Ávarp ráðherra á Húsnæðisþingi 2019: Jafnrétti og jafnvægi á húsnæðismarkaði
Ávarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, flutt á Húsnæðisþingi 27. nóvember 2019
Ágætu þinggestir, verið velkomin á húsnæðisþing sem nú er haldið í þriðja sinn. Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag. Þing sem þessi eru mikilvæg og bera iðulega góðan ávöxt. Það er vegna þess að hingað komum við saman, stjórnvöld, byggingaraðilar, lánveitendur, og síðast en ekki síst almenningur. Við förum yfir stöðu húsnæðismála metum árangur þeirra aðgerða sem ráðist hefur verið í og – það sem skiptir mestu máli – ræðum hvernig við getum gert enn betur í þessum mikilvæga málaflokki sem varðar okkur öll.
Stefna þessarar ríkisstjórnar í húsnæðismálum hefur frá upphafi verið að tryggja jafnvægi og nægjanlegt framboð húsnæðis fyrir alla, óháð efnahag og búsetu.
Við hljótum að vera sammála um að það sé grunnforsenda þess að viðhalda öflugu samfélagi um land allt.
Það hefur ekki farið framhjá neinum að íslenski íbúðamarkaðurinn hefur sveiflast mikið undanfarna áratugi. Ýmist er skortur á húsnæði eða offramboð, markaðurinn ýmist á hraðri uppleið eða botnfrosinn. Sama má segja um aðgang að lánsfé á húsnæðismarkaði.
Þetta viðvarandi ójafnvægi hefur leitt til þess að stjórnvöld hafa að undanförnu lagt sérstaka áherslu á að mynda trausta umgjörð um húsnæðismál.
Á síðastliðnu ári voru gerðar mikilvægar breytingar á lögum um húsnæðismál í þessu skyni:
Hlutverki Íbúðalánasjóðs var breytt þannig að stefnumótun, rannsóknum, greiningum og áætlanagerð var gert hærra undir höfði en áður. Sjóðurinn er ekki lengur bara lánasjóður, heldur hefur hlutverkið færst nær því sem þekkist á Norðurlöndunum. Nú ber Íbúðalánasjóður ábyrgð á allri framkvæmd húsnæðismála. M.a. að vinna að stefnumótun á sviði húsnæðismála og vera ráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar um mótun húsnæðisstefnu. Jafnframt að annast og beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á sviði húsnæðismála og koma á framfæri við almenning upplýsingum er varða húsnæðismál. Þetta tel ég vera stórt skref í rétta átt og mikilvægt til að bæta rannsóknir, upplýsingar og gagnsæi fyrir alla aðila markaðarins.
Með breytingunni var einnig skerpt á hlutverki sveitarfélaga í húsnæðismálum og gerðar ríkari kröfur til þeirra. Meðal annars hvað varðar gerð húsnæðisáætlana sem eiga að draga fram mynd af stöðu húsnæðismála í hverju sveitarfélagi fyrir sig, greina framboð og eftirspurn eftir mismunandi búsetuformum og að tryggja að sveitarfélög geri áætlun um hvernig þau ætli að mæta húsnæðisþörf til lengri og skemmri tíma. Þessar áætlanir eiga að verða helsta stjórntæki hins opinbera í húsnæðismálum til framtíðar. Raunar munum við á eftir, í erindi Sigrúnar Ástu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Greininga- og áætlanasviðs Íbúðalánasjóðs, heyra hvernig þetta stjórntæki er þegar farið að nýtast til að meta hversu mikið þurfi að byggja á næstunni og hvar.
Góðir gestir.
Í aðdraganda síðustu kjarasamninga kom skýrt fram að umbætur í húsnæðismálum væru forsenda farsælla kjarasamninga og því lögðu stjórnvöld ásamt aðilum vinnumarkaðarins í umfangsmikla vinnu við að greina stöðuna og leggja til aðgerðir til úrbóta. Átakshópur um húsnæðismál sem skipaður var í kjölfar síðasta húsnæðisþings skilaði tillögum sínum í janúar síðastliðnum. Tillögurnar sneru að aðgerðum sem stuðla að auknu framboði á hagkvæmum íbúðum, lægri samanlögðum húsnæðis og samgöngukostnaði, lægri byggingarkostnaði, styttri byggingartíma, aukinni leiguvernd og bættri upplýsingagjöf. Þessar tillögur eru án nokkurs efa lykilþáttur í aðgerðum stjórnvalda til stuðnings Lífskjarasamningunum og því afar mikilvægt að fylgja þeim vel eftir. Verkefnið hefur fengið heitið “Húsnæði fyrir alla” og hefur Íbúðalánasjóði verið falið að fylgja tillögunum eftir og skila reglulega skýrslu til mín og ríkisstjórnarinnar um stöðu mála.
Nú hefur annarri stöðuskýrslu verkefnisins verið skilað og það er ánægjulegt að sjá það gríðarlega mikla starf sem unnið hefur verið síðan í vor. Og óhætt er að fullyrða að flestar tillögurnar eru vel á veg komnar.
Ágætu gestir.
Framlög sem ríki og sveitarfélög geta veitt til uppbyggingar félagslegra íbúða í almenna íbúðakerfinu hafa verið stóraukin. Frá fyrstu úthlutun stofnframlaga í árslok 2016 hefur tæplega 12 milljörðum króna verið úthlutað í formi stofnframlaga til byggingar eða kaupa á 2.123 almennum íbúðum. Þetta eru mjög umfangsmiklar aðgerðir, samtals framkvæmdir upp á hátt í 60 milljarða. Þessu fé er varið til byggja og kaupa til hagkvæmar íbúðir. Óhætt er að segja að með almennum íbúðum, eins og þær eru kallaðar, stóraukist öryggi leigjenda þar sem langtímaleigusamningar með sanngjörnu leiguverði verða meginregla á leigumarkaði í almenna íbúðakerfinu, ólíkt tímabundnum leigusamningnum sem eru svo algengir í dag. Í frumvarpi sem nú er til meðferðar á Alþingi eru lagðar til breytingar á tekju- og eignamörkum leigjenda, þannig að hærra hlutfall landsmanna eigi kost á leigu í almennum íbúðum. Einnig voru lagðar til breytingar á lögunum í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra síðastliðin ár svo þau nái betur markmiðum sínum.
Umhverfis- og loftslagsmál eru ofarlega á blaði um þessar mundir. Íslensk stjórnvöld hafa, enn sem komið er, ekki mótað heildarstefnu um uppbyggingu vistvænna mannvirkja. Þrátt fyrir það hafa stjórnvöld tekið á sig ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar til að bregðast við hamfarahlýnun af mannavöldum og mótað sér stefnu og áætlun í þeim efnum, sem margar hverjar tengjast byggingariðnaðinum og búsetuháttum fólks. Dæmi um slíkt er stefnan um orkuskipti í samgöngumálum. Í skýrslu starfshóps sem var falið að móta tillögur um aðgerðir til að hraða orkuskiptum hér á landi kom fram að eitt af því sem tafið geti orkuskipti séu hleðslumöguleikar í fjöleignarhúsum.
Frumvarp um breytingu á lögum um fjöleignarhús þar sem gerðar eru breytingar, m.a. í því skyni að gera almenningi kleift að koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla í fjöleignarhúsum hefur verið unnið af hálfu nefndar á vegum félagsmálaráðuneytisins og verður það lagt fram á næstu dögum. Við þurfum áfram að skoða hvað við getum gert til að stuðla að lækkandi kolefnisspori byggingariðnaðar og að skipulag stuðli að minni útblæstri í tengslum við lifnaðarhætti okkar og val á húsnæði.
Góðir gestir.
Málefni mannvirkja færðust úr umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins um síðustu áramót og nú liggur fyrir þingið frumvarp þar sem lögð er til sameining þess hluta Íbúðalánasjóðs sem fer með framkvæmd húsnæðisstefnu og húsnæðisstuðnings stjórnvalda og Mannvirkjastofnunar. Markmiðið með sameiningunni er að efla stjórnsýslu, stefnumótun og framkvæmd húsnæðis og mannvirkjamála hér á landi ásamt því að skerpa á stjórnsýslu byggingarframkvæmda og auka samstarf hagsmunaaðila á sviði húsnæðismála.
Upplýsingar um húsnæðismál eru mikilvægar fyrir alla sem koma að húsnæðismarkaði með einum eða öðrum hætti, hvort sem um er að ræða almenning, stefnumótandi aðila á markaðnum, fjármagnseigendur, lánastofnanir eða byggingariðnaðinn. Ný sameinuð, Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun mun hafa heildarsýn yfir málaflokkinn og getur því stuðlað að skilvirkari áætlanagerð og markvissari eftirfylgni byggingaframkvæmda, auk þess sem stigin verða mikilvæg skref í átt að rafrænni stjórnsýslu með eflingu byggingargáttarinnar og húsnæðisgrunns Íbúðalánasjóðs. Þannig mun Húsnæðis- og mannvirkjastofnun geta framkvæmt og fylgt eftir áherslum stjórnvalda í húsnæðismálum hverju sinni og tryggt að þær skili þeim árangri sem stefnt var að.
Góðir þinggestir.
Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að finna lausnir á húsnæðisvanda landsbyggðarinnar. Áskoranir í húsnæðismálum á landsbyggðinni geta verið frábrugðnar þeim sem raunin er á höfuðborgarsvæðinu þar sem uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur ekki fylgt auknum íbúafjölda. Allmörg dæmi eru um að skortur á íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni hafi staðið atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum. Við þessu þarf að bregðast.
Til þess að fólk geti búið og starfað á landinu öllu þarf að vera aðgangur að viðunandi húsnæði á öllum landssvæðum. Nú hafa verið lagðar fram tillögur til að mæta þeim vanda sem skapast af misvægi á milli byggingarkostnaðar og markaðsvirðis íbúða í dreifðum byggðum, en ekki síður til að tryggja þeim sem vilja kaupa eða byggja húsnæði á landsbyggðinni sambærileg kjör og þeim sem kaupa á höfuðborgarsvæðinu.
Að mínu frumkvæði var Leigufélagið Bríet stofnað í árslok 2018. Bríet er sjálfstætt leigufélag í eigu Íbúðalánasjóðs, stofnað af norrænni fyrirmynd og er rekið án hagnaðarsjónamiða. Markmið Bríetar er að vera hluti af uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar á landsbyggðinni og rjúfa þá stöðnun sem ríkt hefur á húsnæðismarkaði víða um land. Bríet er ætlað það hlutverk að starfa mjög náið með sveitarfélögum á landsbyggðinni.
Ég bind miklar vonir við þessar aðgerðir á landsbyggðinni. Framkvæmdir eru víða farnar af stað á grunni þessara aðgerða og ég býst fastlega við að húsnæðisframkvæmdir á landsbyggðinni aukist enn frekar á næstunni.
Hér á húsnæðisþinginu í morgun var fjallað mjög ítarlega um stöðuna á leigumarkaði. Til að bregðast við þeirri umræðu sem þar kom fram þá vil ég skýra frá því að við erum með frumvarp til breytinga á húsaleigulögum í vinnslu og hyggjumst við leggja það fram á næstu vikum. Leigjendur telja sig búa við mun minna húsnæðisöryggi en þeir sem búa í eigin húsnæði. Það er skýrt að mínu mati að við þurfum að bæta réttarstöðu þessa hóps. Frumvarpið verður kynnt á næstunni og við vinnslu þess erum við meðal annars að horfa til tillagna sem komu fram á samráðsdegi leiguvettvangsins fyrr í haust.
Góðir gestir.
Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði þá stefnir meirihluti leigjenda á að færa sig af leigumarkaði og kaupa sína fyrstu fasteign. Þar mæta þeim hins vegar töluverðar hindranir og áskoranir sem ég legg mikla áherslu á að leysa í samstarfi við hagsmunaaðila.
Í skýrslu starfshóps um leiðir til að auðvelda ungu fólki og tekju og eignalágum aðgengi inn á húsnæðismarkaðinn, sem ég fékk afhenda sl. vor, var meðal annars lagt til að skoðað yrði að taka upp annaðhvort startlán að norskri fyrirmynd og/eða hlutdeildarlán (e. equity loan) að enskri fyrirmynd. Slík hlutdeildarlán eða eiginfjárlán eiga að brúa bilið fyrir þá sem eiga þess ekki kost að safna sér fyrir útborgun í íbúð. Hugmyndafræðin er þessi; ríkið lánar ákveðnum kaupendahópum fjármagn fyrir hluta af útborguninni og fær það svo endurgreitt við sölu eignarinnar eða þegar kaupandinn endurfjármagnar lánið. Þetta er spennandi valkostur og við höfum skoðað ítarlega framkvæmd þessara lánveitinga í Bretlandi og Skotlandi þar sem þær hafa gefist mjög vel, en þessi tilhögun þekkist einnig í Bandaríkjunum.
Raunhæft dæmi um Hlutdeildarlán er svona; íbúð kostar 30 milljónir, kaupandi þarf að leggja sjálfur fram eina og hálfa milljón í eigið fé eða 5% af kaupverði, ríkið lánar 6 milljónir og eftirstöðvarnar eru fjármagnaðar með óverðtryggðu húsnæðisláni, frá fjármálastofnun. Þegar eignin verður seld fær ríkið lánið endurgreitt og svarar endurgreiðslan þá til sama hlutfalls af verðmæti eignarinnar og upphaflega lánið. Hafi eignin hækkað í verði hækkar greiðsla til ríkisins en hafi eignin lækkað verður greiðsla til ríkisins að sama skapi lægri. Kaupendur í þessu úrræði geta fullnýtt skattfrjálsan húsnæðissparnað til útborgunar, auk þess sem lagt er til að ráðstafa megi tilgreindri séreign sem er 3,5% lífeyrisiðgjalds skattfrjálst til lækkunar óverðtryggða húsnæðislánsins og þannig verður eignamyndununin enn hraðari. Þetta úrræði er í samræmi við svissnesku leiðina þar sem lífeyrissparnaði er ráðstafað til húsnæðiskaupa.
Starfshópur sem ég skipaði í byrjun nóvember hefur verið að störfum undanfarnar vikur til að undirbúa frumvarp um málið. Fyrirhugað er að leggja frumvarpið fram á yfirstandandi löggjafarþingi. Þá hvet ég ykkur til að hlusta vel á erindi Kenneths Camerons hér á eftir en hann bauðst til að koma hingað í tilefni af húsnæðisþinginu og segja frá reynslu Breta af opinberum hlutdeildarlánum eða Help to buy eins og verkefnið heitir þar.
Góðir þinggestir.
Ljóst er að mikil endurskipulagning og umbótarvinna hefur átt sér stað á sviði húsnæðismála að undanförnu. Stjórnskipulag hefur verið einfaldað með tilfærslu mannvirkjamála yfir í félagsmálaráðuneytið, umfangsmikil vinna við gerð og úrvinnslu húsnæðisáætlana sveitarfélaga hefur farið fram, ásamt því að rúmlega 40 húsnæðistillögur í tengslum við lífskjarasamninga eru í úrvinnslu. Þá hefur hlutverk Íbúðalánasjóðs sem stjórnvalds á sviði húsnæðismála tekið mikilvægum breytingum og fyrirhuguð er sameining Mannvirkjastofnunar og Íbúðalánasjóðs um næstu áramót.
Með þessari sameiningu myndast einnig skýrari vettvangur fyrir samstarf Norðurlandanna á sviði byggingarmála, en fyrir liggur fyrir að Norðurlöndin vilja efla samstarf um samræmingu á byggingaregluverki landanna í tengslum við loftslagsmál og hefur nú verið sett af stað vinna í þeim efnum.
Nú í haust var haldinn hér á landi fyrsti fundur í formlegu samstarfi húsnæðisráðherra á Norðurlöndum. Á fundinum var undirrituð yfirlýsing ráðherranna um samstarf í því skyni að samræma byggingarreglugerðir og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá húsnæði og byggingariðnaði. Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að leggja þurfi meiri áherslu á hringrásarhagkerfi og aukið samstarf með skýr markmið um að draga úr losun frá húsnæði og byggingariðnaði. Þetta er vinna sem við þurfum að setja af stað í góðu samstarfi við íslenskan byggingariðnað og er það nú í undirbúningi.
Allar þessar aðgerðir sem ég hef nefnt í ræðu minni hér í dag eru liður í því að bæta umgjörð húsnæðismála hér á landi og leggja þær mikilvægan grunn að mótun heildstæðrar húsnæðisstefnu fyrir Ísland.
Meginmarkmið þessara umbóta er að stuðla að auknu jafnvægi húsnæðismarkaðar. Þetta gerum við með bættum greiningum og upplýsingagjöf, eflingu stuðningskerfa, samræmdri stefnumörkun í uppbyggingu félaglegs húsnæðis, auknu gagnsæi á leigumarkaði og betra aðgengi ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn.
Markmið þeirra breytinga sem við vinnum nú að í húsnæðismálum er skýrt: að tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði og nægilegt framboð húsnæðis fyrir alla, óháð efnahag og í öllum byggðum landsins. Aðgerðir í húsnæðismálum koma okkur öllum vel og snerta okkur öll, enda eru öruggt húsnæði grundvallaratriði í góðu samfélagi.
Takk fyrir.