Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. maí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefna Kvenréttindafélags og Kvenfélagasambands Íslands

Góðir ráðstefnugestir.

Mér er ánægja og heiður að fá að ávarpa ykkur hér á Selfossi. Ég hef af sérstökum ástæðum miklar artir til kvenfélaga.
Í minni sveit, Svínavatnshreppi var stofnað næstfyrsta kvenfélag á Íslandi. Móðir mín Hulda Pálsdóttir skrifaði sögu þessa næstelsta kvenfélags landsins og ég las prófarkir að handritinu. Þetta hafa verið vitrar og framsýnar konur sem þar stóðu að verki.

Eftir að ég varð jafnréttisráðherra kynntist ég nánar starfi Kvenréttindafélagsins og fylgdist vel með störfum þess, sérstaklega meðan skrifstofustjóri minn, Sigríður Lillý Baldursdóttir var formaður Kvenréttindafélagsins.

Svo háttar til að flest eða öll málasvið félagsmálaráðuneytisins koma með einhverjum hætti að málefnum fjölskyldunnar og ég fullyrði að við viljum hafa hana í fyrirrúmi en ekki hornreku.

Ég mun nú fara nokkrum orðum um markmið og árangur félagsmálaráðuneytisins.
Í stefnuskrá ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er að finna eftirtalin atriði er varða málefni félagsmálaráðuneytisins:

"Að styrkja fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins og treysta samheldni hennar og velferð. Meðal annars verði dregið úr tekjutengingu í barnabótakerfinu, t.d. með útgáfu sérstakra barnakorta eða öðrum sambærilegum aðgerðum. Jöfn tækifæri karla og kvenna verði tryggð í hvívetna svo sem með lengingu fæðingarorlofs og jöfnun réttar mæðra til töku þess. Stuðningur við íþrótta- og æskulýðsstarf verði aukinn og hlúð að öðrum skilyrðum heilbrigðs fjölskyldulífs."

"Að gera áætlun um sérstakt átak í baráttunni gegn fíkniefnavandanum í samstarfi við foreldra og skóla, frjáls félagasamtök á sviði forvarna og meðferðarúrræða auk sveitarfélaga, íþrótta- og ungmennafélaga. Þeir meginþættir, sem unnið verði að, eru auknar forvarnaraðgerðir, samræming starfsemi lögreglu og tollgæslu og fjölgun meðferðarúrræða fyrir unga fíkniefnaneytendur."

Af hálfu félagsmálaráðuneytis hefur mikil áhersla verið lögð á að í öllum málum beri að taka sérstakt tillit til fjölskyldunnar. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs er gríðarlega mikilvægt úrlausnarefni í nútímaþjóðfélagi. Aukinn samverutími fjölskyldunnar er mikilvægur sem og réttur barna til samvista við föður og móður.

Við höfum látið verkin tala og alltaf reynt að hafa fjölskylduna í fyrirrúmi.

Fæðingarorlof hefur verið lengt úr sex í níu mánuði, þegar lögin hafa öðlast að fullu gildi um næstu áramót. Hin nýju lög tryggja barninu samvistir bæði við föður og móður og gerir ábyrgð þeirra gagnvart barninu jafna. Framvegis munu allir hafa sama rétt til fæðingarorlofs, sama hvort þeir starfa hjá hinu opinbera eða á almennum vinnumarkaði. Síðast en ekki síst mun fæðingarorlofið jafna kynbundinn launamun og gefa körlum jafnt sem konum kost á að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Foreldraorlof veitir foreldrum á vinnumarkaði rétt til 13 vikna orlofs á fyrstu 8 árum í ævi barnsins til að annast það. Um er að ræða sjálfstæðan rétt sem ekki er framseljanlegur milli maka. Samtals er þetta misseri á barn.
Bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar, löggjöf þar sem óheimilt er að segja manni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem hann ber.

Starfrækt er Barnahús þar sem unnt er að rannsaka hverskonar misnotkun gagnvart börnum og veitir jafnframt ungum þolendum kynferðislegs ofbeldis og fjölskyldum þeirra áfallahjálp og meðferð.

Meðferðarúrræðum fyrir unglinga á villigötum hefur stórfjölgað og sérhæfðum úrræðum vegna vímuefnameðferðar. Nú eru á vegum Barnaverndarstofu 85 vistunarúrræði og hefur þeim fjölgað um meira en helming frá 1995.

Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna var sett á fót 1996 og hefur sannað sig. Hún hefur liðsinnt um 3500 aðilum. Meirihluti þeirra sem til Ráðgjafarstofunnar hafa leitað telja sig hafa náð tökum á fjárhagsvandræðum sínum.
Sveigjanleiki gagnvart greiðslu meðlagsskulda hefur stóraukist. Hægt er nú að semja um vangoldnar skuldir og lækka greiðslubyrðina.
Komin er aðgerðaáætlun sem miðar að því að mæta þörf fyrir sambýli fatlaðra á næstu fimm árum í samvinnu við Hússjóð Öryrkjabandalags Íslands.

Skilvirkari húsnæðisstefna, afgreiðslur Íbúðalánasjóðs á þriggja ára tímabili, 1999–2001, eru u.þ.b. jafnmargar og afgreiðslur Húsnæðisstofnunar á sex ára tímabili, 1993–1998. Því er ljóst að skilvirkni Íbúðalánasjóðs með 53 stöðugildi er mun meiri en skilvirkni Húsnæðisstofnunar og Veðdeildar Landsbanka Íslands með 79 stöðugildi.

Húsbréfalán fást nú til 40 ára, en ekki bara til 25 ára eins og áður var. Tekjulágir geta fengið allt að 90% lán nú. Þeir sem keypt hafa fasteign með viðbótarláni eftir 1. janúar 1999 eiga rétt á samtímagreiddum vaxtabótum sem greiðast á 3ja mánaða fresti. Fjöldi þeirra sem fengið hafa viðbótarlán frá 1. janúar 1999 eru rúmlega 5000. Aldrei hafa fleiri tekjulágir einstaklingar og fjölskyldur komist í eigið húsnæði. Til samanburðar má geta þess að frá 1981–1997 var lánað út á samtals 6110 félagslegar eignaríbúðir, leiguíbúðir og kaupleiguíbúðir.
Aukin sveigjanleiki í húsnæðislánum, nýtt úrræði er heimild til að lengja upphaflegan lánstíma um 15 ár. Einnig mun lánstími lengjast ef um frystingu lána er að ræða, þannig að greiðslubyrðin að þeim tíma loknum verður viðráðanlegri heldur en ella.

Húsaleigubætur hafa stórhækkað á tímabilinu og eru skattfrjálsar frá og með árinu 2002. Sérstakt tillit er tekið til barnafjölskyldna og láglaunafólks. Hækkun húsaleigubóta til barnafólks árið 2001 var um 10%. Vextir verða niðurgreiddir á lánum til 400 leiguíbúða handa tekjulágum árlega, námsmönnum, öryrkjum og öldruðum og einnig íbúða sveitarfélaga.

Átak í byggingu leiguíbúða, að frumkvæði félagsmálaráðherra verða 600 leiguíbúðir byggðar aukalega á næstu fjórum árum til viðbótar almennum lánaheimildum Íbúðalánasjóðs vegna leiguíbúða. Þetta mun efla og styrkja leigumarkaðinn í landinu og jafnframt mun átakið stytta biðlista eftir leiguhúsnæði til muna. Búseti mun byggja og reka 300 þessara íbúða og önnur leigufélög hafa nú þegar sótt um flestöll þau lán sem í boði eru.

Sveitarfélögum hefur verið gert kleift að yfirtaka lán á innlausnaríbúðum og vandi sveitarfélaga vegna félagslega íbúðakerfisins verður leystur á næstu 5 árum.

Jafnréttisráðgjafi var settur niður á Blönduósi, hann hefur unnið svo gott starf að ákveðið er að atvinnu- og jafnréttisráðgjafar starfi á landsbyggðinni.
Félagsmálaráðuneytið og Byggðastofnun hafa hafið samstarf til ársins 2005 um þrjú stöðugildi á landsbyggðinni. Verkefnið er gríðarlega mikilvægt og mun bæta stöðu kvenna á landsbyggðinni meðal annars með fræðslu og ráðgjöf, til að tryggja að konur þar búi ekki við lakari aðstæður en konur á höfuðborgarsvæðinu.

Fjölsmiðjan, hefur verið sett á laggirnar. Fjölsmiðjan er verkþjálfunarsetur ætlað ungu fólki sem ekki hefur náð að fóta sig á vinnumarkaði eða í skólakerfinu. Markmiðið er að auðvelda þessu fólki að fóta sig á vinnumarkaðnum. Þorbjörn Jensson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í handbolta, tók að sér forstöðu og hefur náð ótrúlegum árangri með hópinn sinn 20–30 krakka sem hafa hætt í skóla.

Ný stofnun, Fjölmenningarsetur á Vestfjörðum, hóf starfsemi sína þann 30. júlí sl. Stofnuninni er ætlað að kynna fólki af erlendu bergi réttindi sín og skyldur í nýja landinu, veita túlka- og sérfræðiþjónustu og stunda rannsóknir og forvarnarstarf.

Á síðasta þingi var lögfestur aukinn kosningaréttur útlendinga við kosningar til sveitarstjórna. Norðurlandabúar fá kosningarétt eftir þriggja ára dvöl hér, aðrir eftir fimm ára dvöl.

Ný lög um atvinnuréttindi útlendinga bæta réttarstöðu þeirra svo og ný lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Með nýlegri vinnulöggjöf og lögum um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir hefur verið stórbætt skipan kjarasamninga og úrræði til að finna vinnu.
Atvinnuleysi hefur verið nær útrýmt og við þurfum að flytja inn vinnuafl í stórum stíl.

Ný jafnréttislög hafa verið sett og er nú jafnrétti á Íslandi betur tryggt með lögum en með öðrum þjóðum. Við höfum t.d. skilgreint kynferðislega áreitni í lögum einir þjóða. Það er í lagi að reyna fyrir sér en ef mótparturinn gefur ótvírætt til kynna að tilraunin sé óvelkomin og viðkomandi reynir samt aftur, þá er um kynferðislega áreitni að ræða. Ísland hefur tvisvar verið tekið til skoðunar af sérfræðinganefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám mismununar gegn konum og við höfum hlotið góðan vitnisburð.

Jafnréttisstofa var sett á stofn á Akureyri og aukið afl sett í jafnréttisstarf undir forystu Valgerðar Bjarnadóttur. Jafnréttisáætlun er í gildi og í vor lagði ég fyrir Alþingi skýrslu um framkvæmd jafnréttisáætlunar. Á henni sést að við erum að ná verulegum árangri.

Jafnréttisráð starfar af miklum þrótti undir forystu Elínar Líndal.

Nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum er að störfum og lætur mikið til sín taka undir forystu Unu Maríu Óskarsdóttur.

Nú eru yfir 36% alþingismanna konur og hafa aldrei verið fleiri. Af þeim framboðslistum sem ég hef séð til sveitarstjórnarkosninga, óttast ég að konum fjölgi ekki í sveitarstjórnum að þessu sinni. Það er að einhverju leyti konum sjálfum að kenna. Þær eru sumar of tregar til að taka sæti ofarlega á listum. Margir karlar taka líka ennþá of lítinn þátt í heimilistörfum.
Íslendingar búa við betri lífskjör og lífsgæði en flestar þjóðir í heiminum. Kaupmáttur rauntekna er með því besta sem þekkist og mikill og viðvarandi hagvöxtur um langt árabil.

Fjölskylduráð er að störfum undir forystu Drífu Sigfúsdóttur. Starfsemi þess þarf að endurskipuleggja nokkuð í ljósi reynslunnar og hef ég áhuga á því að fá því aukin verkefni.

Í félagsmálaráðuneytinu var í vetur sett á stofn sérstök skrifstofa fjölskyldumála undir stjórn Þórs G. Þórarinssonar og vænti ég mér mikils af störfum hans. Þá er í undirbúningi að opna sérstakan fjölskylduvef á netinu. Félagsmálaráðuneytið fer með málefni sveitarfélaganna og rækir eftirlitshlutverk sitt með þeim og félagsþjónustu þeirra. Í vetur var til dæmis könnuð starfsemi dagmæðra.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggur sveitarfélögum sérstök þjónustuframlög, þannig að þau geti veitt fjölskyldunum sem besta þjónustu og eru þjónustuframlögin verulegur þáttur í tekjum margra þeirra.

Í þessari viku voru afgreidd á Alþingi ný barnaverndarlög. Þetta er mikill lagabálkur með fjölda nýmæla og á að styrkja stöðu og réttindi barna.
Eftir helgina fer ég ásamt sendinefnd til New York og mun þar sitja Aukaallsherjarþing Sameinuðu þjóðanna um málefni barna. Ég mun flytja þar ræðu og greina frá stöðu mála.
Ég hef nú drepið á nokkra áfanga í málefnum fjölskyldunnar á vegum ráðuneytis míns. Þetta er ekki tæmandi upptalning og ekki tíunduð nema að hluta baráttumál flokks míns sem lofar að hafa "Fólk í fyrirrúmi".
Við lofuðum fjölgun starfa, það var rækilega efnt, við lofuðum milljarði til viðbótar í fíkniefnavarnir, hann er kominn og vel það, við lofuðum afnámi tekjutengingar barnabóta að hluta, það hefur verið efnt.
Auðvitað þurfum við alltaf að huga að þeim sem minna mega sín og vinna að því að bæta hlut þeirra.

Sjálfsagt eru einhverjir hér inni sem meta lítils það sem gert hefur verið og sjá ekkert nema svart. Það er slæmt ef fólk fer að tala kjarkinn úr sjálfu sér og hvert úr öðru. Það leiðir eingöngu til óhamingju og bölmóðs. Það vitlausasta sem maður getur gert er sífellt að vera að hugsa og tala um hvað maður eigi bágt og þjóðfélagið vont.

Þó auðvelt sé að benda á hluti sem betur mega fara í málefnum fjölskyldunnar þá ber okkur líka að hafa í huga að lífskjör hér og lífsgæði eru með því allra besta sem þekkist meðal þjóða heimsins. Ég staðhæfi að frá hendi stjórnvalda er fjölskyldan engin hornreka.
Hitt er svo annað mál að hamingja fjölskyldunnar er sköpuð fyrst og fremst af henni sjálfri. Samhugur skapast innan fjölskyldunnar að einstaklingarnir finni að þeir tilheyri hver öðrum. Orðið fjölskylda er þannig mjög lýsandi, tveir eða fleiri einstaklingar sem hafa gagnkvæmar skyldur hver við annan. Það er undirstaða lífshamingjunnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta