Hoppa yfir valmynd
07. mars 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ræða ráðherra við setningu jafnréttisþings 2018

Ásmundur Einar Daðason - mynd

Góðir gestir,

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin til jafnréttisþings 2018.

Til þingsins er boðað samkvæmt ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og hlutverk mitt sem ráðherra jafnréttismála er að leggja fyrir þingið skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála á helstu sviðum samfélagsins. Skýrslan, sem nær til áranna 2015–2017, er aðgengileg á vefsíðu velferðarráðuneytisins og spannar efni hennar að venju vítt svið.

Í inngangi skýrslunnar er annars vegar fjallað um það sem þykir hafa borið hæst á sviði jafnréttismála og hins vegar er greint frá verkefnum sem eru í burðarliðnum.

Þá er einnig lagt mat á stöðu og árangur þeirra verkefna sem tilgreind eru í framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum 2016–2019 og henni fylgir einnig viðauki um verkefni Jafnréttisráðs.

Framundan er spennandi dagskrá þar sem fjallað verður um fjölmargar hliðar jafnréttismála en megináhersla þessa þings er á jafna meðferð og vernd gegn mismunun í víðum skilningi þess orðs með vísan í aukins margbreytileika í íslensku samfélagi.

Á þinginu vörpum við einnig ljósi á ólíka stöðu kvenna og karla á opinberum vettvangi og vinnumarkaði og fjöllum um umfang og eðli kynbundinnar hatursorðræðu. Hér verða einnig kynntar niðurstöður nýrra rannsókna, meðal annars hvað varðar launamun karla og kvenna og birtingarmyndir kynjanna í fjölmiðlum. Hlutverk jafnréttisþingsins er að efna til samræðna milli stjórnvalda og þjóðar um kynjajafnrétti því að hér á öllum að gefast tækifæri til að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda á sviði jafnréttismála.

Markmið jafnréttisþings er ekki eingöngu að vekja athygli á að kynjajafnrétti skipti máli við alla stefnumótun stjórnvalda, heldur einnig á þeirri staðreynd að með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi getum við öll færst nær okkar sameiginlega markmiði um samfélag réttlætis og lýðræðis. Fyrir okkur sem störfum að jafnréttismálum á vettvangi hins opinbera lífs er þátttaka ykkar afar mikilvæg. Ég hlakka til að kynna mér það sem hér mun fara fram og vil þakka öllum þeim fjölmörgu sem sitja þingið fyrir að leggja okkur lið. 

Góðir gestir,

Eins og rakið er í skýrslunni um stöðu og þróun jafnréttismála hefur íslenskt samfélag ekki farið varhluta af #metoo-byltingunni og því þjóðfélagsmeini sem kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun er í öllum lögum samfélagsins. Upphaf hinnar formlegu #metoo- eða #églíka-byltingar hér á landi má rekja til þess að konur í stjórnmálum birtu áreitni- og ofbeldissögur. Sögunum fylgdi áskorun sem konur úr öllum stjórnmálaflokkum undirrituðu. Í kjölfarið streymdu inn sambærilegar frásagnir og áskoranir frá 15 kvennahópum. Samtals hafa tæplega 800 frásagnir verið birtar og rúmlega 5.500 konur hafa skrifað undir áskoranir þar sem ofbeldinu er mótmælt og breytinga krafist.

Það er óþarfi að taka það fram hér að auðvitað gerast ekki allir karlar sekir í þessum efnum – það er þó viss áfellisdómur yfir okkar samfélagi að svo virðist sem nær allar konur verði fyrir áreitni eða mismunun af einhverju tagi.

Það er mjög sláandi að í minnsta kosti 14 frásögnum er sagt frá nauðgunum, það er að segja broti sem fellur undir ákvæði hegningarlaga. Fleiri frásagnir lýsa atburðum þar sem stúlkum og konum tókst að komast undan nauðgurum – og hér sker einn hópur sig úr: Konur úr íþróttahreyfingunni sem sögðu frá kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi. Alls sögðu níu íþróttakonur frá nauðgun. Enginn þeirra treysti sér til að kæra brotið.

Ég vil hér einnig nota tækifærið til að þakka þeim erlendu konum sem höfðu kjark til að rísa upp og lýsa kynbundnu ofbeldi, mismunun og niðurlægingu. Í ofanálag lýsa þær áhuga- og afskiptaleysi samfélagsins alls –  þær hafa vakið aðdáun þjóðarinnar og stjórnvöld hafa hlustað. Frásagnir þeirra eru áminning um mikilvægi þess að við séum meðvituð og vakandi fyrir því hvernig margar fleiri mismununarbreytur virka í raun og veikja stöðu þeirra sem búa við margþætta mismununarstöðu.

Metoo umræðunni er ekki lokið og það er mikilvægt að við hlustum á þessar sögur. Þrátt fyrir að sögurnar séu ólíkar þá eiga þær það sameiginlegt að lýsa samfélagi sem við eigum að sameinast um að breyta. 

Í tengslum við þetta þá er áhugavert að frásagnirnar í samhengi við þá staðreynd að frá árinu 2009 hefur Ísland skipað efsta sætið á lista Alþjóðaefnahagsráðsins sem mælir kynjajafnrétti á heimsvísu. Það að Ísland tróni þar á toppnum sem „jafnréttasta land í heimi“ segir okkur tvennt. Annars vegar að kynferðisofbeldi, áreitni og kynbundin mismunun og hvernig tekið er á slíkum meinsemdum er nokkuð sem hinn alþjóðlegi jafnréttismælikvarði mælir alls ekki. Aftur á móti blasir það við að kynferðisofbeldi og áreitni gagnvart konum er alheimsvandamál sem líðst, þvert á þjóðir, þjóðerni, kynþátt, stétt og stöðu. Samfélagið ber allt tjón af og það tjón má mæla í krónum og aurum. Ofbeldið leiðir samkvæmt rannsóknum til lægri framleiðni á vinnustöðum, aukinnar starfsmannaveltu og þar af leiðandi til lægri vergar þjóðarframleiðslu og aukinna útgjalda vegna velferðarmála, heilsugæslu og lyfjakostnaðar. Þessi kostnaður hefur ekki verið mældur á Íslandi en áætlað er að kostnaður bandarískra fyrirtækja af kynbundinni áreitni og ofbeldi hlaupi á hundruðum milljarða dala árlega.

Hér á jafnréttisþingi munum við velta fyrir okkur hvaða áhrif metoo hreyfingin mun hafa á stöðu og þróun jafnréttismála og leitast við að varpa ljósi á frekari viðbrögð stjórnvalda.

Við munum fjalla um hatursorðræðu á netinu sem beinist gegn einstaklingum af báðum kynjum. Hatursorðræða er sett fram af mörgum ólíkum aðilum sem ala á sams konar hatri og fordómum gegn ákveðnum aðilum í samfélaginu og hún getur haft alvarlegar afleiðingar – hún getur leitt til hatursglæpa eins og við þekkjum gegn innflytjendum og hún getur haft skaðleg áhrif á möguleika kvenna til jafnra áhrifa og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins. Sú staða er að sjálfsögðu áhyggjuefni fyrir lýðræðið í heild.

Erlendar rannsóknir á netsíðum fjölmiðla sýna að haturstal verður helst vegna frétta um trúmál, stöðu flóttamanna, jafnrétti kynjanna og stjórnmál. Karlar eru vanalega í meirhluta þeirra láta frá sér hatursummæli og þegar jafnréttismál ber á góma beinast hatursummælin frekar að konum en körlum. Afleiðingin er sú að umræðan verður fráhrindandi og konur halda sig frekar til hlés í almennri umræðu á samfélagsmiðlum.

Þann stutta tíma sem ég hef verið ráðherra jafnréttismála hefur það verið einstakt að fylgjast með þeim krafti sem einkennt hefur umræðu um jafnréttismál hér heima.  Það er litið til Íslands sem fyrirmyndarlands í jafnréttismálum og leitað er eftir upplýsingum og samstarfi við íslensk stjórnvöld sérstaklega hvað varðar jafnlaunamál í kjölfar lögfestingar jafnlaunavottunar. WPL ráðstefna í 4 ár.

Rannsókn Hagstofu Íslands sem unnin var í samvinnu við aðgerðahóp stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti sem kynnt verður á þessu jafnréttisþingi leiðir í ljós að launamunur kynjanna fer minnkandi frá ári til árs og því ber að fagna. Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á þennan málaflokk og hefur skipað ráðherranefnd um jafnréttismál í þeim tilgangi að tryggja að Ísland verði áfram fyrirmynd á alþjóðavettvangi þegar kemur að kynjajafnrétti. Framtíðarsýn stjórnvalda er að vinna gegn hvers kyns mismunun og styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa með því vinna að samþykki löggjafar um jafna meðferð einstaklinga og útvíkkun jafnréttisstarfsins. 

Ráðherranefnd um jafnréttismál og í Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu mína um aukið fjármagn til jafnréttismála þannig að styðja megi við framfylgni nýrra laga um jafnlaunavottun sem hefur að markmiði að eyða kynbundnum launamun hér á landi. Við munum á kjörtímabilinu beita okkur fyrir markvissum aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum og tryggja að Istanbúl sáttmáli Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn konum og heimilisofbeldi verði fullgiltur. Þá hafa stjórnvöld sett sér það markmið að endurreisa fæðingarorlofskerfið og þar er lykilatriði að úrbætur verði gerðar svo tryggja megi börnum samvistir við báða foreldra með því að hækka greiðslur til þeirra í orlofi og lengja fæðingarorlof.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá er hér áhugaverð dagskrá framundan og ég vona svo sannarlega að þið eigið eftir að eiga góðar og lærdómsríkar samræður um jafnréttismálin.

Takk fyrir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta