Norrænt vinnumálasamstarf – framtíð vinnunnar
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skrifar:
Ísland gegnir nú formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Norrænt samstarf á sviði vinnumála sem hófst árið 1954 hefur verið til mikils gagns fyrir sameiginlegan vinnumarkað landanna og lagt grunninn að mörgum mikilvægum framfaramálum á Norðurlöndunum. Samstarfið er góður vettvangur fyrir hugmyndavinnu til grundvallar pólitískri stefnumótun landanna. Það hefur jafnframt skapað forsendur og tækifæri til að samræma sjónarmið á sviðum þar sem löndin geta sameinuð náð lengra en hvert í sínu lagi.
Í norræna vinnumálasamstarfinu hefur verið lögð áhersla á það síðustu ár að rannsaka og skoða áhrif þeirra miklu breytinga sem eiga sér stað á vinnumarkaði Norðurlandanna og reyndar í heiminum öllum. Undir formennsku Íslands verður þar engin undantekning. Þær miklu samfélagsbreytingar sem knúnar eru áfram af auknum tækniframförum, breyttum viðhorfum og ekki síst breytingum í aldurssamsetningu þjóðanna eru allt stórar áskoranir en á sama tíma tækifæri á sviði vinnumála sem við þurfum að ná yfir og nýta okkur fremur en að óttast.
Á árinu 2017 var á vegum norræna vinnumálasamstarfsins hrundið af stað norrænu rannsóknarverkefni undir stjórn norsku rannsóknarstofnunarinnar Fafo. Verkefninu er ætlað að kortleggja og greina helstu breytingar sem norrænn vinnumarkaður mun þurfa að aðlaga sig að og nýta til þess að standa vörð um það sem við köllum norræna vinnumarkaðsmódelið og byggir á ákveðnum grunnréttindum sem löndin hafa komið sér saman um. Verkefni sem ber heitið The future of work – Oppurtunities and challenges for the Nordic models miðar að því að settar verði fram aðgerðamiðaðar tillögur fyrir Norrænu löndin til að bregðast við og nýta sem fyrst þau tækifæri sem þessar breytingar hafa í för með sér. Verkefninu er ætlað að vera hið norræna framlag til 100 ára afmælisskýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framtíð vinnunnar árið 2019. Norðurlöndin hafa síðustu ár tekið virkan þátt í undirbúningi afmælisins með því að halda ráðstefnur um framtíð vinnunnar í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Á formennskuári Íslands er verkefnið á nokkrum tímamótum og á ráðstefnu sem haldin verður 4.-5. apríl í Reykjavík, í tilefni af aldarafmæli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, verða fyrstu niðurstöður norræna rannsóknarverkefnisins kynntar. Verkefninu lýkur árið 2020.
Markmið ráðstefnunnar í Reykjavík er að skapa umræður um þær áskoranir, tækifæri og breytingar sem eru að verða á vinnumarkaðnum og hvernig alþjóðastofnanir á borð við ILO, Norrænu ráðherranefndina, OECD, Evrópusambandið og fleiri þurfi að bregðast við til að standa vörð um norræna vinnumarkaðsmódelið og nýta tækifærin sem í breytingunum felast. Sjónum verður sérstaklega beint að jafnréttismálum og því hvernig tryggja megi áframhaldandi árangur á því sviði á síbreytilegum vinnumarkaði. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu ráðstefnunnar: www.ilo2019.is
Greinin birtist á frettabladid.is 2. apríl 2019