Hoppa yfir valmynd
24. október 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Jafnréttismenning

Ásmundur Einar Daðason - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra skrifar:

24. október hefur allt frá víðfrægum fundi kvenna á Lækjartorgi árið 1975,  verið helgaður baráttunni fyrir jöfnum réttindum á vinnumarkaði, launajafnrétti og auknum aðgangi kvenna að samfélagslegum valdastöðum. Saga kvennafrídagsins er flestum kunn en á þessum degi fyrir 43 árum síðan bentu konur á mikilvægi starfa sinna og vinnuframlags með því að leggja niður launuð og ólaunuð störf. Eðli málsins samkvæmt var samfélagið í lamasessi. Samtakamátturinn þá er enn í fersku minni og hefur æ síðan verið aðalsmerki  kvennahreyfingarinnar hér á landi.

Undanfarin ár hefur 24. október verið nýttur til að benda á það sem betur má fara hérlendis, ekki síst þá staðreynd að enn mælist kynbundinn launamunur á íslenskum vinnumarkaði. Lög um jafnlaunavottun tóku gildi í upphafi þessa árs. Þau kveða á um skyldu fyrirtækja og stofnana að undirgangast formlega úttekt og vottun sem staðfestir að stjórnunarkerfi þeirra uppfylli kröfur jafnlaunastaðalsins. Jafnlaunavottun getur þannig endurspeglað metnað fyrirtækja og stofnana sem vilja vera eftirsóttir vinnustaðir og sjá sér hag í að sýna fram á að þau reki launastefnu sem byggist á markvissum og faglegum aðferðum. Jafnlaunastaðallinn er eini sinnar tegundar í heiminum og er afurð áralangs samstarfs heildarsamtaka launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda. Markmiðið með gerð hans var að þróa leið til að eyða kynbundnum launamun þannig að greidd séu sömu laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf, líkt og kveðið hefur verið á um í lögum í áratugi. Þetta verkefni hefur hlotið mikla athygli út fyrir landsteinana og litið er til Íslands sem fyrirmyndar hvað varðar aðgerðir og þróun málaflokksins. Árangur okkar byggist á víðtæku samráði og fyrir það ber að þakka.

Í dag stendur kvennahreyfingin í samstarfi við samtök launafólks fyrir baráttufundi þar sem sjónum er beint að launajafnrétti og öryggi kvenna á vinnustöðum. Stjórnvöld hafa brugðist við #ég líka hreyfingunni með margvíslegum hætti. Verkefnin miða að fyrirbyggjandi aðgerðum og forvörnum en ekki síst að því hvernig megi skapa raunverulega jafnréttismenningu í samfélaginu.

Þrátt fyrir að lög og regluverk um viðbrögð og skyldur atvinnurekenda vegna kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldi á vinnustöðum séu fyrir hendi sýna #ég líka frásagnirnar gríðarlegt umfang vandans sem enn fær að viðgangast. Gallup-könnun sem gerð var í nóvember í fyrra sýnir að nærri helmingur allra kvenna, eða 45%, hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi en 15% karla. #Ég líka frásagnir kvenna af erlendum uppruna um andlegt og líkamlegt ofbeldi á íslenskum vinnumarkaði voru mjög þörf áminning um að hin svokallaða jafnréttismenning hefur ekki náð til allra hópa í okkar samfélagi. Við þurfum að vera meðvituð og vakandi fyrir birtingarmyndum margþættrar mismununar og skoða áhrif stjórnvaldsaðgerða út frá kyni en einnig öðrum þáttum eins og uppruna, kynvitund og kynhneigð.

Í samræmi við þær áherslur fer nú fram vinna innan Stjórnarráðsins sem miðar að frekari útvíkkun jafnréttishugtaksins í íslenskri löggjöf og mótun  heildstæðrar stefnu í jafnréttismálum sem ætlað er að tryggja framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð einstaklinga.  

Ég vona að þessar aðgerðir eigi eftir að auka á jafnréttismenningu og marka framfararspor í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna í okkar samfélagi. Baráttu sem hófst fyrir meira en 100 árum síðan og við munum í sameiningu halda áfram.

Til hamingju með daginn!

Grein ráðherra birtist í sérblaði Fréttablaðsins 24. október 2018

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta