27 milljónum kr. undir fjárheimildum eða sem nemur 2%. Undir málaflokkinn falla tvö verkefni, framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks og starfsemi réttindagæslu fatlaðs fólks. Afgangur af rekstri og starfsemi réttindagæslu fatlaðs fólks er um 15 milljónir kr. Afgangur vegna framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks er rétt um 13 milljónir kr. en þar gjaldfærast meðal annars greiðslur vegna 25% hlutdeildar ríkisins í heildarkostnaði vegna NPA-samninga.
Málefnasvið 28 Málefni aldraðra
Í heild eru útgjöld málefnasviðs 28, Málefni aldraðra, 107,4 milljarðar kr. en heildarfjárheimildir ársins voru 115 milljarðar kr. Afkoma málefnasviðsins er jákvæð um 7,6 milljarða eða 6,6%.
Á málefnasviðinu eru þrír málaflokkar vegna greiðslna til ellilífeyrisþega. Málaflokkur 28.1 eru bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, málaflokkur 28.2 eru bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og málaflokkur 28.3 eru þjónusta við aldraða og aðrar greiðslur ótaldar. Hækkun bóta almannatrygginga um 2,5% frá 1. júlí 2023 jók útgjöld bótaliða ellilífeyris um tvo milljarða kr. Ef ekki hefði komið til hækkunar bóta um mitt árið hefði afkoma málefnasviðsins verið jákvæð um 9,6 milljarða kr. Ástæður þessa mikla afgangs má fyrst og fremst rekja til hærri lífeyrissjóðs- og fjármagnstekna ellilífeyrisþega.
Málaflokkur 28.3 er 72 milljónum kr. undir fjárheimildum eða um 14,7%. Eftirlaunasjóður aldraðra, 07-831-110, heldur áfram að dragast saman og gert er ráð fyrir að hann falli niður á næstu árum. Fjárhæðir sjóðsins eru mjög lágar þannig að lág frávik í krónum talið, gefa há hlutfallsleg frávik. Greiðslur vegna félagslegs viðbótarstuðnings urðu lægri en gert hafði verið ráð fyrir og er afgangur þar um 61 milljón kr.
Málefnasvið 29 Fjölskyldumál
Í heild eru útgjöld málefnasviðsins 36,5 milljarðar kr. en heildarfjárheimildir ársins voru 35,5 milljarðar kr. Afkoma málefnasviðsins er því neikvæð um 1 milljarð kr. eða 2,9%. Það sem veldur neikvæðri afkomu málefnasviðsins má rekja til útgjalda í málaflokki 29.7 en umfjöllun um afkomu hans fylgir hér á eftir.
Málaflokkur 29.2 Fæðingarorlof
Útgjöld vegna fæðingarorlofs eru um 2,3 milljörðum kr. innan fjárheimilda á árinu 2023 eða 9,1%.
Fæðingarárin 2020 (4.512) og 2021 (4.879) voru stór m.t.t. fjölda lifandi fæddra barna. Fæðingum fækkaði þó nokkuð 2022 (4.391) og vísbendingar eru um að fjöldinn 2023 sé svipaður og árið áður þó enn liggi ekki fyrir staðfestar tölur frá Hagstofu Íslands. Í fjárlögum 2023 kom 2,6 ma.kr. viðbótarfjárheimild inn í ramma málaflokksins. Virðist sem hún hafi verið ofmetin að einhverju leyti.
Málaflokkur 29.3 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, fjölskyldur
Undir málaflokk 29.3 falla greiðslur bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem eru mæðra- og feðralaun. Afgangur í árslok er 64 milljónum kr. eða sem nemur 11,8%.
Málaflokkur 29.4 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn
Gjöld málaflokksins eru í heild 450 milljónum kr. yfir heildarfjárheimildum ársins eða 6,7%. Undir málaflokkinn falla fjölbreytt verkefni eins og rekstur umboðsmanns skuldara og Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, bætur almannatrygginga vegna fatlaðra og langveikra barna, sorgarleyfi, auk umönnunargreiðslna sem falla undir bætur skv. lögum um félagslega aðstoð. Auk þess falla undir málaflokkinn ýmsar greiðslur vegna samninga ráðuneytisins um þjónustu og rekstur félagasamtaka og athvarfa. Rekstur stofnana og annarra verkefna málaflokksins var í jafnvægi árið 2023. Það sem veldur frávikum frá fjárheimildum málaflokksins eru greiðslur vegna bóta skv. lögum um félagslega aðstoð, umönnunargreiðslur. Gjöld voru um 4.496 milljónir kr. eða 450 milljónir kr. umfram fjárheimildir.
Málaflokkur 29.5 Bætur til eftirlifenda
Undir málaflokkinn falla greiðslur barnalífeyris vegna andláts foreldra skv. lögum um almannatryggingar. Einnig falla þar undir maka- og umönnunarbætur, dánarbætur, auk barnalífeyris vegna menntunar skv. lögum um félagslega aðstoð. Gjöld málaflokksins eru 51 milljón kr. innan fjárheimilda eða sem nemur 9,7% sem er aukning frá fyrra ári, en nokkur breytileiki getur verið á þessum lið milli ára.
Málaflokkur 29.7 Málefni innflytjenda og flóttafólks
Málaflokkurinn er 3 milljörðum kr. eða 117,9% umfram heildarfjárheimildir. Frávik málaflokksins frá fjárheimildum má helst rekja til lögbundinna endurgreiðslna til sveitarfélaga, sbr. 15. grein laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Gjöld ársins 2023 voru 3.972 milljónir kr. samanborið við fjárheimildir að fjárhæð 802,8 milljónum kr. Umframútgjöld voru því nærri 3,2 milljarðar kr. Endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna félagsþjónustu hafa aukist verulega á undanförnum árum og má rekja útgjaldaaukninguna til aukins fjölda flóttafólks sem fær hér alþjóðlega vernd.
Einnig má geta þess að Fjölmenningarsetur var sameinað starfsemi og rekstri Vinnumálastofnunar þann 1. apríl 2023. Niðurstöður rekstrar stofnunarinnar eins og hún birtist í töflunni er af þeim sökum ekki marktæk.
Málefnasvið 30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi
Málaflokkur 30.1 Vinnumál og atvinnuleysi
Málaflokkurinn í heild er 4,8 milljörðum kr. eða 13% undir heildarfjárheimildum. Atvinnuleysistryggingasjóður er 2,9 milljörðum kr. undir fjárheimildum eða 9,8%. Skráð atvinnuleysi var 3,3% að meðaltali yfir árið samanborið við 3,9% árið 2022. Einnig er stuðningur til greiðslu launa starfsfólks á almennum vinnumarkaði vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ 1,8 milljarða undir fjárheimildum eða 91,4%. Fjárheimild vegna þessa kom inn í fjáraukalögum undir lok árs.
Málaflokkur 30.2 Vinnumarkaður
Málaflokkurinn er 15 milljónir kr. umfram fjárheimildir innan ársins. Flutt fjárheimild að fjárhæð 40 milljónir kr. frá árinu 2022 jafnar út hallann og gott betur þannig að málaflokkurinn endar í 26 milljóna kr. afgangi í lok árs eða 2,4%.
Málefnasvið 32
Málaflokkur 32.4 Stjórnsýsla félagsmála
Málaflokkurinn er um 178 milljónum kr. undir fjárheimildum ársins eða 4,3%. Munar það mestu um 321 m.kr. sem tilheyrir verkefnum hjá Tryggingastofnun sem lúta að endurnýjun tölvukerfa stofnunarinnar. Verkefnið var fjármagnað til þriggja ára en vinnu við endurgerð kerfisins seinkaði vegna kærumála í kjölfar útboðsferlis. Kostnaður og fjárheimild verkefnisins fluttist því yfir á árið 2023. Stofnunin hefur því farið úr því að vera með afgang árlega vegna þessa verkefnis yfir í að vera með 4 m.kr. halla eða 0,2% frávik frá heildarfjárheimildum 2023.
Aðrir fjárlagaliðir og verkefni málaflokksins eru undir fjárheimildum auk rekstur Úrskurðarnefndar velferðarmála og Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Einnig er afgangur í árslok á safnliðum en þar eru verkefni alla jafna skuldbundin og greiðslur falla til á árinu 2024. Af þessum sökum er gert ráð fyrir að afgangur muni flytjast á milli ára.
Fjárfesting málefnasviða og málaflokka
Málaflokkur 29.4 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn
Óhafin fjárfestingarheimild vegna byggingu húsnæðis vegna öryggisvistunar er um 590 milljónir kr. Byggingaráform hafa tafist meðal annars vegna þess að ekki liggur fyrir endanleg staðsetning húsnæðisins. Óvíst er hvenær framkvæmdir hefjast en þegar það gerist verður fjárfestingarheimild málaflokksins fullnýtt.
Styrkir og samningar ársins 2023
Lista yfir velferðarstyrki árið 2023 má sömuleiðis nálgast á vefnum. Þar er einnig að finna lista yfir styrkþega úr þróunarsjóði innflytjendamála.
Ársskýrsla ráðherra 2023
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.