Hoppa yfir valmynd
21. desember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stórt skref í átt að bættum hag barnafjölskyldna

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra skrifar:

Alþingi hefur nú samþykkt frumvarp mitt um lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf. Lengist það í tíu mánuði strax um næstu áramót og verður lengingin að fullu komin til framkvæmda 1. janúar 2021. Góð samstaða var um málið á Alþingi og greiddu 54 þingmenn atkvæði með frumvarpinu. Það er mikið fagnaðarefni enda erum við að stíga stórt skref í átt að bættum hag barnafjölskyldna í landinu. Til að undirstrika það má nefna að samþykktin felur í sér að það heildarfjármagn sem rennur til fæðingarorlofs mun hækka úr tíu milljörðum í tuttugu þegar aðgerðirnar verða að fullu komnar í framkvæmd.

Baráttumál verður að lögum
Ég er þess fullviss að lenging fæðingarorlofs mun gagnast fjölmörgum og þá auðvitað allra helst okkar yngsta og viðkvæmasta þjóðfélagshópi. Ég gleðst ekki síður persónulega enda ekkert launungarmál að endurreisn fæðingarorlofskerfisins hefur verið eitt helsta áherslumál mitt í embætti frá upphafi. Hámarksgreiðslur voru hækkaðar umtalsvert um síðustu áramót og nú er lengingin í höfn en hvort tveggja var að mínu mati löngu tímabært. Við vitum að börnum á fyrsta aldursári er fyrir bestu að dvelja sem mest í umsjá foreldra sinna og er ég stoltur af því að hafa átt þátt í að stuðla að auknum samvistum foreldra og barna. Ég er sannfærður um að það sé hverju barni gott veganesti út í lífið.

Frekari úrbætur í vændum
Ekki verður þó látið hér við sitja því fyrr á þessu ári skipaði ég nefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða lög um fæðingar- og foreldraorlof í heild sinni. Á næsta ári verða liðin tuttugu ár frá gildistöku laganna. Þau þóttu byltingarkennd á sínum tíma en tímabært er að endurskoða ýmis ákvæði þeirra. Í þeirri vinnu verður tekið tillit til ýmissa álitaefna sem komið hafa fram sem mun án efa skila frekari umbótum á kerfinu. Er gert ráð fyrir að vinnu nefndarinnar ljúki um mitt næsta ár og að lagt verði fram nýtt frumvarp á haustþingi 2020.

Samhliða umbótum á fæðingarorlofskerfinu þarf líka að tryggja að börnum bjóðist leikskólavist þegar rétti foreldra til fæðingarorlofs lýkur, en vantað hefur upp á þá samfellu í kerfinu. Af þeim sökum hef ég óskað eftir formlegu samtali við sveitarfélög með það að markmiði að hægt verði að tryggja öllum börnum leikskólavist við tólf mánaða aldur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. desember 2019

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta