Hoppa yfir valmynd
31. október 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Rétt´upp hönd - ráðstefna Félags kvenna í atvinnurekstri

Ávarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra

Góðir gestir.

Mér er það mikil ánægja að ávarpa þennan fund og fylgjast með því þegar Jafnvægisvoginni verður ýtt úr vör en verkefnið fékk meðal annars byr í seglin með samstarfssamningi við velferðarráðuneytið.

Jafnréttismál eru meðal forgangsmála ríkisstjórnarinnar sem hefur nú gert tillögu um að málaflokkurinn verði fluttur í forsætisráðuneytið um næstu áramót. Sú  ákvörðun endurspeglar þá áherslu sem ríkisstjórnin leggur á málaflokkinn og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við alla stefnumótun stjórnvalda. Ég hef verið ráðherra jafnréttismála í tæpt ár og það hafa verið forréttindi að taka þátt og fylgjast með því kraftmikla starfi sem einkennir allt starf að jafnréttismálum hér á landi.

Það er ekki að ástæðulausu sem litið er til Íslands sem fyrirmyndar í jafnréttismálum enda höfum við náð eftirtektarverðum árangri bæði hvað varðar sögulega áfanga í jafnréttisbaráttunni og á alþjóðlega mælikvarða. Í tæpan áratug hefur Ísland verið í toppsætinu á jafnréttismælikvarða Alþjóðaefnahagsráðsins sem mælir aðgang kvenna að áhrifum og völdum, menntun, atvinnu og heilbrigðisþjónustu. Atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi mælist hæst meðal aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar á sama tíma og fæðingartíðni helst há og það er ekki síst vegna þess að hér hefur, líkt og annars staðar á Norðurlöndunum, verið fjárfest í innviðum kynjajafnréttis.

Margt hefur áunnist frá setningu fyrstu jafnréttislaganna fyrir rúmum fjörutíu árum en þó sýnir tölfræðin að við eigum enn langt í land til að tryggja jafna möguleika kvenna og karla til valda og áhrifa.

Áhersla á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði hefur verið rík í íslenskri jafnréttislöggjöf frá fyrstu tíð. Litið hefur verið svo á að atvinnuþátttaka og efnahagslegt sjálfstæði kvenna sé forsenda fyrir framgangi kynjajafnréttis á öðrum sviðum samfélagsins. Í því ljósi er athyglisvert hve erfitt okkur hefur reynst að brjóta upp kynjaskiptingu starfa, tryggja launajafnrétti og jafna völd og áhrif kynjanna. 

Rannsóknir sýna að konur taka lengra fæðingarorlof og eru líklegri til að sinna ólaunaðri vinnu við heimilisstörf, umönnun barna og aldraðra ættingja. Að loknu fæðingarorlofi gegna konur frekar hlutastörfum til að geta áfram sinnt ólaunuðum verkefnum utan vinnumarkaðar.  Konur eru enn hlutfallslega fáar í stjórnunarstöðum og eru í miklum meirihluta starfsfólks við kennslu, umönnun og hjúkrun þar sem möguleikar til starfsþróunar eru takmarkaðir. Aftur á móti einkennast karlastörf fremur af sérhæfðum störfum með ríkari starfsþróunarmöguleikum. Þetta má meðal annars rekja til hefðbundinna kynhlutverka og kynbundins námsvals sem hefur áhrif á launamun kynjanna og þegar fram í sækir lífeyrisgreiðslur.

Þótt kynjajafnrétti mælist hvergi meira en hér á landi er alveg ljóst að enn  bíða erfið verkefni úrlausnar stjórnmálanna. Uppræta þarf staðlaðar kynjaímyndir sem hafa áhrif á náms- og starfsval og styrkja þarf nýjan hugsunarhátt um karla og karlmennsku. Feðraorlofið hefur haft töluverð áhrif – við þurfum að tryggja að báðir foreldrar geti tekið orlof og í framhaldi deilt ábyrgð á umönnunar– og heimilisstörfum og auka þannig möguleika beggja foreldra á samhæfingu fjölskylduábyrgðar og atvinnuþátttöku. Þessu tengt ber að nefna að núverandi ríkisstjórn stefnir að því að lengja fæðingarorlof úr 9 mánuðum í 12 og ánafna ákveðnum hlutum orlofsins hvoru foreldri.

Góðir gestir,

Eins og við þekkjum voru árið 2010 samþykkt lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja þar sem starfa fleiri en 50 manns á ársgrundvelli að jafnaði. Lögin tóku gildi árið 2013 og gera ráð fyrir að hlutfall hvors kyns í stjórnum skuli vera að minnsta kosti 40 af hundraði. Að auki er fyrirtækjum skylt að gæta að hlutföllum kynjanna við ráðningu framkvæmdastjóra. Byggt var á þeim skilningi að íslensku atvinnulífi væri mikilvægt að stjórnir spegli fjölbreytni; að hætta fylgi þeirri einsleitni sem lengi hafi einkennt atvinnurekstur með stjórnarmönnum af sama kyni, á svipuðum aldri og með áþekkan bakgrunn varðandi menntun og reynslu.

Síðustu tölur frá Hagstofu Íslands sýna mjög hægfara þróun í rétta átt og að markmiði laganna hefur  langt í frá verið náð. Að auki sýna nýjar tölur að lögin hafa ekki haft tilætluð áhrif hvað varðar hlut kvenna í stöðum framkvæmdastjóra en um 80% framkvæmdastjóra hlutafélaga, einkahlutafélaga og lífeyrissjóða eru karlar.

Sambærileg lög tóku gildi í Noregi árið 2003 og fór hlutfall kvenna í stjórnun fyrirtækja úr fjórum prósentum árið 2002 í 40% árið 2012. Norsku lögin ná til fyrirtækja með fleiri en 200 starfsmenn en þau ganga lengra en þau íslensku þegar litið er til viðurlaga við brotum því í þeim er að finna ákvæði um dagsektir. Ég efast ekki um að þessar ólíku leiðir verði til umræðu hér í dag. 

Einnig er vert að minna á að fyrsti kynjakvótinn var lögfestur hér á landi með núgildandi jafnréttislögum frá árinu 2008 en fimmtánda grein laganna kveður á um að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% af hvoru kyni þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. 

Jafnréttisstofa hefur síðastliðin sex ár birt upplýsingar um hlut kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytanna og er skemmst frá því að segja að árið 2017 voru konur og karlar í nánast jöfnum hlutföllum hvort heldur litið var til allra nefnda eða nýskipana á því ári. Stjórnarráðið hefur því gengið fram með góðu fordæmi og lagt vinnu í að skýra verkferla og fylgja þeirri reglu sem 15. gr. jafnréttislaga kveður á um.

Ég er sannfærður um að það væri íslensku atvinnulífi til framdráttar að auka hlut kvenna í efsta stjórnendalaginu – í raun nægir að líta til stjórnmálanna en aukin þátttaka kvenna hefur haft mjög jákvæð áhrif á ásýnd og inntak þeirra og við vitum að aukið jafnrétti hefur jákvæð áhrif á vinnustaðamenningu.

Skemmst er að minnast mótmæla kvenna, bæði hér heima og erlendis, við  vinnustaðamenningu þar sem kynferðisleg áreitni virðist frekar vera reglan en undantekning.  Þrátt fyrir að lög og regluverk um viðbrögð og skyldur atvinnurekenda vegna kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldi á vinnustöðum séu fyrir hendi sýna #ég líka (eða á ensku #metoo) frásagnirnar gríðarlegt umfang vandans sem enn fær að viðgangast. Gallup-könnun frá 2017 sýnir að um helmingur aðspurðra kvenna, eða 45%, hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi og 15% karla.

Á Íslandi sögðu um 800 konur í 15 hópum  frá upplifun sinni undir myllumerkinu #églíka eða #metoo. Stjórnvöld hafa brugðist við með margvíslegum hætti og miða verkefni stjórnvalda að fyrirbyggjandi aðgerðum og forvörnum en ekki síst að því hvernig megi skapa raunverulega jafnréttismenningu í samfélaginu.

Að lokum vil ég þakka FKA fyrir samstarfið og Jafnvægisvogina og hvetja alla atvinnurekendur til að gera enn betur!


Takk fyrir áheyrnina.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta