Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2023
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið
Í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu starfar öflugur hópur sem vinnur að afar fjölbreyttum verkefnum.
Málefnasviðin eru mörg, auk þess sem sjö stofnanir heyra undir ráðuneytið sem og úrskurðarnefnd velferðarmála.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra. Hann er enn fremur samstarfsráðherra Norðurlanda.
Hér verður stiklað á stóru varðandi helstu áhersluverkefni ráðherra sem unnið var að í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu árið 2023. Athugið að ekki er um að ræða tæmandi upptalningu á verkefnum ráðuneytisins.
Þingmál og fréttir
Alþingi samþykkti árið 2023 fjölmörg lagafrumvörp sem félags- og vinnumarkaðsráðherra mælti fyrir. Þingsályktunartillaga var þar að auki samþykkt.
Mest lesna frétt ráðuneytisins árið 2023 fjallaði um styrki vegna verkefna fyrir innflytjendur og flóttafólk:
Málefni fatlaðs fólks
Málefni fatlaðs fólks voru fyrirferðarmikil á árinu. Unnið var að gerð fyrstu landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks hér á landi. Landsáætlunin er liður í lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
- Fjölmargir vinnuhópar störfuðu með verkefnastjórn landsáætlunarinnar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, stóð auk þess fyrir opnum samráðsfundum um landið þar sem fólki gafst tækifæri til að hafa bein áhrif á þróun þjónustu við fatlað fólk hér á landi.
- Í nóvember var landsáætlunin síðan birt í samráðsgátt stjórnvalda.
Hér er myndband um landsáætlunina sem gert var eftir að hún var samþykkt á Alþingi. Þar sést m.a. hvernig hún var unnin árið 2023:
Fjölmargt annað má nefna í tengslum við málefni fatlaðs fólks árið 2023:
- Unnið var markvisst að því að auka náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk hér á landi.
- Viljayfirlýsing var undirrituð um þróun á lausnum á stafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk.
- Höfuðborin stækkunartæki gjörbreyttu möguleikum sjónskertra.
- Íslenskur ráðherra sótti í fyrsta sinn fund aðildarríkja samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
- Samkomulag var undirritað milli ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnum þjónustu við fatlað fólk.
Öll með: Breytingar á örorkulífeyriskerfinu
Vinna stóð yfir allt árið vegna breytinga á örorkulífeyriskerfinu sem fela í sér bætta þjónustu, mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku og bætt kjör með betra og einfaldara greiðslukerfi.
- Markmiðið er að bæta afkomu þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri, einfalda kerfið, draga úr tekjutengingum, auka hvata til atvinnuþátttöku og gera örorkulífeyriskerfið gagnsærra og réttlátara.
- Þá er stuðningur aukinn við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustukerfa komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa.
Gott að eldast
Rífandi gangur var í verkefninu Gott að eldast á árinu. Stjórnvöld taka þar utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti.
- Á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum sem fram fór í maí 2023 kom fram að eldra fólk leggi mikið til samfélagsins og mikilvægt sé að stuðla að auknu heilbrigði þessa hóps.
- Auglýst var eftir samstarfi við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir sem vilja vinna að þróunarverkefnum um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Afar mikill áhugi var á þróunarverkefnunum og voru sex heilbrigðisstofnanir á endanum valdar til þátttöku ásamt 22 sveitarfélögum.
- Upplýsinga- og ráðgjafaþjónustu var komið á fót fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þess.
- Í fyrsta sinn var hægt að nálgast upplýsingar um hvað eina sem tengist þjónustu fyrir eldra fólk, réttindum þess og heilsueflingu á einum stað á vefnum island.is undir heitinu Að eldast.
- Nánar: Gott að eldast
Innflytjendur og þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd
Alls sóttu tæplega 4.200 manns um alþjóðlega vernd á Íslandi árið 2023. Vinnumálastofnun sá um að þróa þjónustu við hópinn í reglulegu samráði og með stuðningi ráðuneytisins.
Gerðir voru fjölda samninga um samræmda móttöku flóttafólks við sveitarfélög vítt og breitt um landið.
- Nánar: Móttaka flóttafólks
Á árinu var einnig haldið áfram við að móta heildstæða stefnu í málefnum innflytjenda hér á landi.
- Í nóvember kom út grænbók sem innihélt stöðumat og valkostagreiningu. Þetta var í fyrsta sinn sem slík grænbók var unnin í málaflokknum.
- Að auki var um fyrstu grænbókina að ræða sem birt var á þremur tungumálum: Íslensku, ensku og pólsku.
- Þá hófst á árinu fundaröð þar sem fólki var boðið til samtals um stefnu í málefnum innflytjenda.
- Nánar: Stefnumótun í málefnum innflytjenda
Vinnumarkaður
Málefni vinnumarkaðar fléttast inn í margvíslega málaflokka í ráðuneytinu – markvisst er til að mynda reynt að auka náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk og samhliða endurskoðun örorkulífeyriskerfisins hefur áhersla verið lögð á að fjölga hlutastörfum og sveigjanlegum störfum.
Þá er löggjöf á sviði vinnumarkaðar á höndum ráðuneytisins.
Fjölmargt annað var í deiglunni á árinu:
- Frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra um stuðning vegna launa fólks sem starfar í Grindavíkurbæ var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi.
- Stuðningur var stórefldur við ungt fólk í viðkvæmri stöðu til að fyrirbyggja brotthvarf af vinnumarkaði.
- Samningur var undirritaður um samþætta og þverfaglega heilbrigðis- og starfsendurhæfingarþjónustu við ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára með flókinn og fjölþættan vanda.
- Fyrstu starfsnemarnir útskrifuðust úr verkefninu Project Search og annar hópur hóf nám.
- Óskað var eftir umsóknum um styrki í nýjan vinnuverndarsjóð.
Framhaldsfræðsla
Framhaldsfræðsla er hvers konar nám, úrræði og ráðgjöf sem ætlað er að mæta þörfum fólks með stutta skólagöngu og er ekki skipulagt á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla. Innan framhaldsfræðslunnar er einnig leitast við að efla starfshæfni fólks og bæta stöðu þeirra sem standa ekki jafnfætis öðrum á vinnumarkaði, svo sem vegna skorts á íslenskukunnáttu.
- Samstarfshópur um heildarendurskoðun framhaldsfræðslu hóf störf árið 2023.
- Gerðar voru fimm úttektir og rannsóknir vegna stefnumótunarinnar. Mat innflytjenda á eigin færni í íslensku og staða fullorðinna innflytjenda í framhaldsfræðslu var meðal þess sem skoðað var.
- Ráðuneytið tók þátt í gerð þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2023-2026 og ber þar ábyrgð á fimm aðgerðum.
Markmiðið er að til verði heildstætt kerfi í framhaldsfræðslu sem styrkir hana sem fimmtu stoð opinbera menntakerfisins hér á landi.
- Nánar: Framhaldsfræðsla
Aðgerðir gegn ofbeldi
Aðgerðir gegn ofbeldi tengjast mörgum ráðuneytum. Mikil vinna hefur átt sér stað í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu á þessu sviði.
Nokkur dæmi hér:
- Lokaskýrsla um stöðu aðgerða í áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess fyrir árin 2019-2022 kom út í byrjun árs.
- Starfshópur skilaði tillögum um hvernig best megi tryggja þá þjónustu sem standa þarf bæði þolendum og gerendum ofbeldis til boða, einkum með tilliti til Istanbúlssamningins.
- 60 milljónum króna var veitt í styrki til verkefna sem miða að því að tryggja þolendum og gerendum ofbeldis um land allt aðgengi að stuðningi og ráðgjöf.
Þá hélt ráðuneytið áfram að styðja fjárhagslega við þolendamiðstöðvar, félagasamtök og aðra aðila sem veita þjónustu til bæði þolenda og gerenda ofbeldis.
Allt hitt
Unnið var að fjölmörgum öðrum málum í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu á árinu 2023, enda málaflokkar ráðuneytisins afar umfangsmiklir og verkefnin mörg.
Örfá dæmi til viðbótar:
- Ráðuneytið tók virkan þátt í alþjóðlegu starfi á árinu.
- Velferðarvaktin stóð áfram vaktina.
- Styrkir voru veittir til frjálsra félagasamtaka sem vinna að verkefnum á málefnasviði ráðuneytisins.
- Ríflega 26.000 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar, sem áttu rétt á bótum árið 2023, fengu sérstaka eingreiðslu í desember.
- Flóttafólk frá Afganistan kom til landsins í boði íslenskra stjórnvalda.
- Niðurstöður könnunar á einangrun og einmanaleika eldra fólks eftir uppruna voru kynntar.
- Réttlát, græn umskipti á norrænum vinnumarkaði voru rædd á fjölmennum viðburði í Hörpu.
- Ráðherra flutti síðan ótal ræður og ávörp á árinu!
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fer yfir árangurinn af starfsemi ráðuneytisins með starfsfólki þess. Eins og sést er það afar gaman!
Yfirferð ársins 2023 er þá lokið. Við göngum bjartsýn til móts við árið 2024!
Ársskýrsla ráðherra 2023
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.