Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Framsöguræða félags- og vinnumarkaðsráðherra vegna landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Virðulegi forseti.

Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024 – 2027, sem um leið er landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum 1. Júlí 2022 að unnin yrði slík landsáætlun í víðtæku samráði hagaðila. Áætlunin er lögð fram á grunni laga um þjón­ustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

Sú framkvæmdaáætlun sem hér er fram lögð er sú þriðja í málaflokknum. Áður hafa verið samþykktar framkvæmdaáætlanir í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2012-2014 og 2017–2021.

Tillagan er mikilvægur liður í lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur fram að lögfesta skuli samninginn á kjörtímabilinu. Stefnt er að því að frumvarp um lögfestinguna verði lagt fram síðar á kjörtímabilinu. Samhliða lögfestingunni er stefnt að því að fullgilda valfrjálsa bókun við samninginn, en sú bókun felur í sér kvörtunarleið til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks vegna brota á samningnum.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti samning um réttindi fatlaðs fólks og val­kvæða bókun hans árið 2006. Í mars 2007 var opnað fyrir undirskriftir og þann dag ritaði 81 aðildarríki undir samninginn, þar á meðal Ísland. Alls hafa 187 aðildarríki full­gilt samninginn og var það gert á Íslandi árið 2016. Samningurinn viðurkennir mannréttindi fatlaðs fólks, sem eru þau sömu og annarra, og staðfestir jafnframt rétt fatlaðs fólks til að njóta þeirra réttinda.

Markmið samningsins, eins og fram kemur í 1. gr. hans, er að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess. Þau borgaralegu, menningarlegu, efnahagslegu, stjórnmálalegu og félagslegu réttindi sem samningurinn mælir fyrir um taka til allra einstaklinga, en samningurinn tiltekur þær aðgerðir sem aðildarríki verða að grípa til í því skyni að tryggja að fatlað fólk njóti þeirra til jafns við aðra. Samningurinn tekur einnig sérstaklega á réttindum kvenna og barna og málefnasviðum þar sem aðgerða aðildarríkja er þörf, svo sem á sviði vitundarvakningar, tölfræði- og gagna­söfn­unar og alþjóðlegs samstarfs.

Virðulegi forseti.

Þeirri þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram er ætlað að fela í sér skýra framtíðarsýn, kortlagningu, greiningu og mat á kostum í þjónustu og þróun réttinda fatlaðs fólks, til þess að stuðla að farsælli innleiðingu samningsins. Í áætluninni eru tilgreindar 57 aðgerðir sem falla undir sex þætti. Þættirnir eru vitundarvakning og fræðsla, aðgengi, sjálfstætt líf, menntun og atvinna, þróun þjónustu og lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

  1. Stærstur hluti aðgerða heyrir undir vitundarvakningu og fræðslu, enda er grundvallaratriði að auka vitund almennings um stöðu og aðstæður fatlaðs fólks í samfélaginu. Þegar skilningur og þekking hafa aukist verður mun auðveldara að innleiða breytingar á grundvelli áætlunarinnar. Lögð verður áhersla á að auka sýnileika fatlaðs fólks í almennri umræðu, ekki bara á grundvelli fötlunar sinnar heldur sem sérfræðingar og neytendur. Einnig er þörf á að auka þekkingu og meðvitund almennings og fagfólks í ýmsum stéttum um réttindi fatlaðs fólks og þær skyldur sem samningurinn felur í sér.

  2. Að hafa aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra eru grundvallarréttindi fatlaðs fólks. Í þeim hluta er varðar aðgengi koma fram aðgerðir sem allar miða að því að auka aðgengi fatlaðs fólks. Er þar átt við aðgengi í víðasta skilningi; að mannvirkjum, heimasíðum og rafrænum gögnum, sem og aðgengi að húsnæði við hæfi. Áhersla er lögð á að þróaðir verði gæðavísar og gæðaviðmið, handbækur og fræðsla um aðgengi fyrir öll.

  3. Réttur fatlaðs fólks til að lifa sjálfstæðu lífi er ein meginreglan í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þannig miða aðgerðir í flokknum sjálfstætt líf að því að auka sjálfstæði og val fatlaðs fólks, sem og rétt þeirra til viðunandi lífskjara og húsnæðis.

  4. Aðgerðir sem falla undir menntun og atvinnu miða að því að auka aðgengi að fjölbreyttum tækifærum til menntunar og atvinnu án aðgreiningar og stuðla að því að fatlað fólk geti tekið fullan þátt í námi og á vinnumarkaði á eigin forsendum.

  5. Þjónusta við fatlað fólk þarf að vera í sífelldri þróun og endurskoðun, samhliða þeirri samfélagsþróun sem á sér stað á hverjum tíma. Í þróunarhluta framkvæmdaáætlunar er áhersla lögð á öflun gagna, miðlun upplýsinga og aukna þekkingu um stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Auk þess miða þær að aukinni samræmingu og samþættingu þjónustu hinna ýmsu þjónustukerfa og þjónustuaðila.

  6. Síðasti þátturinn felur í sér aðgerðirnar er lúta að lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samninginn.

Virðulegi forseti.

Eins og þessi skipting aðgerða ber með sér felur framkvæmdaáætlun í sér aðgerðir sem varða nær alla þætti samfélagsins. Mig langar að nefna sérstaklega nokkrar aðgerðir sem ég tel að sýni breiddina sem býr í þessari áætlun.

Vil ég þar fyrst nefna aðgerð A.4. er varðar endurskoðun aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks felur í sér ákvæði um að vinna skuli gegn staðalímyndum og efla vitund um getu og framlag fatlaðs fólks. Til þess að svo megi verða skulu aðildarríki ýta undir að virðing fyrir réttindum fatlaðs fólks ríki á öllum sviðum menntakerfisins. Aðgerðin felst í því að rýndir verði sameiginlegir kaflar í aðalnámskrám leik-, grunn- og fram­halds­skóla, þar sem fjallað er um jafnrétti. Í kjölfar endurskoðunar verði unnið námsefni við hæfi fyrir hvert skólastig, með áherslu á félagslegan skilning á fötlun og fötlun sem eðlilegan hluta mannlegs marg­breytileika. Þannig vonumst við til að auka víðsýni og skilning einstaklinga frá unga aldri og auka þekkingu á styrkleikum og réttindum fatlaðs fólks. Með því getum við dregið úr fordómum til framtíðar.

Önnur aðgerð sem ég tel að muni auka vitundarvakningu er aðgerð A.10. Hún felur í sér að allir flokkar á þingi skipi einn þingmann sem talsmann fatlaðs fólks, eins og gert hefur verið með talsmönnum barna á þingi. Fatlað fólk hefur innsýn í málefni sem ófatlað fólk hefur ekki og brýnt er að laða fram sjónar­mið þess áður en ákvarðanir eru teknar sem koma til með að hafa áhrif á líf fatlaðs fólks til jafns við aðra. Með því að skipa einn þingmann úr hverjum flokki sem talsmann fatlaðs fólks er bæði hægt að auka vitund og skilning á Alþingi um málaflokkinn og auka aðgengi fatlaðs fólks að pólitískum fulltrúum.

Mikið hefur verið rætt undanfarin misseri um rafrænt aðgengi fyrir fatlað fólk og það ekki að ástæðulausu. Hröð þróun á tæknilausnum, m.a. í heilbrigðis- og fjármálaþjónustu, hefur skilið ákveðna hópa  fólks eftir. Aðgerð B.2. fjallar um þetta og er þar lögð áhersla á að þróaðar verði lausnir sem nýst geta þessum hópum til að nálgast gögn sín og þá þjónustu sem þeir eiga rétt á. Áætlað er að því verði lokið árið 2024.

Flokkur D fjallar um menntun og atvinnu, sem eru grundvöllur að því að geta lifað sjálfstæðu lífi. Aðgerðir D.5. og D.6. fjalla um aukið framboð og aðgengi að námi, annars vegar starfstengdu námi og hins vegar að námi á háskólastigi. Lagt er til að hagaðilar vinni saman að því að leita leiða til að tryggja aðgengi að námi fyrir fólk með fjölbreyttan bakgrunn í því skyni að fjölga tækifærum til bættra lífsgæða og til að fá atvinnu að eigin vali að námi loknu.

Virðulegi forseti.

Sú áætlun sem hér er lögð fram var unnin í miklu og góðu samráði við fatlað fólk og hagsmunasamtök þeirra, við fulltrúa sveitarfélaga og við önnur ráðuneyti.

Verkefnisstjórn var skipuð í október 2022, en í henni sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, heil­brigðis­ráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, inn­viða­ráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Geðhjálpar, Lands­samtakanna Þroskahjálpar, ÖBÍ réttindasamtaka og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, undir forystu þess síðastnefnda. Í kjölfar umsagna sem bárust í gegnum samráðsgátt hefur námsbraut í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands verið boðið að taka sæti í verkefnisstjórninni.

Með verkefnisstjórn störfuðu 11 vinnuhópur að mótun áætlunarinnar, en 33 ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna var skipt upp á milli hópanna og á grundvelli greiningar á stöðu hvers ákvæðis hér á landi mótuðu vinnuhóparnir tillögur að aðgerðum til að nálgast markmið samningsins. Í hverjum vinnuhópi sátu fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks, sveitarfélaga og Stjórnarráðsins, þ.e. starfsmenn ráðuneyta eða stofnana þeirra. Fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks leiddu vinnu hópanna. Vinnuhóparnir kynntu tillögur sínar að aðgerðum á vel sóttu samráðsþingi í Hörpu í febrúar 2023 og fengu viðstaddir einnig tæki­færi til þess að leggja mat sitt á þær tillögur.

Til viðbótar við þær aðgerðir sem unnar voru af vinnuhópunum komu níu aðgerðir frá starfs­hópi um aukin náms- og starfstækifæri, sem skipaður var af félags- og vinnumarkaðs­ráðherra í samráði við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og barnamála­ráðherra í lok árs 2022. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar þeirra ráðuneyta og stofnana sem að mála­flokknum koma, auk fulltrúa frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, samtökum aðila vinnu­markaðarins og fræðsluaðilum. Hópurinn mun skila skýrslu sinni á næstu dögum.

Á tímabilinu maí til ágúst hélt ég tíu opna samráðs­fundi ásamt fulltrúum ráðuneytisins og hagsmunasamtök­um. Níu fundir voru haldnir vítt og breitt um landið og einn rafrænt. Sköpuðust á fundunum miklar umræður og hlaut áætlunin góðar viðtökur. Áætlunin hefur einnig verið kynnt í samráðsgátt og bárust gagnlegar og jákvæðar umsagnir.

Virðulegi forseti.

Það er ekki hægt að ræða stefnumótun í málaflokki fatlaðs fólks án þess að ræða kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Undanfarin ár hefur mikil umræða átt sér stað um fjármögnun málaflokksins og hefur hún á köflum tekið yfir umræðu um það sem vel er gert af hendi beggja aðila. Fatlað fólk hefur liðið fyrir þessa umræðu sem hefur stundum verið á þann veg að það sé byrði á samfélaginu. Sumarið 2022 skipaði ég starfshóp með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga sem fékk það hlutverk að móta tillögur um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk. Starfshópurinn vann ötullega síðastliðið ár sem varð til þess að við náðum langþráðum áfanga með undirritun samkomulags um breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólks. Samkomulagið var undirritað af innviðaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga ásamt þeim sem hér stendur þann 15. desember síðastliðinn.

Þetta er stór áfangi og bind ég miklar vonir við að með þessu samkomulagi getum við haldið áfram að vinna að faglegu samstarfi á sama tíma og við höldum áfram að ræða ábyrgðar- og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum. Líður í því er skipun framtíðarhóps ríkis, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks í málaflokknum. Með samkomulaginu hefur verið tryggt fjármagn fyrir þróun og nýsköpun í málefnum fatlaðs fólks. Ég hlakka til þess samstarfs. 

Virðulegi forseti.

Þær aðgerðir sem lagðar eru fram í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks fyrir árin 2024 -2027 eru á ábyrgð níu ráðuneyta. Aðgerðirnar eru fjölbreyttar og snerta þar af leiðandi mörg málefnasvið, stofnanir, sveitarfélög og aðra hagaðila. Nokkrar aðgerðir gera jafnframt ráð fyrir ítarlegri kortlagningu og greiningu áður en lengra er haldið. Framkvæmdaáætlunin er metin innan fjárhagsramma ráðuneytanna, en vissulega eru sumar aðgerðir þess eðlis að kostnaðarmat hefur ekki farið fram þar sem það er ekki tímabært. Kostnaðarmat verður ávallt unnið í samvinnu við sveitarfélög þar sem það á við en samráð milli ríkis og sveitarfélaga er forsenda laga- og reglugerðarbreytinga hvað varðar þjónustu í málaflokknum.

Virðulegi forseti.

Ég hef hér rakið helstu þætti í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks og það víðtæka samráð sem hún byggir á. Markmið framkvæmdaáætlunar er samhljóðandi 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks: Að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efld verði virðing fyrir eðlislægri reisn þess. Ég tel að vel hafi tekist til við að móta þær áherslur sem fram koma í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að íslenskum veruleika. Ég hef trú á því að þessi áætlun leggi grunn að langvarandi breytingum okkur öllum og þar með fötluðu fólki til hagsbóta. Það er einnig samfélaginu í heild sinni til hagsbóta.

Að lokinni umræðu legg ég til að þingsályktunartillögunni verði vísað til háttvirtrar velferðarnefndar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta