Hoppa yfir valmynd
16. september 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stóraukinn stuðningur við íslenskar fjölskyldur

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra skrifar: 

Fjölskyldan er grunneining samfélagsins. Til að skapa farsælt samfélag þarf að leggja höfuðáherslu á að hlúa að henni. Verkefni fjölskyldna hafa mikið breyst samfara breyttum lífsháttum, ekki síst á síðustu árum. Samfélagið er orðið flóknara og heimilislífið hefur leitast við að aðlaga sig að því. Þrátt fyrir breytingar á lífsháttum er umönnun og uppeldi barna enn í dag mikilvægasta verkefni hverrar fjölskyldu. Þó staða íslenskra fjölskyldna sé á margan hátt góð er ljóst að breyttir þjóðfélagshættir og aukinn hraði í samfélaginu gerir mörgum erfitt fyrir.

Margvíslegar kerfisbreytingar nauðsynlegar

Verkefni stjórnvalda á hverjum tíma eiga og þurfa að lúta í meira mæli að því að bæta aðbúnað og hag fjölskyldna í landinu. Kulnun, langur vinnudagur, mönnunarvandi, aukinn kvíði barna og ungmenna, fjölgun ungra einstaklinga á örorku, bágur efnahagur og skortur á viðeigandi húsnæði eru því miður dæmi um áskoranir sem íslenskt samfélag og stjórnvöld þurfa að horfast í augu við. Það að hlúa að fjölskyldunni er fjárfesting til framtíðar og sterkar og heilbrigðar fjölskyldueiningar eru grunnur að öflugu samfélagi. Við þurfum margvíslegar kerfisbreytingar þegar kemur að fjölskyldum. Slíkar breytingar hafa verið í undirbúningi og í vetur munum við sjá ýmsum málum ýtt úr vör sem til framtíðar munu breyta stöðu fjölskyldna á Íslandi.

Lenging fæðingarorlofs í tólf mánuði

Framsóknarflokkurinn hefur ávallt lagt ríka áherslu á öflugt fæðingarorlofskerfi en núverandi kerfi var komið á fót fyrir 20 árum. Fjármagn til fæðingarorlofskerfisins var því miður skorið mikið niður við efnahagshrunið og er það eitt af áherslumálum okkar að endurreisa það með því meðal annars að lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði og hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi. Þessar aðgerðir munu þýða tíu milljarða aukningu til fjölskyldna landsins á ársgrunni í lok þessa kjörtímabils. Þess utan er fæðingarorlofslöggjöfin til heildarendurskoðunar í þeim tilgangi að bæta fæðingarorlofskerfið enn frekar.

Heildarendurskoðun í málefnum barna – ný barnaverndarlög

Áskoranir fjölskyldunnar kalla á að aukin áhersla verði á snemmtæka íhlutun og forvarnir innan velferðarkerfisins. Mikil vinna er í gangi í málefnum barna sem miðar að því að grípa unga einstaklinga sem lenda í vanda fyrr á lífsleiðinni en nú er gert og forma aðferðir sem tryggja að börn falli ekki á milli kerfa líkt og stundum er raunin. Þetta er framkvæmt í góðri samvinnu þvert á stjórnmálaflokka og á milli nokkurra ráðuneyta. Fyrstu útlínur að nýrri hugsun í þessum efnum verða kynntar á opinni ráðstefnu í Hörpu 2. október næstkomandi og er öllum sem hafa áhuga boðið að taka þátt og leggja sitt af mörkum (nánari upplýsingar er hægt að finna á www.frn.is). Samhliða þeirri vinnu er unnið að nýrri barnaverndarlöggjöf sem lögð verður fram á komandi þingi. 

Fjölgun almennra leiguíbúða – 600 íbúðir á næsta ári

Húsnæðisöryggi er ein grunnforsenda góðra lífsskilyrða. Það á að vera sjálfsögð krafa, eins og krafan sem við gerum um aðgengi í mennta- og heilbrigðiskerfinu, að hver og einn geti komið sér upp þaki yfir höfuðið. Þarna er ríkisstjórnin að vinna að margvíslegum aðgerðum og mun meðal annars 3,7 milljörðum verða ráðstafað til þess að fjölga almennum íbúðum á leigumarkaði á næsta ári. Þessar íbúðir eru byggðar innan lagaramma um almennar íbúðir frá árinu 2016. Frá þeim tíma hefur 8,5 milljörðum króna verið úthlutað í stofnframlög til tæplega 1.600 íbúða. Heildarfjárfesting í öruggu leiguhúsnæði fyrir almenning, með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga, er talin koma til með að nema á bilinu 60-75 milljörðum króna á árunum 2016 til 2023.

Stór skref til afnáms verðtryggingar og stuðningur við ungt fólk

Það hefur löngum verið stefna Framsóknar að afnema verðtryggingu neytendalána í íslensku samfélagi. Ekki hefur náðst pólitísk samstaða um slíkar breytingar á síðustu árum en ánægjulegt er að ríkisstjórnin hefur nú skuldbundið sig, í tengslum við lífskjarasamninga, til að stíga róttæk skref í þessu efni og er frumvarps að vænta á komandi löggjafarþingi.

Einnig er unnið að kerfisbreytingum sem miða að því að styðja við íbúðarkaup ungs fólks, tekjulægri einstaklinga og fjölskyldna sem misstu eignir sínar í hruninu. Þarna er bæði unnið að því að hægt verði að nýta lífeyrissparnað til innborgunar við fasteignakaup og einnig er unnið frumvarpi til innleiðingar á sérstökum eiginfjárlánum að skoskri/breskri fyrirmynd.

Landsbyggðin ekki skilin eftir í húsnæðismálum

Landsbyggðin hefur oftar en ekki verið skilin eftir þegar kemur að húsnæðismálum en því hyggjumst við breyta. Í sumar voru kynntar tólf aðgerðir sem ætlað er að efla húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni. Fyrstu aðgerðunum var hleypt af stokkunum við undirritun reglugerðar um  nýjan lánaflokk til uppbyggingar á köldum markaðssvæðum á landsbyggðinni, en kallað hefur verið eftir slíkri kerfisbreytingu um mjög langt skeið.

Hér eru nefndar nokkrar þeirra aðgerða sem nú er unnið að og munu koma fram á komandi þingvetri. Allt eru þetta aðgerðir sem fela í sér raunverulegar jákvæðar breytingar fyrir fjölskyldur allt í kringum landið. Ég hlakka mikið til að fylgja þeim eftir og sjá þær komast til framkvæmda.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. september 2019

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta