Hoppa yfir valmynd
07. nóvember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samvinna Norðurlandanna stuðli að hagkvæmara og vistvænna húsnæði

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra skrifar:

Hagkvæmara og vistvænna húsnæði var til umfjöllunar á fundi byggingarmálaráðherra Norðurlandanna sem haldinn var hér á landi í tilefni af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni í október. Í kjölfarið skuldbundum við okkur með sameiginlegri yfirlýsingu til að leitast við að vera í fararbroddi þegar kemur að því að samræma byggingarreglugerðir og þróa lausnir sem draga úr losun í byggingariðnaði.

Íslenskar aðstæður eru að sumu leiti frábrugðnar hvað varðar byggingariðnað en ég er þess fullviss að við eigum mikil sóknarfæri hvað þetta snertir. Íslenskur byggingariðnaður á að geta orðið leiðandi hvað varðar það að draga úr umhverfisáhrifum en til þess að svo verði þurfa stjórnvöld að auka samstarf sitt við innlenda framleiðendur og vinna þéttar með byggingariðnaðinum við að þróa lausnir.

Í tengslum við fund ráðherra Norðurlandanna var einmitt lögð áhersla á aukið samstarf stjórnmála og atvinnulífs þegar kemur að byggingarmálum. Fram fóru hringborðsumræður með forstjórum úr byggingariðnaðinum hér heima og á hinum á Norðurlöndum. Þar var meðal annars fjallað um hvað stjórnvöld og byggingargeirinn geta gert til að auka samvinnu Norðurlandanna í byggingariðnaðinum. Tilgangurinn var að finna raunhæfar leiðir til að hægt sé að byggja hagkvæmara og vistvænna húsnæði en það er áskorun sem öll norrænu löndin standa frammi fyrir.

Það var samdóma álit þátttakenda að með því að styrkja og efla samstarf Norðurlandanna skapist tækifæri til að auka framboð hagkvæms húsnæðis. Það má meðal annars gera með því að samræma byggingarreglugerðir og koma á rafrænum upplýsingagáttum en ekki síður með því að deila þekkingu og reynslu. Það er til mikils að vinna því ólík regluverk draga úr hagkvæmni á byggingarmarkaði.

Lífskjarasamningarnir sem undirritaðir voru síðasta vor fólu í sér umfangsmiklar aðgerðir í húsnæðismálum sem unnið er að því að koma í framkvæmd í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðar. Stór hluti af þeirri vinnu snýr einmitt að því að gera húsnæði hagkvæmara. Það er sannfæring mín að aukið samstarf milli Norðurlandanna ætti að vera til þess fallið að auka hagkvæmni í byggingariðnaði. Það ætti jafnframt að geta gert hann vistvænni. Í þessu sambandi er mikilvægt að íslenskur iðnaður sé í fararbroddi og horft sé sérstaklega til þess hvernig við getum eflt innlenda framleiðslu og gert hana umhverfisvænni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. nóvember 2019

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta