Mælaborð mikilvægur hlekkur í kerfisbreytingum í þágu barna
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skrifar:
Breytingar í þágu barna er yfirskrift ráðstefnu sem ég hef boðað til miðvikudaginn 2. október næstkomandi en þar verða fyrstu tillögur að nýju velferðarkerfi fyrir börn og fjölskyldur kynntar. Mikilvægur hlekkur í því kerfi er svokallað mælaborð sem ætlað er að varpa ljósi á velferð barna.
Það hefur verið eitt af aðaláherslumálum mínum sem ráðherra að auka velferð barna og gera breytingar á kerfinu til þess að það þjóni börnunum okkar sem best. Ég setti mér það markmið strax í upphafi, hef róið að því öllum árum og nú er komið að vendipunkti í þeirri vinnu.
Ég þykist vita að flestir hugsi breytingar þannig að þær eigi að vera til batnaðar. Hér er um að ræða mjög viðamiklar breytingar og til þess að vera viss um að þær skili árangri þótti mér nauðsynlegt að styðjast við mælitæki sem gæfi til kynna hvernig staðan er, hvaða breytinga er þörf og hvernig svo tekst til með þær aðgerðir sem framkvæmdar eru.
Í því skyni var í júní síðastliðinn samið um þróun mælaborðs sem ætlað er að tryggja betri yfirsýn yfir velferð barna. Aðilar samningsins eru auk félagsmálaráðuneytisins, Kópavogsbær, UNICEF á Íslandi og hugbúnaðarfyrirtækið Kara Connect. Mælaborðinu er ætlað að vinna og greina gögn í þeim tilgangi að mögulegt verði að sjá sem allra best á hvaða sviðum þurfi að bregðast við og hvort viðbrögðin skili tilætluðum árangri. Því er ætlað að tryggja rétta stýringu aðgerða og þar með betri nýtingu fjármuna.
Vonir standa til þess að í náinni framtíð muni mælaborðið geta nýst hverju og einu sveitarfélagi og þar með landinu öllu. Á ráðstefnunni 2. október verður mælaborðið kynnt frekar og gefst þátttakendum kostur á að leggja sitt af mörkum við þróa það áfram. Auk þess verður farið yfir fyrirhugaðar kerfisbreytingar í þágu barna í heild. Fullt er á ráðstefnuna en áhugasömum er bent á að fylgjast með beinu streymi á vef Stjórnarráðsins.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. september 2019