Hvers vegna þarf að styðja ungt og tekjulágt fólk til fasteignakaupa?
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra skrifar:
Hér á landi er algengt að líta á húsnæðismál með þeim augum að það sé eingöngu hlutverk markaðarins að leysa málin. Þetta sé einfaldlega spurning um framboð og eftirspurn. Vissulega er mikilvægt að huga að samspili framboðs og eftirspurnar en húsnæði er fyrst og síðast ein af grunnþörfum allra fjölskyldna. Í því ljósi eiga húsnæðismál að fá aukið vægi í umræðunni um stöðu fjölskyldna og í raun allri umræðu um velferðarmál.
Mikill meirihluti vill komast í eigið húsnæði
Áætlað er að í kringum 30.000 heimili séu á leigumarkaði á Íslandi. Þetta svarar til um 17 prósent einstaklinga yfir 18 ára aldri. Leigumarkaðurinn nærri tvöfaldaðist í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 og samkvæmt könnun Íbúðalánasjóðs telja 92 prósent leigjenda það óhagstætt að leigja og einungis 8 prósent telja sig geta farið af leigumarkaði innan sex mánaða. Á sama tíma segjast 86 prósent leigjenda myndu vilja búa í eigin húsnæði samkvæmt nýlegri könnun Íbúðalánasjóðs og aðeins 8 prósent leigjenda segjast vera á leigumarkaði af því þeir vilja vera þar. Af þessu má draga þá ályktun að mikill meirihluti þeirra sem er á leigumarkaði vilji komast í eigið húsnæði.
Fleiri þurfa aðstoð fjölskyldu við kaup á húsnæði
Í mörgum tilfellum nær fólk einfaldlega ekki að brúa bilið sem þarf til að leggja fram 20-30 prósent eigið fé við kaup á íbúð. Niðurstöður könnunar sem framkvæmd var í fyrra bendir til þess að 44 prósent þeirra sem keyptu sína fyrstu fasteign á árunum 2000-2009 hafi fengið aðstoð frá vinum eða ættingjum en á meðal þeirra sem keyptu sína fyrstu fasteign árið 2010 eða síðar hafi hlutfallið verið 59 prósent. Þessar niðurstöður gefa til kynna að innan við helmingur þeirra sem hafa keypt sína fyrstu fasteign á undanförnum árum hafi gert það hjálparlaust. Samhliða þessu fer hlutfall þeirra sem er í lægstu tekjutíundum samfélagsins hækkandi á leigumarkaði. Þá eru þrjú af hverjum fjórum heimilum á leigumarkaði með samanlagðar heimilistekjur undir 800.000 kr. á mánuði og meira en helmingur með undir 550.000 kr.
Aðgerðir hjálpi öllum að eignast húsnæði
Í ljósi ofanritaðs hljótum við að geta verið sammála um að óheftur markaðurinn hefur ekki skilað úrlausn fyrir þann hóp sem nú er á leigumarkaði. Þess vegna erum við nú að skoða kerfisbreytingar sem miða að því að styðja við íbúðarkaup ungs fólks, tekjulægri einstaklinga og fjölskyldna sem misstu eignir sínar í hruninu. Þarna er bæði unnið að því að hægt verði að nýta lífeyrissparnað sem innborgun við fasteignakaup en einnig er unnið að frumvarpi til innleiðingar á sérstökum hlutdeildarlánum að skoskri og breskri fyrirmynd.
Hlutdeildarlán til að yfirstíga þröskuldinn
Hlutdeildarlán er úrræði sem hugsað er til að mæta þeim bresti sem nú ríkir á húsnæðismarkaði og er ætlað að auðvelda ungu fólki og tekjulágu að eignast eigið húsnæði. Hlutdeildarlánin bera lægri vexti og afborganir fyrstu árin og eiga þannig að gera tekjulágum kleift að komast yfir útborgunarþröskuldinn þar sem krafa um eigið fé er lægri. Ríkið fær síðan endurgreitt þegar eigandi selur viðkomandi íbúð eða greiðir lánið upp á matsvirði. Helstu kostir eru augljósir. Ungir og tekjulágir eiga auðveldara með að koma sér þaki yfir höfuðið, byggingaraðilar njóta aukins fyrirsjáanleika um markað fyrir íbúðir og lánveitendur fá öruggari lán með lægra veðhlutfalli og ættu því að geta boðið hagstæðari kjör.
Útfærsla á hlutdeildarlánum eru nú í vinnslu í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðar líkt og lífskjarasamningar lögðu grunn að. Þetta úrræði hefur skilað góðum árangri í Bretlandi og Skotlandi síðastliðin 6 ár og erum við í góðu samstarfi við stjórnvöld þar um heppilega innleiðingu og útfærslur.
Eitt af meginmarkmiðum mínum í embætti ráðherra er að gera ungu og tekjulágu fólki kleift að kaupa sínu fyrstu íbúð. Hlutdeildarlán eru góð og skynsamleg leið til koma íbúðarkaupendum yfir útborgunarþröskuldinn í upphafi. Ég bind miklar vonir við að þau muni ryðja sér til rúms á íslenskum húsnæðismarkaði og hjálpi ungu fólki, tekjulágum og fólki sem misst hefur húsnæði að eignast þak yfir höfuðið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. september 2019